Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ: Ég endaði á stöðum sem mig langaði ekkert að vakna upp á

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, ræðir við Reyni Traustason meðal annars um átökin innan SÁÁ, málefni samtakanna og starfsemi og sína eigin reynslu af drykkju og meðferð. Hún starfar sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi á Akureyri og segir að því lengur sem viðkomandi gefi sér tíma til þess að vinna í sjálfum sér og gefur sér tíma til þess að fara í meðferð og sinna meðferðinni því meiri batalíkur.

 

Anna Hildur Guðmundsdóttir er nýkjörinn formaður SÁÁ. Anna Hildur var reyndar formaður fyrir og gekk í gegnum mikinn slag. Hvernig líður henni?

„Ég er svolítið þreytt. Ég er smátimbruð eins og maður myndi segja; eins og ég hafi lent undir valtara. En mér líður rosa vel og er ennþá svolítið hátt uppi en ég hlýt að nálgast jörðina mjög fljótlega,“ segir hún í viðtali við Reyni Traustason.

Maður skilur ekki þessi læti öll. Út á hvað gengur þetta?

„Ef ég vissi það. Þetta eru smávaldaátök, held ég.“

- Auglýsing -

Ekki smá. Það logar heil stjórn.

Mér finnst þetta ekki samtökunum sæmandi.

„Já, það gerir það. Mér finnst erfitt að tala um þetta. Mér finnst þetta ekki samtökunum sæmandi. Þess vegna finnst mér erfitt að tala um þetta og hafa einhvern veginn orð á því. En jú, það hafa verið átök um stjórnina og erfið átök. Lítil samvinna í raun og veru frá ákveðnum hópi.“

Innan stjórnar?

- Auglýsing -

„Já, sem eru tilbúnari að gagnrýna heldur en ræða um hvernig við getum gert hlutina á annan hátt.“

Um er að ræða 48 manna aðalstjórn og svo er níu manna framkvæmdastjórn.

Reynir segist sýnast að þetta gangi út á að goðsögnin Þórarinn Tyrfingsson, sem vann gríðarlega gott starf á sínum tíma, hætti og sjái svo eftir því og vilji koma aftur. Er það málið?

Ég ber mikla virðingu fyrir honum.

„Já og nei. Ég kom inn í stjórnina fyrir tveimur árum síðan og þá var Þórarinn hættur. Ég ber mikla virðingu fyrir honum af því að hann hefur gert ótrúlega mikið fyrir þessi mál; fyrir stöðu einstaklinga með fíknisjúkdóma. Hann vann hörðum höndum hjá SÁÁ í tugi ára og frábært starf sem hefur verið unnið og samtökin eru byggð á rosalega góðum grunni. Við megum ekki gleyma því. En við erum að þróast. Og við erum að breytast. Og samfélagið okkar er að breytast; það hafa orðið hraðar breytingar í samfélaginu. Og í dag er krafist miklu meiri samvinnu. SÁÁ var oft og tíðum svolítið eyland; sá um sín mál. En í dag gengur það ekkert upp. Við þurfum þessa samvinnu við allar hinar stéttirnar í heilbrigðisgeiranum og á velferðarsviðinu.“

 

Fáránlegt

Það gustaði á aðalfundinum sem var haldinn nýlega.

„Það var verið að kjósa um 16 manns í aðalstjórnina og það voru tveir listar. Auðvitað er þetta einstaklingsframboð að bjóða sig fram en eins og þetta er, hefur verið boðið fram hópur saman sem er líka alveg fáránlegt af því að það þarf að opna þetta. Ef fólk hefur áhuga á að vinna fyrir samtökin þá á það að geta boðið sig einhvern veginn fram. En það er enginn vettvangur fyrir það. Á aðalfundinum kemur bara fram hópur af fólki: „Við ætlum að bjóða okkur fram í stjórnina.“ Það er ekkert ferli,“ segir Anna Hildur og segir að þetta þurfi að laga.

Þetta eru stærstu almannaheillasamtökin.

Er það þá ekki verkefni?

„Jú, það er verkefni sem við ætlum að fara í og þetta er landssamband. Þetta eru stærstu almannaheillasamtökin. Við erum með á milli 6.000 og 7.000 félagsmenn sem eru skráðir hjá SÁÁ alls staðar að af landinu en þú þarft að vera í Reykjavík til að eiga atkvæðisrétt eða koma til Reykjavíkur á aðalfund. Það er mismunurinn í því.“

En stóru tíðindin eru að Þórarinn bauð sig fram og náði ekki inn í stjórn.

 

Opna samtökin

Anna Hildur er spurð hvort meiri peningur sé stóra málið fyrir SÁÁ.

„Ekkert endilega meiri peningur. Auðvitað viljum við fá meiri pening, en það er ekkert krafa. Við fáum 1,1 milljarð frá ríkinu sem við erum með samning um eða næstum því 1,3 milljarð. Svo erum við að safna rosalega miklum peningum. Og auðvitað viljum við safna meiru. Svo er bara að fara vel með það sem við höfum. Ráðstafa því rétt. Það er það sem skiptir máli.“

Þannig að þú ert ekkert að kalla eftir stórauknum fjárveitingum heldur horfa meira á hvað þið gerið við peningana.

Biðtíminn inn í meðferð er ekkert langur.

„Já, og líka að við fáum greitt fyrir sjúkrahússþjónustuna af því að í dag erum við að borga með sjúkrahússrekstrinum; samtökin veita sjúkrahússrekstrinum styrk til þess að ná endum saman þar. En draumurinn væri auðvitað að það væri gerður samningur um sjúkrahúsið Vog. Og þá gætum við nýtt peningana sem við söfnum í að þróa alls konar úrræði. Bjútíið í SÁÁ er líka að við erum alltaf að bregðast við vandanum sem er hverju sinni af því að við ráðum okkur svolítið sjálf. Þannig að við erum þá oft að bregðast við ástandinu í þjóðfélaginu hverju sinni sem er frábært. Við vitum hvað heilbrigðiskerfið er þungt í vöfum; bara erfitt að fá þjónustu á geðdeildum og fleiru. En það er ekki þannig hjá okkur. Það er mjög auðvelt og biðtíminn inn í meðferð er ekkert langur. Ef þú ert að koma í fyrstu komu og hefur aldrei komið áður þá ertu að bíða í hálfan mánuð; þú hringir, færð dagsetningu og færð pláss eftir hálfan mánuð. Og það er ekki langur biðtími. Það er enginn biðtími af því að fólk þarf að gera ráðstafanir. Þú þarft kannski að koma börnunum þínum í pössun eða fá frí í vinnunni og hitt og þetta. Þannig að sá biðtími er ekki langur.“

Stóru málin fram undan er að laga lýðræðið innan samtakanna þannig að þetta verði allt heilbrigðara og dreifðara.

Við erum bara öll að þessu saman.

„Við ætlum að opna samtökin aðeins meira. Þetta hefur verið svolítið lokað finnst okkur og við ætlum að breyta svolítið ferlinu í kringum aðalstjórnina og búa til meiri vinnuhópa. Við erum búin að vera í innri greiningarvinnu og fengið til okkar utanaðkomandi aðila til að hjálpa okkur að gera það. Og við erum búin að vera að búa til ýmsa umbótahópa í starfseminni. Við höfum verið að vinna neðan frá og erum núna að fara að byrja umbótavinnuna ofan frá. Þannig að við mætumst á miðri leið. Þetta er að virka og þetta er allt í samtali og samvinnu. Það er ekkert þannig að einhver einn ráði í dag. Við erum bara öll að þessu saman. Framkvæmdastjórnin er rosalega virk.“ Níu manns eru í framkvæmdastjórninni eins og þegar hefur komið fram. „Og við vinnum vel með stjórnendum meðferðarsviðs þannig að það er skemmtilegt verkefni fram undan.“

 

Krafa upp á 37 milljónir

Hvað með þetta sjúkratryggingamál? Er búið að leysa það?

„Það er ekki búið að leysa það. En það er í vinnslu. Það fór kæra inn til ríkissaksóknara sem við vitum ekkert hvað er um; við höfum ekkert fengið að vita það.“

Út á hvað gekk þetta?

„Þetta gekk út á fjarþjónustuna. Við vorum undir eftirliti; fengum eftirlit á okkur og þetta er sá liður sem heitir „fjarþjónusta“ af því að það var ekki samningur við Sjúkratryggingar um fjarþjónustu. Og við veittum fjarþjónustu í Covid og fáum kröfu á okkur upp á 37 milljónir um það sem við erum samt búin að bakfæra í dag.“

Við veittum þjónustuna en við máttum ekki veita hana.

Um 37 milljónir til endurgreiðslu?

„Já. Við veittum þjónustuna en við máttum ekki veita hana.“

Þetta voru símtöl.

„Já, sem við máttum ekki veita af því að það er ekki samningur um fjarþjónustu.“

37 milljónir eru svolítið högg.

„Já, en við ráðum alveg við það. Krafan var upphaflega um 174 milljónir en við erum búin að vera í samtali við Sjúkratryggingar um restina sem er þá í nýjum heildarsamningum og þær samningaviðræður eru hafnar. Þetta eru gamlir samningar og þurfa heildarskoðun. Við þurfum að gera samninga um þjónustu sem við erum að veita í dag; ekki um þjónustu sem við vorum að veita fyrir fimm árum, átta árum eða 10 árum síðan. Það er svo margt búið að breytast.“

Þannig að framtíðin er sú að gera þetta enn þá sterkara.

„Enn þá sterkara. Enn þá betra og halda áfram að leiða þessa vinnu sem er hérna á Íslandi. Við erum leiðandi í þessari vinnu á heimsvísu. Ég held að þetta þekkist ekki neins staðar annars staðar svona samtök eins og SÁÁ. Og þetta er svo mikill fjársjóður.“

 

Vinna með áföllin

Anna Hildur er spurð hvað mikilvægast sé að gera til þess að lækningin gangi betur. Hverju þurfa þau að breyta eða hvaða skref þarf að stíga? Hvernig er best að ná utan um vandann hverju sinni?

„Fyrsta skrefið er kannski að fara í viðtal hjá ráðgjafa; bara átta sig á hver vandinn er og hvað þurfi að gera. Það þarf að finna út hvort viðkomandi þurfi að fara í inniliggjandi meðferð eða í göngudeildarmeðferð.“ Ef inniliggjandi meðferð er valin þarf að panta pláss á Vogi . „Þegar þú ert kominn inn á Vog þá finnum við út hvort þú þarft að fara í göngudeildarmeðferð eftir Vog eða inniliggjandi meðferð upp á Vík. Það er svo mikilvægt að greina hver vandinn er þannig að þú fáir réttu meðhöndlunina.“

Við þurfum að skoða áföllin.

Anna Hildur segir að það fari eftir ástandi hvers og eins þegar hann kemur inn á Vog hvaða þjónustu hann fær; hvort hann þurfi mikla afeitrun eða ekki. „Síðan ferðu í þá hópmeðferð sem þú þarft á að halda.“

Á hvaða leið erum við sem þjóð?

„Við vitum alltaf meir og meir og erum alltaf að læra meira og meira. Það sem við erum kannski að átta okkur meira á er hvað þetta er oft og tíðum flókið; öll áföllin. Að vinna með áföllin. Hér áður fyrr var bara svolítið unnið með fíknina; þú þurftir bara að vera edrú. Við þurfum að skoða áföllin. Það eru margir að glíma við alls konar áföll. Við þurfum að vinna með þau.“

 

Vond tilfinning

Anna Hildur er búin að vera edrú í 19 ár.

 

„Þegar ég hætti fyrir 19 árum síðan datt mér aldrei þetta í hug sem ég er búin að upplifa. Maður fer að upplifa frelsið. Og þetta val; ætla ég að vera inni í einhverjum aðstæðum sem mér líður ekki vel í eða ætla ég að fara út úr þeim? Það val hafði maður aldrei.“

Hún var ung þegar hún byrjaði að drekka og djamma. „Mér fannst það vera ógeðslega gaman en drakk alltaf mikið og illa og lenti í aðstæðum sem maður átti ekkert að lenda í; ég endaði á stöðum sem mig langaði ekkert að vakna upp á.“

Maður var fastur. Þetta var svo vond tilfinning.

Hún var 32 ára þegar hún hætti. „Ég var komin með tvö börn og var búin að gifta mig og þetta var farið að hafa svolítil áhrif á hjónabandið; barnsfaðir minn er óvirkur. Og auðvitað hafði þetta truflandi áhrif. En aðallega var þetta vonleysi og þessi ofboðslega óánægja með sjálfa sig og lífið. Og hnúturinn; þessi stóri hnútur sem er innan í manni. Og einhvern veginn alveg sama hvað maður gerði – það gerðist aldrei neitt. Maður var fastur. Þetta var svo vond tilfinning.“

 

Hún var komin í dagdrykkju.

 

„Rauðvínið var gott. Ég bjó á Spáni. Svo skildi ég aldrei þetta nöldur í fólki þegar það var að hafa áhyggjur af mér; mér fannst ég ekkert vera leiðinleg.“

 

Dugði þér ein atrenna til að hætta?

„Já.“

Það er svolítið gæfa.

„Já, það er svo.“

Frekar en að ströggla.

Ég fór eftir þessum leiðbeiningum.

„Já, ég var rosalega hlýðin. Ég verð að viðurkenna það. Ég fór eftir þessum leiðbeiningum. Ég fór á Vog og ég fór á Vík. Svo fór ég aftur til Spánar og fékk aðstoð í gegnum síma frá ráðgjafanum mínum á göngudeildinni. Svo fór ég á AA-fundi og stofnaði ásamt vinkonu minni deild á Kanaríeyjum þar sem ég bjó og nýtti mér það prógramm. Svo notaði ég þetta dagsplan sem var alltaf verið að tala um í meðferðinni sem er að passa svefninn sinn, passa að hreyfa sig, passa að borða og reyna að slaka á og stunda einhverja sjálfsskoðun. Ég tók þessu öllu mjög alvarlega.“

Þannig að þú fylgdir öllum reglum.

„Já.“

 

Koma augnablik

Vogur.

Hvernig var tilfinningin að vera komin inn á Vog? Er maður ekki settur í náttföt?

„Jú. Mér fannst þetta rosa erfitt og ég grenjaði fyrstu tvo dagana. Hugsaði bara „hvert er ég komin? Anna Hildur bara komin inn á Vog“. Þetta stóð ekki á neinum markmiðalista eða á einhverju plani hjá mér.

Alveg ofboðslega erfitt.

Ég var heimavinnandi húsmóðir með tvö lítil börn þannig að mér fannst þetta erfitt; alveg ofboðslega erfitt. En fattaði mjög fljótlega að þarna átti ég heima. Ég tengdi rosalega fljótt við að hugsanlega, mögulega, kannski var þetta bara minn vandi; að áfengi og Anna Hildur væri ekki gott par. Þetta er endalaus vinna.“

Þú getur ekkert slakað á þótt þú sért komin alla þessa leið?

„Ekki kannski slakað á; auðvitað er maður aðeins slakari. Þetta er orðinn meiri lífsstíll hjá manni. En ég er alltaf með þetta á bak við eyrað að áfengi og ég eigum ekki vel saman.“

Gætir þú fallið?

„Já, ég held að allir geti fallið ef þeir passa ekki upp á sig.“

Anna Hildur segir að það hafi stundum komið augnablik þegar hún er með vinkonum sínum að sig langi til að vera með þegar ákveðin stemmning er í gangi en hún er sú eina sem drekkur ekki. „En fimm til 10 sekúndum seinna þá „nei, mig langar ekki að vera með“.“

Hún segist ekki fara mikið á fundi. „En ég er með gott stuðningsnet. Maðurinn minn er óvirkur og ég á vinkonu sem er Al-Anon-manneskja og ég á rosalega gott tengslanet. Af því að þegar ég var ráðgjafi hjá SÁÁ og var að vinna fyrir norðan þá var stundum mjög erfitt í svona litlu samfélagi að vinna sem ráðgjafinn og vera svo líka á AA-fundum. Það verða kannski smá óþægindi en samt á það ekki að vera. Maður er bara mannlegur.“

Það er kannski erfitt fyrir þig að vera á AA-fundi með skjólstæðingi þínum.

„Til dæmis. Þannig að ég bjó mér til stuðningsnet. Ég hreyfi mig mikið. Ég fer mikið út að labba. Ég hef vanið mig á það að reyna að labba alltaf eftir vinnudaginn vegna þess að þá nær maður að hreinsa hausinn og losa aðeins um spennuna eftir daginn. Svo nota ég sundið mikið. Við erum forréttindaþjóð að fá að fara í sund. Það er náttúrlega bara geggjað.“

 

Alltaf von

Jú, Anna Hildur Guðmundsdóttir er áfengis- og vímuefnaráðgjafi og vinnur sem slíkur hjá Akureyrarbæ. „Ég vann hjá SÁÁ í mörg ár. Ég vann hjá þeim í 11 ár; ég byrjaði að vinna hjá SÁÁ 2005 og hætti 2016.“

Fylgir ekki þessu starfi sársauki; ertu ekki að horfa upp á ótal harmleiki?

Þetta er rosalega erfið vinna.

„Jú, þetta er erfið vinna. Þetta er rosalega erfið vinna. En við fáum líka ofboðslega góða handleiðslu og það er haldið vel utan um okkur sem starfsmenn og ráðgjafa. Það er svo mikið af verkfærum sem við höfum til þess að vinna með okkur líka og við vinnum í dag í teymum þannig að við höldum mikið utan um hvert annað líka.“

Hverjar eru batahorfurnar?

„Því lengur sem þú gefur þér tíma til þess að vinna í sjálfum þér og gefur þér tíma til þess að fara í meðferð og sinna meðferðinni því meiri batalíkur. Og það er talað um að ef þú sért í meira en þrjá mánuði í meðferð – þá meina ég að fara kannski á Vog eða fara í göngudeildarmeðferð – og sækja síðan stuðning eftir það, það gæti verið göngudeild, þá eru 60% meiri líkur á því að þú sért þá edrú í lok ársins. Því að því lengri samskipti sem þú hefur við fagfólk því meiri líkur eru á að þú náir að vera edrú lengur.“

Er alltaf von hjá öllum?

„Já.“

Það er alltaf von?

„Já, ég trúi því. Annars gæti ég ekki verið að vinna þessa vinnu.“

En tekur þú aldrei inn á þig þegar þú ert búin að vera að hlúa að einhverjum og svo fellur hann?

„Jú, auðvitað. Rosalega. Og maður verður stundum ofboðslega svekktur og líður illa og stundum verður maður reiður. En þá á sama tíma verður maður að hugsa vel um sjálfan sig. Ég hugsa vel um mig.“

Samfélagið hefur verið gjarnt að líta niður á rónana eins og við segjum eða drykkjufólkið og kalla þetta aumingjaskap og alls konar. Er þetta viðhorf ekki að breytast tiltölulega hratt?

Það geta verið mörg atriði sem þarf að vinna í.

„Jú, ég held það. Þess vegna þarf þessa samfellu og þessa samþættingu og fleira að vinna saman af því að það er ekki bara nóg að fara bara í afeitrun og fara síðan í meðferð. Það þarf að skoða húsnæðismál viðkomandi. Það eru svo margir þættir sem þurfa oft og tíðum að smella saman til þess að einstaklingar nái bata. Það er ekki bara eitthvað eitt. Það geta verið mörg atriði sem þarf að vinna í og þá þarf maður að byrja einhvern veginn að forgangsraða. Hvað ætlum við að byrja að gera? Hvað getum við gert svo? Þannig að eitt leiði af öðru. Það er líka fullt af fólki sem langar ekkert að hætta í neyslu akkúrat núna en við getum samt aðstoðað það á einhvern hátt til þess að bæta lífsgæði þess.“

 

Epli og appelsínur

Er þetta ekki genetískur sjúkdómur?

„Jú, að hluta til.

Ég á tvær dætur og við erum bæði óvirkir alkóhólistar, foreldrarnir. Og maður auðvitað fékk smá í magann með börnin sín. Verða þau eins og við? Og þá byrjar maður að svitna og fær andköf. En maður sér alveg tendensana; maður sér ákveðna hegðun en á sama tíma búa börnin okkar að okkur sem erum í lagi. Og við erum ekki að glíma við vandann enn þann dag í dag. Þá er náttúrlega stuðningsnetið miklu betra.“

Það var náttúrlega ekkert hérna áður fyrr.

„Nei, þetta eru bara tveir ólíkir tímar. Það er ekki hægt að bera þetta saman. Þetta eru bara epli og appelsína.“

Anna Hildur er spurð hvort hún hafi séð kraftaverk í þessum bransa.

„Já, oft og tíðum. Á hverju ári.

Það er það sem vinnan gengur út á. Oft og tíðum eru þetta erfiðar fæðingar. Batinn er oft lengi að gerast. Og fæðingin er erfið. En svo þegar þetta gerist þá er þetta svo magnað.

Þegar maður er að sjá fólkið sitt þegar það er komið í samband, farið að vinna og komið með börn og einhvern veginn lífið leikur við það: Oh, æðislegt. Þetta er geggjað.“

Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -