Bára stofnar Kærleikur í hverri lykkju – Þú getur verið með

Deila

- Auglýsing -

Bára Tómasdóttir hefur hrundið af stað verkefninu Kærleikur í hverri lykkju, þar sem hún og allir sem vilja taka þátt prjóna peysu, sem gefnar verða einstaklingum sem dvelja á meðferðarheimilum.

 

„Prjónaskapur hefur reynst mér viss heilun í sorg minni þegar ég missti Einar Darra son minn 18 ára vegna lyfjaeitrunar í maí 2018. Mér hefur alltaf fundist prjónuð flík ein fallegasta gjöf sem hægt er að gefa/þiggja og ég tala nú ekki um heimferðasett fyrir nýfætt barn,” segir Bára í viðtali við Mannlíf.

Bára er byrjuð að prjóna.

„Fyrir nokkrum mánuðum fékk ég fallegt prjónað sjal og bréf frá vinkonu minni þar sem hún tjáði mér að hún væri að hugsa til mín, mér þótti svo ótrúlega vænt um þetta og jafnframt fann ég styrk í þessari prjónuðu flík sem hún hafði lagt vinnu í. Á erfiðum tímum og í vandasömum málum er svo dýrmætt að finna að maður hafi stuðning og fólk sé að hugsa til manns. Ég ákvað að mig langaði að gera eitthvað til að láta þennan kærleika sem fólst í þessari gjöf halda áfram til þeirra sem á þurfa að halda. Svo er ég líka svo óþolandi væmin,“ segir Bára hlæjandi.

„Við munum gefa peysurnar inn á meðferðarheimili. Ég tel að þessi hópur þurfi á stuðningi okkar að halda og mín von er að kærleikspeysurnar geti veitt fólki stuðning í skrefunum í átt að bata.“

Einar Darri, sonur Báru, var 18 ára þegar hann lést.

Viðbrögð við verkefninu ótrúleg strax í upphafi

„Í starfi mínu í minningarsjóðnum hef ég hitt svo margar hetjur sem eru að vinna í bata sínum og margar ótrúlega fallegar sögur þar sem fólk hefur eignast heilbrigt edrú líf en því miður eru líka sorglegu sögurnar allt of margar. Viðbrögðin hafa verið ótrúleg og margir strax byrjaðir að prjóna. Það er greinilega mikið af kærleiksríku fólki í samfélaginu okkar og dýrmætt finnst mér að finna hversu margir eru tilbúnir að standa með og styðja þá sem eru veikir.“

Allir mega leggja lykkju á prjón

„Við vorum að enda við að mynda hóp á Facebook sem nefnist Kærleikur í hverri lykkju sem allir sem vilja taka þátt geta sótt um aðgang að, einnig er hægt að senda mér skilaboð á Facebook eða á netfangið [email protected] Í hópnum mun ég taka saman hvað stærðir helst vanti en í fljótu bragði vantar meira af herrapeysum í öllum stærðum.“

Prjónarar hafa frjálsar hendur

„Það er alveg frjálst hvaða munstur eða litir eru notaðir í peysurnar bara gaman að þær séu sem fjölbreyttastar eins og við mannfólkið. Bara eitt skilyrði að þær séu með kærleika í hverri lykkju,“ segir Bára.

„Peysurnar verða ekki merktar frá hverjum þær koma enda finnst mér fegurðin líka liggja í því að sá sem þiggur peysuna upplifi að það sé fullt af fólki út í samfélaginu sem þau þekki ekki enn styðji þau í bata sínum og hugsi til þeirra. Það er alveg í boði fyrir gefandann að skrifa með fallega orðsendingu ef hann vill það en alls ekki skilyrði.“

Prjónarar sem vilja leggja verkefninu lið geta komið peysum til Bára, sem mun sjá um að koma þeim til einstaklinga á meðferðarheimilum. Einnig verður tekið á móti peysum í Reykjavík. Nánari upplýsingar má finna í Facebook-hópnum.

- Advertisement -

Athugasemdir