2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Ástarmóðirin“ sem ættleiddi 118 börn dæmd í 20 ára fangelsi

54 ára gömul kínversk kona sem hafði öðlast frægð og frama fyrir meinta umhyggju sína gagnvart börnum, var á dögunum dæmd í 20 ára fangelsi fyrir ýmiss konar fjárplógsstarfsemi.

Saga Li Yanxia er um margt lygileg. Hún öðlaðist frægð árið 2006 þegar kínverskir fjölmiðlar fjölluðu um mannúðarstörf hennar í heimabæ sínum Wu´an, en þar hafði hún ættleit og skotið skjólshúsi yfir tugi barna.

Hún sagðist þá vera fráskilin og að fyrrum eiginmaður hennar hafi selt son þeirra í hendur glæpagengis. Henni hafi hins vegar tekist að endurheimta son sinn og þá hafi hún einsett sér að því að hjálpa öðrum börnum. Í gegnum árin hafi henni áskotnast auður sem hún notaði til að kaupa námufyrirtæki og þegar hún sá umkomulausa stúlku nærri námunni ákvað hún að taka hana að sér. „Faðir hennar hafði látið lífið, móðir hennar strauk í burtu….þannig að ég tók hana að mér. Hún var fyrsta barnið sem ég ættleiddi,“ er haft eftir Li í staðarblaðinu Yanzhao Metropolis Daily.

AUGLÝSING


Þessi umhyggja hennar vatt svo upp á sig og ættleiddi hún tugi barna. Hún setti á fót munaðarleysingjahæli sem kallaðist „Ástarþorpið“ og var hún fyrir vikið kölluð „Ástarmóðirin“. Á hápunkti starfseminnar, árið 2017, bjuggu 118 börn á munaðarleysingjahælinu. Kínverskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um starfsemina og fyrir vikið var fjöldi fólks tilbúinn að leggja starfseminni lið með fjárframlögum.

En ekki var allt sem sýndist. Lögregluyfirvöldum fór að berast ábendingar um að ekki væri allt með felldu í starfseminni. Í maí í fyrra fann lögreglan háar fjárhæðir inni á bankareikningum Li, andvirði 2,4 milljóna króna í dollurum og hvorki meira né minna en andvirði 355 milljóna króna í júan. Hún átti sömuleiðis safn glæsibifreiða á borð við Land Rover og Mercedes Benz.

Við nánari rannsókn kom í ljós að Li hafði stundað hvers kyns fjárplógsstarfsemi allt frá árinu 2011, meðal annars fjárkúgun. Þannig sigaði hún hinum ættleiddu börnum á byggingasvæði til að stöðva vinnu verktaka og sagði þeim meira að segja að leggjast undir vinnuvélarnar. Svo heimtaði hún fé frá verktakafyrirtækjunum svo að þau gætu haldið vinnu sinni áfram. Einnig er hún sögð hafa stungið framlögum til Ástarþorpsins í eigin vasa.

Þegar Li var hneppt í varðhald voru 74 börn í hennar umsjá. Þeim hefur verið komið fyrir á viðeigandi stofnunum.

Li var svo í vikunni dæmd í 20 ára fangelsi og gert að greiða andvirði 48 milljóna króna í sekt. 15 aðrir samverkamenn hlutu einnig dóma, þar á meðal kærasti hennar sem hlaut 12 og hálfs árs fangelsisdóm og sekt sem nemur 30 milljónum króna.

BBC greinir frá.

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is