2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Bannað innan 18

Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Mynd / Lilja Draumland.

Burlesque-hópurinn Dömur og herrar heldur fyrstu sýningu haustsins á Hard Rock Café laugardaginn 8. september. Þar sýna þau einstaklingsatriði sem spanna allt frá erótík yfir í tragík, fjalla um stafsetningu, latínu, daður og líffræði og einnig verður tæpt á kynfræðslu og undrum mannslíkamans. Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn. Er þetta einhver bölvaður dónaskapur? „Stutta svarið er já,“ segir Ísabella Leifsdóttir, ein úr hópnum, og skellir upp úr. „Þetta er alveg klárlega fullorðinssýning. Aðallega er þetta samt bara ótrúlega hresst og skemmtilegt. Sumt er fyndið, annað rómantískt eða erótískt og jafnvel tragískt. Þetta spannar allan skalann.“

„Við hittumst fyrst á sex vikna burlesque-námskeiði hjá Margréti Maack,“ segir Ísabella. „Eftir það ákváðum við að stofna sýningagrúbbu og fórum að halda sýningar sem í vetur verða einu sinni í mánuði á mismunandi stöðum í borginni svo fólk verður bara að fylgja okkur á Facebook og Instagram ef það vill hafa dag- og staðsetningar á hreinu.“

Að þessu sinni verða eingöngu einstaklingsatriði á sýningunni og Ísabella segir atriðin mjög ólík, auk þess sem þær sem koma fram séu á öllum aldri og hafi mjög misjafna sviðsreynslu. Sumar séu reynsluboltar en aðrar hafi aldrei komið fram opinberlega áður. Sjálf er hún óperusöngkona að mennt, er hún að hugsa að skipta um listform?
„Ég lærði auðvitað leiklist í náminu sem óperusöngkona,“ segir Ísabella. „Burlesqueið er bara svona partur af því að koma fram og hafa gaman, en aðallega er þetta nú áhugamál. Ég held varla að þetta sé framtíðarstarfsgrein hjá mér. Þetta er svo skemmtilegur hópur og við erum ekki að sýna í einhverjum gróðatilgangi heldur að safna okkur fyrir burlesque-ferð til New York til þess að skemmta okkur saman.“

Sýningin er ekki ætluð yngri en 18 ára og einnig er viðkvæmu fólki ráðlagt að forðast viðburðinn.

AUGLÝSING


Auk hópsins koma fram þau Gógó Starr dragdrottning og Margrét Maack burlesque-drottning Íslands, og svo koma tveir erlendir listamenn við sögu, þær Gal Friday og Cheekie Lane. „Og svo kemur einn leynigestur frá Berlín,“ segir Ísabella leyndardómsfull en neitar að gefa nánari upplýsingar um gestinn. „Gógó er með boy burlesque, mjög flott,“ segir Ísabella. „Og Magga er svona mamman okkar, heldur utan um hópinn og leiðir okkur áfram.“

Sýningin á Hard Rock Café hefst klukkan 21 og miðar eru seldir á tix.is og við innganginn.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is