Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Ársæll skólastjóri segir frá hinstu ósk Brynjars: „Óútskýranlega fallegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, skrifar sérstaklega fallega minningargrein um Brynjar Gunnarsson, kennara sem lést langt fyrir aldur fram, í Morgunblaðið í dag. Brynjar var frjálsíþróttamaður, þjálfari og íþróttafræðingur en hann lést á skírdag, 32 ára að aldri. Hann barðist við illvígt krabbamein en Ársæll hefur orð á því að þá baráttu háði Brynjar á einstaklega fallegan hátt.

Það er ljóst að Brynjar skilur eftir sig stórt skarð hjá nemendum Borgarholtsskóla. „Við erum öll harmi slegin. Yndisleg manneskja, samstarfsmaður og framúrskarandi kennari verður jarðsunginn í dag. Í dag er kveðjustund. Sagt er að við lifum bara einu sinni en hið rétta er að við deyjum bara einu sinni en lifum alla daga. Þannig munum við Brynjar Gunnarsson og þannig mun minning hans lifa með okkur. Hann áorkaði ótrúlega miklu og kom svo mörgu jákvæðu til skila í sínu lífi. Hann kenndi svo mörgum svo margt fallegt sem er nú veganesti þeirra sem þekktu hann, störfuðu með honum og lærðu hjá honum. Kennsla er eitt mikilvægasta starfið sem til er vegna þeirra áhrifa sem hún og kennarinn hafa á mótun, líðan og framtíð nemendanna. Þannig fylgir góður kennari nemandanum sínum alla ævi,“ skrifar Ársæll.

Ársæll segir að hans hinsta ósk hafi verið að fá að kenna til æviloka. „Brynjar kom til starfa í Borgarholtsskóla árið 2016 og starfaði við kennslu á afreksíþróttasviðinu fram á þetta ár. Hann kenndi og þjálfaði af lífi og sál og af hugljómun. Ég ræddi við hann í vetur um stöðu veikindanna og hvað skólinn gæti gert fyrir hann og svarið var einfalt: „Ég þarf bara að vera með nemendunum mínum því með þeim, í kennslunni, við þálfunina, gleymast allar þrautir og þá fæ ég minn kraft.“ Brynjar gaf mikið af sér til nemenda og samstarfsfólks með hugarfarinu sem var alltaf uppbyggjandi og einkenndist af jákvæðni. Æðruleysið var aðdáunarvert,“ segir í minningargrein hans.

Hann segir að Brynjar hafi verið fyrirmynd, á fleiri en einn hátt. „Brynjar er okkur öllum fyrirmynd hvernig hægt er að takast á við erfiðleika og andstreymi og breyta því sem vanalega brýtur mann niður í styrkleika og eitthvað óútskýranlega fallegt. Allt gerði hann með svo mikilli hógværð, auðmýkt og fallegu brosi. Á löngum köflum fékk Brynjar okkur samstarfsfólk sitt til að gleyma því að hann stæði í daglegri baráttu við illvígan sjúkdóm því ástríðan við kennslu og þjálfun var svo innileg og hugsjónadrifin. Starfsfólk Borgarholtsskóla og nemendur sakna vinar og samstarfsmanns. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur og öllum nemendum þínum. Stefaníu, Mána, aðstandendum og vinum færum við okkar dýpstu samúðarkveðjur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -