Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.8 C
Reykjavik

Bak við skjáinn er manneskja með tilfinningar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýlega fór af stað alþjóðleg herferð snyrtivörurisans Rimmel gegn neteinelti. Markmiðið er að berjast gegn þessu stóra vandamáli sem viðgengst í öllum krókum og kimum samfélagsins. Samfélagsmiðlastjarnan Erna Kristín Stefánsdóttir, betur þekkt sem Erna á Ernulandi, er andlit herferðarinnar hér á landi en hún hefur upplifað neteinelti á eigin skinni.

Erna er í háskólanámi samhliða því að vinna á samfélagsmiðlum en hún klárar embættispróf í guðfræði innan skamms. Hún hefur verið talskona jákvæðrar líkamsímyndar en fyrir jól kemur út bókin Fullkomlega ófullkomin eftir Ernu. Hún segir bókina vera hvatningarrit fyrir konur með það að markmiði að þær læri að elska sjálfar sig eins og þær eru.

Óraunhæfar kröfur gerðar til líkama kvenna
„Herferð Rimmel sem snýr að neteinelti og því óöryggi sem fylgir því að lenda í slíku og bera sig stöðugt saman við óraunhæfar staðalímyndir helst vel í hendur við umræðuna um jákvæða líkamsímynd. Í bókinni má finna fullt af myndum af konum af öllum stærðum og gerðum, reynslusögur, gagnlega punkta til að taka fyrstu skrefin í átt að sjálfsást og margar staðreyndir sem snúa að óraunhæfum staðalímyndum og hversu óraunhæfar kröfur hafa verið gerðar til líkama kvenna frá örófi alda.“
Yfir helmingur kvenna sem notar samfélagsmiðla segist vera það brotnar eftir neteinelti að þær eigi erfitt með að tjá sig þar.
„Það er mikil þörf á þessari umræðu og ég myndi segja að bókin frá mér sé heiðarleg tilraun til að fella niður þessar staðalímyndir. Með von um að fleiri konur finni kjarkinn til að taka skrefið í átt að sjálfsást, finna að þær séu „nóg“, burtséð frá viðhorfi annarra í okkar garð, þá er samþykkið frá okkur sjálfum það sem skiptir höfuðmáli.“

Fyrir jól kemur út bókin Fullkomlega ófullkomin eftir Ernu Kristínu Stefánsdóttur. Hún segir bókina vera hvatningarrit fyrir konur með það að markmiði að þær læri að elska sjálfar sig eins og þær eru. Mynd / Hallur Karlsson.

Alltaf einhverjir sem vilja brjóta mann niður ef vel gengur
Eins og fyrr segir hefur Erna Kristín sjálf orðið fyrir neteinelti. Hún segir það óneitanlega fylgifisk þess að vera áberandi á samfélagsmiðlum.
„Það eru alltaf einhverjir sem vilja brjóta mann niður þegar vel gengur, það er bara þannig. Þegar ég lenti í því fyrst, var ég ekki komin með þessa brynju sem ég er með núna og tók því eineltið mikið inn á mig. Það fékk mig til þess að íhuga að loka öllum miðlunum mínum og ég fór að efast um sjálfa mig og allt sem ég gerði. Ég tók þannig á þessu á þeim tíma að ég tók mér smápásu frá samfélagsmiðlum, vildi bara fá rými til þess að anda og vita hvað ég vildi gera í framhaldinu en staðreyndin er sú að 57% þeirra sem verða fyrir neteinelti segja ekki frá því.“
Erna vildi vera viss um að hún hefði kjarkinn til þess að láta eineltið ekki brjóta sig niður ef og þegar óviðeigandi athugasemdir bærust.
„Ég ræddi þessi eineltismál á samfélagsmiðlum, ég vildi bara minna á að bak við skjáinn væri manneskja með tilfinningar og því mætti ekki gleyma. Ég kaus svo að halda áfram og það má segja að eftir þessa lífsreynslu hafi ég orðið mun öruggari á samfélagsmiðlum. Mér tókst að setja upp ákveðna brynju, þar sem niðrandi athugasemdir fá ekki rými. Næsta skref finnst mér svo vera að passa að ég kæmi ekki svona illa fram við sjálfa mig. Maður þarf að muna að maður er „nóg“ og læk eða komment einkenna mann ekki sem manneskju. Maður þarf ekki að fá x mörg læk til þess að vera frábær. Þú ert það nú þegar og engin læk á samfélagsmiðlum hafa eitthvað með þig og þitt líf að gera. Verum öruggar í því sem við gerum og munum að við erum okkar eigin fyrirmyndir. Tölum fallega til okkar og elskum okkur eins og við erum,“ segir Erna Kristín að lokum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -