Arnar nokkur er ekki sáttur með þá þjónustu sem hann fékk eftir að hafa auglýst eftir fólki til að henda fyrir sig raftækjum á Sorpu. Hann treysti fólkinu til að klára verkið almennilega en komst svo að því að raftækjunum hafði verið hent í kirkjugarðinum í Fossvogi.
Arnar segir frá reynslu sinni inni í hópnum Vinna með litlum fyrirvara á Facebook og varar þar fólk við svona lélegri þjónustu. Hann biður fólk um að ganga úr skugga um að draslinu þeirra sé raunverulega skilað til Sorpu.
„Þegar þið borgið einhverjum fyrir að fara með rusl í Sorpu fyrir ykkur, þurfið þið að ganga úr skugga um að viðkomandi fari með það í Sorpu. Þið borgið ekki, fyrr en þið eruð búin að fá mynd af ruslinu ykkar staðsettu í gámi hjá Sorpu! Þessi ísskápur og örbylgjuofn eru í kirkjugarðinum í Fossvogi,“ segir Arnar.