Miðvikudagur 4. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

Barátta 21. aldarinnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun
Eftir / Halldóru Mogensen

Þegar 1. maí varð að baráttudegi verkalýðsins fyrir rúmri öld síðan var það til að berjast fyrir átta klukkustunda vinnudegi. Sá áfangi náðist hér á landi með lögum Alþingis árið 1972. Verkefni verkalýðshreyfingarinnar munu halda áfram að vera mikilvæg til að standa vörð um hag almennings og er 1. maí dagur til að fagna árangri og samstöðu hennar en einnig að undirbúa okkur fyrir verkefnin fram undan. Við þurfum að huga að hlutverki og framtíð verkalýðshreyfingarinnar í breyttum heimi.

Vinnumarkaður framtíðarinnar verður ekki eins og sá sem við höfum þekkt. Það eru talsverðar líkur á því að hlutdeild láglaunastarfa, hlutastarfa og tímabundinna starfa muni aukast á kostnað hefðbundinna starfa. Þeirri þróun fylgir óhjákvæmilega efnahagslegt óöryggi og skertur kaupmáttur. Hver verður geta verkalýðshreyfingarinnar til að knýja fram betri kjör í heimi vaxandi hnattvæðingar og tækniframfara?

Sjálfvirknivæðing starfa fer ört vaxandi með þeim hugsanlegu afleiðingum að um helmingur allra starfa sem við þekkjum í dag tapist á næstu 10-20 árum. Þegar við horfum upp á slíkar grundvallarbreytingar á vinnumarkaðinum verðum við að vera tilbúin að leita róttækra lausna. Að tryggja öllum borgurum skilyrðislausa grunnframfærslu eða það sem við köllum borgaralaun, býður upp á þann möguleika að valdefla verkalýðinn á einstaklingsgrundvelli. Upptaka borgaralauna myndi fela í sér endurskoðun samningsins á milli vinnuveitanda og starfsmanns. Hún myndi fela í sér valdeflingu starfsmannsins og auka sjálfstæði hans frá vinnuveitandanum, gefa honum möguleikann til að vera eigin vinnuveitandi, eigin yfirmaður. Borgaralaun gætu leitt af sér nýja öld nýsköpunar og frumkvöðlastarfs þar sem allir eru frjálsir til að stefna að þeim markmiðum sem þeir kjósa.

Stærsti sigur verkalýðshreyfingar framtíðarinnar gæti verið sá að tryggja þessa grunninnkomu í formi borgaralauna fyrir alla. Þannig komum við í veg fyrir að helsti ágóði tækniframfara haldi áfram að safnast á hendur fjármagnseigenda en fari þess í stað í að auka frítíma og lífsgæði almennings.

Nú eru liðin 47 ár síðan að við fengum átta klukkustunda vinnudag á Íslandi og framleiðni hefur aukist mikið á þessum tíma en vinnutími fólks hefur ekki minnkað í samræmi við það. Ef eitthvað er, þá eru margir að vinna mun meira bara til að ná endum saman. Við ættum að vera að vinna minna, ekki meira. Verkalýðsbarátta framtíðar á því ekki að snúast um að tryggja öllum störf heldur frekar að nýta tæknina til að tryggja öllum efnahagslegt frelsi. Tryggja réttláta og sjálfbæra dreifingu valds. Baráttan þarf að snúast um valdeflingu og frelsi.

Borgaralaun fela í sér grundvallarbreytingu á hugmyndafræði. Í stað þess að þurfa að fá launaða vinnu á forsendum fjármagnseigenda færðu fjárhagslegt frelsi til að blómstra. Vinna við það sem þú vilt vinna við, rækta andann, vini og fjölskyldu, eða gera nákvæmlega sem þér sýnist við þinn tíma. Þetta er barátta 21. aldarinnar.

- Auglýsing -

Höfundur er þingamaður Pírata og formaður Velferðarnefndar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -