• Orðrómur

Barnamorðinginn Ingólfur fylltist löngun til að drepa: „Það skal nú ekki verða mikið eftir af þér“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Árið 1947 stóð lítil braggabyggð, Camp Tower Hills, við Háteigsveg gegnt Sjómannaskólanum í Reykjavík. Meðal íbúa var Ingólfur Einarsson, stíflundaður, orðljótur og fálátur einstæðingur, sem hafði ítrekað dvalið á geðsjúkrahúsi en alltaf verið sleppt. Hann bjó einn í hrörlegum skúr, hafði margoft komist í kast við lögreglu og óttuðust nágrannar hans hann mjög enda hótaði hann þeim sí og æ líkamsmeiðingum og dauða.

Sérstaklega voru börnin í hverfinu hrædd við Ingólf en hann hafði fyrr um veturinn veist að tveimur stúlkum með hníf og slasað aðra þeirra. Það var mál manna að Ingólfur væri stórhættulegur.

Skúrinn sem Ingólfur bjó í í braggahverfinu.

- Auglýsing -

Föstudagskvöldið 2. maí sat Ingólfur við drykkju, leið illa og átti erfitt með svefn. Undir slíkum kringumstæðum var vani Ingólfs að nota hnífa og önnur eggvopn til sjálfskaða en þetta kvöldið kom yfir Ingólf áköf löngun til að myrða. Hann vissi bara ekki hvern.

Ingólfur vopnaðist járnsveðju og hélt út til að fullnægja morðþörfinni.

Ítarlega var fjallað um atburðina sem eftir á fylgdu í fjölmiðlum þeirra tíma og var þjóðin slegin yfir því gegndarlausa ofbeldi sem Ingólfur sýndi af sér þetta kvöld.

- Auglýsing -

Morðið í skála númer eitt

Í skála númer eitt í braggahverfinu bjuggu hjónin Rósa Aðalheiður Georgsdóttir og Kjartan Friðberg Jónsson ásamt tæplega tveggja ára dóttur sinni, Kristínu og átta ára gamalli dóttur Rósu, Sigríði Hólm Guðmundsdóttur. Þetta kvöld var Kjartan við vinnu en Rósa hafði brugðið sér frá til að þvo þvott í nærliggjandi aðstöðu. Sigríður varð eftir heima og gætti Kristínar litlu sem svaf

Skáli númer eitt var sá fyrsti sem Ingólfur kom að. Hann rauk inn í svefnherbergi og að litlu stúlkunni og veitti henni fjölda stungusára. Sigríður reyndi að koma litlu systur sinni til hjálpar, réðst að Ingólf sem sneri sér þá frá Kristínu og stakk Sigríði ítrekað. Sigríður náði á ótrúlegan hátt að sleppa frá Ingólfi og komast út. Kristín litla var þá látin.

- Auglýsing -

Til hægri má sjá braggann sem Rósa og Kjartan bjuggu í ásamt telpunum. Til vinstri má sjá þvottahúsið sem Rósa var í þegar Kristín var myrt.

Rósu brá eðlilega við að sjá eldri dóttur sína koma hlaupandi að sér, alblóðuga, og hljóp þegar af stað heim. Þar sá Rósa Kristínu látna og Ingólf standa alblóðugan við hlið hennar. Hún spurði hvað hann væri búinn að gera og svaraði Ingólfur: „Það skal nú ekki verða mikið eftir af þér,“ og réðist að Rósu með sveðjunni. Rósa brást til varnar og í átökunum náði Ingólfur að stinga hana nokkrum sinnum. Eftir barning náði Rósa að ná taki á vinstri jakkaermi Ingólfs sem var örvhentur og átti þar með erfiðara með að beita hnífnum. Rósa komst undan á flótta og sá þá Sigríði liggja hreyfingarlausa fyrir utan braggann og taldi hana einnig látna. Sigríður var aftur á móti enn með lífsmarki en hafði misst meðvitund af völdum sára sinna.

Þurrkaði blóðið í fötin

Rósa, helsærð og blóði drifin, náði að kalla til tveggja drengja að það væri brjálaður maður á heimili sínu og hefði hann myrt börn hennar. Sóttu drengirnir þegar föður annars þeirra, Gunnar Guðmundsson sem hélt þegar að heimili Rósu ásamt félaga sínum Baldri Einarssyni. Þar beið Ingólfur þeirra, alblóðugur með sveðjuna í hendi, en annars hinn rólegasti. Mennirnir skipuðu honum að koma umsvifalaust að koma út úr bragganum. Ingólfur svaraði því til mð því að spyrja hvort að lögreglan væri nú ekki að koma og gekk síðan út, þurrkaði blóðið af sveðjunni í föt sín og kastaði henni svo kæruleysislega frá sér. Hafði nú töluvert að fólki borið að bragganum.

Gunnar og Baldur tóku Ingólf á milli sín og keyrðu niður á lögreglustöð en aðrir íbúar hverfisins fóru með mæðgurnar á Landsspítalann. Kristín reyndist látinn eftir níu djúp stungusár.

Örþrifaráð frásinna manns

Ingólfur var samvinnufús við lögreglu og játaði verknaðinn. Hann hafði enga skýringu á verknað sínum og sagði fórnarlömbin valinn af handahófi. Ingólfur sýndi aldrei iðrun.

Helgi Tómasson, yfirlæknir á Kleppsspítala, var fenginn til að meta geðheilbrigði Ingólfs og segir meðal annars í skýrslu hans: „Afbrot hans virðist mér ekki hvatabragð eða skammhlaupaverk geðveiks manns, heldur vanhugsað örþrifaráð til sjálfsbjargar hjá frásinna manni, er hefur horn í síðu þjóðfélagsins, örþrifaráð svipaðs eðlis og sefasjúk viðbrögð vanmáttugra einstaklinga. Að hann varð mannsbani, var frekar af vangá en yfirlögðu ráði. Hann ætlaði sér ekki af frekar en margir í sefasýkisköstum.“

Enn fremur segir í skýrslunni: „Afbrigðileg hegðun mannsins virðist eiga rót sína að rekja til líkamslýtis, nokkurs andlegs misþroska, sálarlegra og félagslegra aðlögunarerfiðleika, en hvorki geðsjúkdóms né illmennsku.”

Gat ekki jarðað barnið sitt

Rósa og Sigríður reyndust báðar vera með yfir tug stungusára hvor og var Rósu vart hugað líf. Þær mæðgur dvöldu rúman mánuð á sjúkrahúsinu og gat Rósa ekki verið við útför dóttur sinnar heldur þurfti hún að fylgjast með líkfylgdinni út um gluggann á sjúkrahúsinu. Í samtali við Morgunblaðið segir hún: „Ég var einkennilega róleg, það grétu allir í kringum mig – en ekki ég. Það grét öll þjóðin.“ Hún valdi sálmana og bað prestinn að minnast ekki á sorg í ræðunni því að Kristín hefði verið ljósgeisli alla tíð og væri það enn.

Rósa þótti ávallt sýna fádæma stillingu, sem hún sótti meðal annars í trúna, þrátt fyrir að hlotið varanlega skaða af völdum áverkanna. Hún þurfti að berjast við heilsubrest ævina á enda en aldrei mun Rósa hafa kvartað við nokkurn mann.

Baráttukona í geðheilbrigðismálum

Rósa Aðalheiður sýndi aldrei biturð né reiði í garð Ingólfs sem hún taldi fárveikan mann. Þess í stað taldi hún sökina liggja hjá heilbrigðisyfirvöldum sem höfðu sleppt Ingólfi þess fullvitandi að hann væri hættulegur umhverfi sínu. Rósa einbeitti sér að fjölgun úrræða í geðheilbrigðismálum og vann að þeim sleitulaust alla tíð.

Í viðtali sem tekið var við hana í DV í tilefni af opnun nýrrar réttargeðdeildar sagði Rósa, þá 72 ára gömul: „Tveggja ára dóttir mín var myrt, átta ára dóttir mín fékk ellefu hnífstungur og sjálf fékk ég mikla áverka og heilsubrest. Saga mín er dæmi um hvernig geðsjúkum afbrotamönnum var „hjálpað“ fyrir næstum hálfri öld. Það var sama hversu margir báðu um hjálp eða gæslu á þeim mönnum sem voru hættulegir umhverfi sínu. Ekki var hlustað á raddir þeirra fyrr en um seinan. Núna rúmum fjörutíu árum síðar, er ástandið nánast óbreytt. Bilað fólk gengur enn um gæslu- og húsnæðislaust. Er ekki skylda þeirra sem hér fara með heilbrigðis- og dómsmál að sofna ekki á verðinum?“

Rósa Aðalheiður síðar á lífsleiðinni.

Í nóvember árið 2004 stofnaði hún kærleikssjóð Kristínar Kjartansdóttur til styrktar réttargeðdeildinni að Sogni. Sjóðurinn hefur keypt jólagjafir, ýmis tæki og fleira til afþreyingar. Þá var byggt gróðurhús þar sem sjúklingarnir gátu ræktað blóm og matjurtir og fékk það heitið Rósuskjól. Rósa heimsótti Sogn og var ánægð með starfið þar. „Það verða að vera rólegheit á svona stað, og þarna er himneskt að vera.“

Ingólfur var dæmdur í 16 ára fangelsi. Fimm árum síðar flúði hann af Litla-Hrauni en náðist degi síðar. Eftir að hafa afplánað 16 ár neitaði Ingólfur að yfirgefa fangelsið og var hann því vistaður á Litla-Hrauni þar til hann lést sumarið 1969.

Rósa Aðalheiður Georgsdóttir eignaðist þrjú börn síðar á lífsleiðinni. Hún lést 6. ágúst árið 2009, níræð að aldri.

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -