Sunnudagur 2. október, 2022
7.8 C
Reykjavik

Jón Viðar um gagnárás Baltasars: „Hans útgáfa af tveggja manna tali og mér er alveg sama“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Baltasar Kormákur skefur ekki af hlutunum í viðtali við Vísir nú í dag, þar sem leikstjórinn og framleiðandinn svarar neikvæðri umfjöllun leikhúsgagnrýnandans Jóns Viðars Jónssonar fullum hálsi. „Hann er í raun bara nettröll,“ segir Baltasar og segir Jón Viðar hafa sjálfan sóst eftir starfi við handritsgerð fyrir Netflix-seríuna Kötlu, sem frumsýnd var í gær.

Mannlíf leitaði viðbragða gagnrýnandans, sem neitaði að gefa nokkuð upp í viðtali við blaðamann rétt í þessu og segir augljóst að leikstjórinn sé í miklu uppnámi eftir ritdóminn. Baltasar rifjar hins vegar samtalið upp og segir: „Ég hitti hann [Jón Viðar] í sundi af tilviljun og hann fór að ræða við mig og svo fór hann að bjóða fram krafta sína í skrifteymið þegar ég sagði honum að ég væri með þessa þætti í bígerð,“ og á leikstjórinn þar við nýútkomna þáttaröðina á Netflix. „Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið því maðurinn hefur verið að rakka niður allt sem ég hef gert í fimmtán ár,“ heldur leikstjórinn áfram og nefnir neikvæða umsögn Jóns Viðars um fyrirhugaða þáttagerð leikstjórans sem byggir á Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness. „Hann réðist á Sjálfstætt fólk sem ég er ekki einu sinni búinn að gera.“

Jón Viðar hafi þá einnig ráðist gegn Gerplu, Ófærð I og II og að leikhúsgagnrýnandinn hafi loks sagt kvikmyndina Everest í einu orði andstyggilega. Í kjölfarið hafi svo Jón Viðar sóst eftir stöðu handritshöfundar við gerð Kötlu. „Ég auðvitað þáði það ekki. Í ljósi þessara árása skýtur þetta skökku við. Ég kom alveg af fjöllum að maðurinn vildi vinna fyrir mig, fyrst honum finnst ég svona lélegur og svo vissi ég ekki til þess að hann hafi skrifað eitt einasta kvikmyndahandrit þannig að ég veit ekki hvers vegna ég hefði átt að ráða hann,“ segir leikstjórinn og einnig að nú sé nóg komið. “Þetta er meira en gagnrýni, þetta eru persónuárásir og enginn rökstuðningur eða kafað neitt ofan í málið. Hann er í raun bara nettröll.“ Þá gegni Jón Viðar ekki einu sinni opinberri stöðu sem slíkur. „Af því að hann vann einu sinni sem gagnrýnandi virðist hann fá þetta ofboðslega pláss til að hrauna yfir fólk. Það er engin önnur stétt sem situr undir þessu.“

Leikstjórinn og gagnrýnandinn hafa lengi eldað grátt silfur og rifjar Baltasar þannig upp orðaskak vegna útgefinna hugverka sem hann segir spanna tæpa tvo áratugi. „Hann hefur ráðist á allt sem ég hef gert eftir 2006. Hann fær auðvitað mikla athygli þegar hann ræðst á mig.“ Þá segir leikstjórinn orðalag Jóns Viðars jaðra við hreinan dónaskap. „Hann er að hæðast að fólki og þetta er orðið svo yfirdrifið hjá honum. Þetta er búið að vera svona í fimmtán ár.“

Jón Viðar Jónsson sagði aðspurður um fyrrgreint í viðtali við blaðamann MANNLÍF nú rétt í þessu að um tveggja manna tal milli þeirra Baltasars hefði verið að ræða. Engin ástæða væri til að greina fjölmiðlum frá því hvort gagnrýnandinn hafi nokkru sinni falast eftir stöðu handritshöfundar við gerð Kötlu, Netflix-seríunnar. „Ég ætla ekki að segja nokkurn skapaðan hlut. Þetta eru bara hans [Baltasars] viðbrögð og hans mál. Ég hef ekkert um þetta að segja og ber enga ábyrgð á því.“ Þá segir Jón Viðar það engu skipta þó leikstjórinn segi gagnrýnandann vera hreint og klárt nettröll. „Mér er alveg sama. Það skiptir mig engu máli. „Ég ætla ekki að munnhöggvast við hann. Hann verður bara að standa við það sem hann segir. Svo nær það ekkert lengra.“

Þegar blaðamaður innti Jón Viðar fremur eftir umsókn um stöðu handritshöfundar meðan þáttaröðin var enn á framleiðslustigi og ítrekaði ummæli Baltasars í fjölmiðlum nú í dag, neitaði gagnrýnandinn að svara fleiri spurningum blaðamanns. „Þetta er bara hans útgáfa af tveggja manna tali og það yrði bara fullyrðing á móti fullyrðingu. Ég hef enga ástæðu til að bregðast við þessu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -