Laugardagur 24. september, 2022
10.1 C
Reykjavik

Árni segir það aldrei leyndarmál að Róbert Wessman hafi verið þátttakandi gegn Björgólfi Thor

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, segir það aldrei hafa verið leyndarmál að Róbert Wessman hafi verið þátttakandi í hópmálsókn gegn Björgólfi Thor Björgólfssyni. Enda hafi þeim báðum þótt það þjóðþrifaráð. Heimildir Mannlífs herma að Róbert hafi verið þátttakandi málsins frá upphafi og kostað það að stórum hluta.

Róbert hefur frá árinu 2010 fjármagnað málarekstur fyrrum hluthafa Landsbanka Íslands, gegn Björgólfi Thor, fyrrum eiganda bankans. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs hefur heildarkostnaðurinn vegna málareksturs og kaupa á verðlausum hlutabréfum bankans er vel á annað hundrað milljónir króna. Þekktir einstaklingar hafa stigið fram í málinu fyrir tilstuðlan Róberts og má þar nefna Kristján Loftsson úr Hval og Vilhjálm Bjarnason fyrrverandi þingmann Sjálfstæðisflokksins. Lögmannsstofa Róberts hefur nú unnið að málinu samfleytt í nærri 10 ár en það hefur þvælst um öll stig dómskerfisins á Íslandi án endanlegrar niðurstöðu.

Sjá meira hér: Róbert Wessmann fjármagnaði rúmlega 100 milljón króna málsókn gegn Björgólfi Thor. 

Árni Harðarson, aðstoðarforstjóri Alvogen, vildi ekki láta hafa neitt beint eftir sér vegna málsins þegar Mannlíf ræddi við hann.

Samkvæmt heimildum Mannlífs bauð Róbert, í gegnum lögmannsstofuna Landslög, þeim Kristjáni og Ólafi skaðleysi gegn hugsanlegum skaðabótakröfum Björgólfs Thors. Skaðleysisábyrgð Róberts hafi einnig verið boðin Jóhannesi Bjarna Björnssyni, lögmanni hjá Landslögum, vegna hans aðkomu að málinu. Umrædd skaðleysistrygging myndi, ef til kæmi, gera það að verkum að Róbert, eða félag í hans eigu, þyrfti að greiða allan lögfræðikostnað og mögulegar bætur ef gagnaðili myndi sækja slíkt mál. Hvort þeir þremenningar hafi þegið skaðleysið er aftur á móti óstaðfest. Mannlíf hefur undanfarna daga leitað svara við þeirri spurningu en aðilar hafa ýmist neitað að svara þeim eða ekki látið ná í sig.

Í samtali við Mannlíf staðfestir Árni þátttöku Róberts en vildi ekki staðfesta ákveðnar upphæðir sem Róbert hafi kostað til vegna málsins. Aðspurður segist Árni ekki vita til þess að þeim þremenningum hafi verið tryggt skaðleysi gegn mögulegum stefnum Björgólfs Thors, til dæmis vegna rangra sakargifta eða skaða á mannorði sínu í því sem Björgólfur sjálfur hefur kallað rógsherferð.

Þegar fótspor Árna og Róberts komu í ljós hafði Björgólfur Thor þetta að segja:
„Hinir ljósfælnu gammar og leppar þeirra kæra sig kollótta þótt almennir hluthafar séu blekktir og trúverðugleika lífeyrissjóða stefnt í voða. Lægra verður varla lagst.“

Fótspor Árna komu fram árið 2015 þegar greint var frá hlutabréfakaupum hans á verðlausum bréfum í Landsbankanum. Að Róbert hafi verið þátttakandi frá upphafi málsins hefur hins vegar ekki fengist staðfest fyrr en nú. Sem er öfugt við það sem Ólafur Kristinsson lögmaður hefur sagt því hann hefur staðfestlega neitað allri aðkomu Róberts. Það var einmitt sjálfur Ólafur sem hóf málið árið 2010 og hann hefur hingað til haldið fast í þá sögu sína að Róbert hafi þar hvergi komið nærri.

Árið 2010 opnaði Ólafur málið með þessari grein í Viðskiptablaðinu.
- Auglýsing -

Ólafur sagði í samtali við Mannlíf um helgina að hann hefði aldrei séð Róbert Wessman nema í fjölmiðlum og að hann hafi enga aðild haft að þessu máli. Hann segir jafnframt að sér hafi „blöskrað“ við upphaf málsins og því hafi hann ráðist í málsóknina, án þess að skýra þau orð frekar.

Mannlíf heldur áfram að velta upp þeim spurningum hvers vegna Ólafur heldur áfram að neita aðkomu Róberts að málinu. Samkvæmt heimildum Mannlífs, var það Árni Harðarson, sem fékk Ólaf að málinu í upphafi þar sem hann þótti trúverðugur aðili, en hann hafði verið lítill hluthafi í bankanum. Ólafur og Árni eru einnig gamlir kunningjar og störfuðu saman hjá Deloitte um árabil. Aðspurður segist Árni ekki vita hvers vegna Ólafur neiti allri aðkomu Róberts enda séu þeir Róbert ekki í sambandi við Ólaf vegna málsins.

Ólafur hefur sagst vera að leita að kvittunum sem staðfesti greiðslur vegna málsins en vildi að öðru leiti ekki upplýsa hvernig málaferlin sem talið er að hafi kostað vel á annað hundrað milljónir króna var fjármagnað. Ólafur bætti við að hugsanlega væri búið að eyða þessum gögnum.

- Auglýsing -

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fengust ekki svör frá Kristjáni Loftssyni við vinnslu fréttarinnar. Hið sama má segja um Jóhannes Bjarna Björnsson, lögmann Róberts hjá Landslögum, og Ólaf Kristinsson lögmann. Reimar Pétursson, lögmaður Björgólfs Thors, vildi heldur ekki ræða málið þegar eftir því var leitað.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -