Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Baráttukonan Erna var rekin frá Bændasamtökunum: „Ég var óvinnufær í marga mánuði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Erna Bjarnadóttir hefur undanfarna mánuði verið áberandi þar sem hún er forsvarsmaður Facebook-hópsins Aðför að heilsu kvenna, sem er „grasrótarhópur til að mótmæla aðför að heilslu kvenna“. Baráttan hefur vakið athygli þar sem barist fyrir því að leghálssýni kvenna hér á landi verði rannsökuð á Íslandi en ekki Danmörku eins og verið hefur síðustu mánuði sem hefur orðið til þess að konur hafa beðið í nokkra mánuði eftir því að fá niðurstöður auk þess sem sum sýni eru einfaldlega ekki skoðuð vegna ákvarðana hér á landi. Þetta tengist því að um áramótin fluttust skimanir fyrir leghálskrabbameini frá Krabbameinsfélagi Íslands til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og síðan hafa málin verið í miklum ólsetri.

Hver er Erna Bjarnadóttir?

„Ég ólst upp á bænum Stakkhamri á Snæfellsnesi,“ segir hún en sjálfur Snæfellsjökull, sem segir í texta lagsins að logi, blasir við frá bænum á björtum dögum. „Bæjarstæðið er ofsalega fallegt og útsýnið mikið. Það er langt á næstu bæi og á sumrin lék ég mér eiginlega bara við systur mína; við hittum eiginlega enga aðra krakka á sumrin nema þegar ættingjar komu í heimsókn.

Hún var  í heimavistarskóla alla sína grunnskólagöngu nema í tvo vetur.

„Það hefur haft áhrif á mörg börn að vera í heimavist kannski heilan vetur nema bláhelgar og þetta er ósögð saga; það hefur ýmislegt þrifst á heimavistarskólum sem maður myndi ekki sætta sig við í dag. Ég lenti ekki í neinu slæmu en ég held að það hafi mótað mig töluvert mikið að fara þessa leið. Mér gekk mjög vel í skóla og var síðasta veturinn minn í skólanum formaður nemendafélagsins og sem slíkur hafði ég þau fríðindi að mega sitja kennarafundi. En til þess að sitja fyrsta kennarafund vikunnar, á mánudagsmorgnum, þá var ekkert annað í boði en að ég yrði komin á sunnudagskvöldi til að gista hjá kennara sem bauð mér að gista í herbergi hjá sér. Þannig að pabbi minn eða mamma lögðu það á sig oftar en einu sinni að keyra mig í skólann á sunnudagskvöldi svo ég gæti verið á fundi með kennurunum á mánudagsmorgni á meðan hinir krakkarnir voru að koma í skólabílnum. Það er þessi stelpa sem fór af stað í „Aðför að heilsu kvenna“. Hún var alltaf að reyna að gera eitthvað fyrir aðra.“

 

- Auglýsing -

Erna var 12 ára þegar hún kom til Reykjavíkur í fyrsta skipti.

„Sumum finnst það vera skrýtið þar sem ég er ekki eldri en þetta.“

Hún hlær.

- Auglýsing -

„Ég átti ekkert erindi til Reykjavíkur og mér fannst það vera mikið ævintýri þegar ég kom þangað í fyrsta skipti. Ég man þegar ég kom niður Árbúnsbrekkuna í þetta fyrsta skipti og sá þessa borg. Við fórum svo að sjá Fló á skinni í leikhúsi en það var sýning sem var búin að ganga mjög lengi; þetta var einhver langlífasta sýning í Iðnó á þeim tíma.“

 

Einstæð móðir

Erna kynntist ástinni og eignaðist tvær dætur sem eru í dag 26 ára og 29 ára. Hún og faðir þeirra skildu og var hún einstæð móðir um tíma.

„Auðvitað var það erfitt. Ég held að það sé erfitt hjá öllu barnafólki og ég satt að segja öfunda ekki barnafólk í dag. Mér finnst vera gríðarlega mikið lagt á ungt fólk með börn; það sækir vinnu og ekur börnunum í leikskólann eða skólann og fer svo með þau í íþróttir eða til læknis. Umferðin er mikil og það er verið að lækka hámarkshraðann. Svo er það fæðingarorlofið. Foreldrar hafa þurft að skipta níu mánuðum á milli sín þannig að annað foreldrið má mest taka sex mánuði. Ég mátti taka sex mánuði þegar ég átti dætur mínar og hvað hefur þá áunnist? Ekkert. Þær eru ekkert betur settar í dag en ég var. Ég vil sjá gerða könnun hjá Fæðingarorlofssjóði á því hvernig fólk hagar töku fæðingarorlofs og þá skal ég taka samtalið hvernig best sé að koma þessu fyrir. Þetta gæti orðið næsta mál hjá mér. Ég hef mikinn áhuga á málefnum fjölskyldna og mér finnst að við þurfum að hlúa meira að fjölskyldunum,“ segir Erna sem burtséð frá „Aðför að heilsu kvenna“ var um tíma formaður Heimssýnar sem voru samtök um að Ísland yrði ekki aðili að Evrópusambandinu.

„Þetta er allt í sjálfboðavinnu.“

 

Óvinnufær í marga mánuði

Erna er hagfræðingur að mennt og vann í 20 ár hjá Bændasamtökunum. Hún segir að erfiðasta lífsreynslan og mesti skaflinn sem hún hefur farið í gegnum í lífinu sé þegar henni var sagt upp haustið 2019.

„Ég held að það hafi allir verið sammála um að ég hafi staðið mig mjög vel í starfi hjá þeim. Ég held að það sé í lagi að segja það einu sinni; ég hef ekki gert það opinberalega áður. Þeir voru að spara. Byrjuðu á mér. Og létu meira að segja standa í Bændablaðinu í október sama ár að eftir að aðstoðarframkvæmdastjóra, mér, hefði verið sagt upp eða eitthvað í þá átt þá væru samtökin líkari öðrum hagsmunasamtökum. Þau létu hagfræðinginn, sérfræðing í landbúnaðarpólitík, hætta til að verða líkari öðrum hagsmunasamtökum. Það stendur í Bændablaðinu í október sama ár.“

 

Hún er spurð um áhrif uppsagnarinnar.

Þögn.

„Ég var óvinnufær í marga mánuði.“

Þögn.

Hún vill ekki fara nánar út í þetta.

„Þetta var bara mikil lífsreynsla. Ég er ekki tilbúin til að gera þetta að neinu umfjöllunarefni í fjölmiðlum. Það var heilmikið verkefni að fara í gegnum þetta og síðan bauðst mér að vinna fyrir Mjólkursamsöluna, þar sem ég starfa sem verkefnastjóri, og það var mín björg má segja.“

Þetta var höfnun og ekkert annað

Erna er spurð hvað hún hafi lært af þessari reynslu.

„Ég lærði rosalega margt svo sem hvað góð samskipti og gott fólk getur gert kraftaverk fyrir aðra. Kannski er ég að reyna að endurgjalda það að einhverju leyti hvað varðar „Aðför að heilsu kvenna“.

Hún er spurð hvort þessi reynsla sitji enn í henni.

„Já, hún gerir það. Þetta var höfnun og ekkert annað. Það hendir alla sem verða fyrir atvinnumissi með þessum hætti. Svo er það mismunandi eftir því hver á í hlut hvernig spilast úr því.“

Það var svo í febrúar 2021 sem Erna stofnaði Facebook-hópinn „Aðför að heilsu kvenna“. Hún segist sjálf ekki hafa reynslu af frumubreytingum í leghálsi en að í sínum huga sé þetta rættlætismál hvernig komið er fram við konur í dag í þessu máli sem og ákveðin vanvirðing. 

„Ég ólst upp við þessa samfélagsvitund í sveitinni þar sem maður ætti að leggja sitt af mörkum en í sveitinni voru kvenfélög sem voru að aðstoða nærumhverfi sitt í sjálfboðavinnu og þar oru líka ungmennafélög.“

Barátta Ernu í þessu máli og annarra hefur skipt miklu máli og virðist málið vera að þokast í rétta átt. Erna fundaði í morgun með Umboðsmanni Alþingis ásamt Gunnari Bjarna Ragnarssyni, formanni Félags krabbameinslækna og varaformanns læknaráðs Landsspítalans. Heilbrigðisráðherra hefur nú stigið fram og ákveðið að hefja undirbúning að flutningi þessara sýna aftur til landsins.

„Ætli þetta þýði ekki að baráttan hafi borið árangur. Ég held að það sé stutta útgáfan. Ég lít þannig á þetta að barátta grasrótarinnar, rödd almennings, hafi náð í gegn og þannig borið árangur.“

ég er þakklát fyrir að vera þessi rödd almennings

Erna segist vera þakklát fyrir allt það góða fólk sem hefur hefur kynnst í þessu ferli og nefnir sérfræðinga og aðra sem hafa viljað leggja þessu málefni lið og hún nefnir líka allar konurnar sem hafa gengið í gegnum það að greinast með frumubreytingar og eru að ganga í gegnum það. 

„Ég finn bara þakklæti og hvað það er mikið af góðu fólki. Það er frábær upplifun. Ég þakka öllum sem hafa lagt þessu málefni lið og ég er þakklát fyrir að vera þessi rödd almennings sem hefur náð þessu fram. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið þetta hlutverk. Ég held ég eigi drjúgan þátt í því hvernig staðan er í dag; ég ætla ekkert að segja hver á hvað í því. Það eru margir fleiri sem líka eiga þar stóran hlut að máli. En ég held að það skipti máli að einsklingur hafi staðið í þessu sem er ekki hluti af þessari læknisfræðilegu umgjörð eða stofnanaumgjörð. Ég hef rætt mikið við þingmenn, sérstaklega þingmenn stjórnarandstöðunnar, og það gekk ekki hnífurinn á milli okkar í því starfi.“

 

Erna talaði um stelpuna sem vill hjálpa. Hefur hún ekkert hugsað að gefa kost á sér? Fara í stjórnmál? Berjast þar?

„Jú, ég á örugglega eftir að gera eitthvað. Ég er alveg vís með að láta til mín taka einhvers staðar. Ég myndi ekki segja að mér hafi ekki dottið í hug að gefa kost á mér.“

Hún vill ekki segja meira að svo stöddu.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -