Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Barnastjarna og verðlaunablaðamaður hendir sér í pólitík: „Ég hef gaman af hasar“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður, skráði sig í Samfylkinguna fyrr á þessu ári og sækist eftir Reykjavíkurþingsæti í Alþingiskosningunum á næsta ári. Hann talar hér meðal annars um æskuna, lekamálið, hælisleitendur, stefnu sína, Bjarna Benediktsson og hryllingsmyndir

Jóhann Páll Jóhannsson fæddist í Reykjavík fyrir 28 árum og er sonur hjónanna Bryndísar Pálsdóttur, fiðluleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands, og Jóhanns G. Jóhannssonar tónskálds sem vann sem tónlistarstjóri í Þjóðleikhúsinu um árabil og er þekktastur fyrir leikhústónlist.

„Ég ólst upp í Laugaráshverfinu. Mamma og pabbi voru hvetjandi og ólu mig upp við að ég gæti gert allt sem ég vildi svo lengi sem ég legði hart að mér. Pabbi þjálfaði upp í mér að vera mjög krítískur á sjálfan mig þegar ég skrifa, að meitla hverja setningu, og það var gott veganesti inn í blaðamennskuna seinna.“

Jóhann lærði á píanó í tíu ár og langaði að verða tónlistarmaður en átti alltaf erfitt með að lesa nótur. „Það hélt aftur af mér og gerði það að verkum að mér fannst þetta vera hálfleiðinlegt. En mér fannst gaman að spila eftir eyranu og semja. Ég ætlaði reyndar alltaf að verða tónlistarmaður, sá fyrir mér til dæmis að semja óperur; ég var svo hrifinn af Wagner.“ Jóhann talsetti líka teiknimyndir sem barn; Depill í London, Brói í Kalla á þakinu, Pinni í Otrabörnunum sem dansaði Núðludansinn og svona mætti lengi telja.

Þegar hann var 12 ára samdi Jóhann lagið „Hvar er Guðmundur?“ sem sló í gegn á veraldarvefnum og í útvarpi. Í kjölfarið kom hann fram á tónleikum og söng eigin lög og texta og spilaði undir á gítar. „Svo hefur reyndar ekkert ræst úr poppstjörnuferlinum eftir það en þetta var skemmtileg reynsla.“

Jóhann segist ekki hafa fengið sérstaklega pólitískt uppeldi en fengið áhugann á stjórnmálum við að lesa bækur. Hann las mikið sem barn og unglingur; fyrst skáldsögur en svo um heimspeki, stjórnmál og samfélagsmál. Hann nefnir sem dæmi að hann hafi verið trúaður sem barn, beðið bænir á kvöldin og ætlað að fermast. „Svo las ég eiginlega alla Biblíuna – aðallega Nýja testamentið og hluta af því gamla – og þá hætti ég að vera trúaður og fermdist ekki. Ég hef mótast mikið af því sem ég hef lesið og mótað mér skoðanir út frá því.“

„Maður þjálfar sig í að líta svolítið kalt á hlutina en það er ekki þar með sagt að maður sé ónæmur fyrir þessu.“
- Auglýsing -

Hann segist hafa verið dálítið einrænn og lokaður inni í sjálfum sér á unglingsárunum en það hafi breyst eftir að hann byrjaði í Menntaskólanum í Reykjavík. Hann tók þátt í Morfís-ræðukeppni framhaldsskóla öll árin sem hann var í skólanum og sigraði lið MR tvisvar sinnum á því tímabili. Svo tók hann líka þátt í uppsetningum leikfélagsins Herranætur og lék meðal annars í Meistaranum og Margarítu.

Lekamálið

Jóhann fékk sumarvinnu á DV þegar hann var um tvítugt og nýorðinn stúdent. „Þetta var tækifæri sem Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, þáverandi ritstjórar, veittu mér og ég hef alltaf verið þakklátur fyrir það. Það var mjög gaman á DV. Manni var strax kastað út í djúpu laugina. Þetta var stór vinnustaður, mikið af öflugu fólki, mikið skúbbað og mikið að ske. Ég var kornungur, stundum fæ ég kjánahroll þegar ég sé það sem ég skrifaði á þessum tíma, en þetta var rosalegt tækifæri sem átti svo kannski eftir að móta mikið það sem kom á eftir. Ástæðan fyrir því að ég hafði áhuga á að verða blaðamaður til að byrja með er náttúrlega bara brennandi áhugi á samfélagsmálum og pólitík og með tímanum fékk ég svo meiri áhuga á efnahagsmálum.

- Auglýsing -

Jóhann vann hjá DV með fram háskólanámi í heimspeki við Háskóla Íslands. „Ég sinnti heimspekináminu ekki eins vel og ég hefði viljað eftir á að hyggja af því að ég var alltaf að vinna með námi og svo kom lekamálið ofan í þetta.

Við Jón Bjarki, vinur minn og blaðamaður, höfðum svolítið verið að skrifa um hælisleitendamál og bága stöðu fólks sem sækist eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi. Svo þegar meiðandi upplýsingum um hælisleitanda, sem síðar kom í ljós að voru að verulegu leyti rangar, var lekið úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla þá spurðum við spurninga, öfluðum upplýsinga innan úr stjórnkerfinu og fylgdum málinu eftir sem síðar fór í ákæruferli og leiddi til refsidóms.“

Þegar Jóhann er spurður hver er eftirminnilegasta frétt sem hann hafi skrifað segir hann það hafa verið fréttina um afskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, þáverandi innanríkisráðherra, af lögreglurannsókn lekamálsins og þrýsting sem Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri, varð fyrir. „Það var ekkert sofið áður en sú frétt birtist, ég var svo spenntur fyrir birtingunni. Við vorum saman með þetta, við Jón Bjarki og Reynir Traustason. Þarna var það Reynir sem landaði skúbbinu og þetta náttúrlega var frétt sem hafði miklar afleiðingar. Umboðsmaður Alþingis tók málið til rannsóknar og komst að þeirri niðurstöðu að ráðherra hefði brotið af sér í starfi með þessum afskiptum af lögreglurannsókninni á hennar eigin ráðuneyti.“

Hann neitar því ekki að málið hafi haft talsverð áhrif á sig. „Þetta var heilt ár sem var algjör rússíbani. En við vorum auðvitað bara að vinna vinnuna okkar og það er þannig þegar blaðamenn komast á sporið í svona málum þá fylgja þeir þeim eftir. Þetta afhjúpaði auðvitað alls konar brotalamir í kerfinu. Þarna sá maður pólitíska meðvirkni á háu stigi sem eitraði út frá sér og gróf undan trausti til stjórnkerfisins.“

Jóhann segir Lekamálið hafa tekið verulega á.

Jóhann nefnir mistök – frétt DV þar sem aðstoðarmönnum, sem báðir voru þá með réttarstöðu grunaðs manns í lögreglurannsókninni, var víxlað. „Við vönduðum okkur og ég er heilt yfir stoltur af skrifum okkar en við gerðum vissulega þessi vondu mistök og báðumst samstundis afsökunar á þeim.“

Hann segir það vissulega svolítið yfirþyrmandi að fylgjast með skrifum sínum hafa áhrif, sérstaklega þegar hans eigin persóna dregst inn í umræðuna. „Það var ágætt að fá þykkan skráp svona snemma en auðvitað var þetta líka gaman; ég meina, maður hefur gaman af hasar. Það tók auðvitað á að vera svona í eldlínunni. Þetta er samt hluti af því að vera að skrifa um svona stór og eldfim mál; það getur verið óþægilegt fyrir mann sjálfan en er yfirleitt miklu óþægilegra fyrir þá sem skrifað er um. Ég reyni bara að velta mér ekki of mikið upp úr því. Það er þessi jafnvægislist sem blaðamennskan er; það er að vega og meta annars vegar hagsmuni almennings og gildi þess fyrir almenning að vita eitthvað og fá fram upplýsingar og hins vegar til dæmis að ganga ekki of nærri friðhelgi einkalífs einhvers.“ Hann segir það auðvitað geta tekið á að birta fréttir sem hann viti að fólki líði illa yfir. „En um leið brynjar maður sig svolítið; maður þjálfar sig í að líta svolítið kalt á hlutina en það er ekki þar með sagt að maður sé ónæmur fyrir þessu.“

Í framboði

Jóhan sagði upp störfum á DV eftir eigendaskiptin árið 2014 og starfaði á Stundinni frá stofnun fjölmiðilsins. Hann kláraði heimspekinám með lögfræði á alþjóðasviði sem aukagrein árið 2015. Hann flutti svo til Bretlands, hóf meistaranám í sagnfræði við Edinborgarháskóla sem hann lauk árið 2017 og í haust lauk hann svo meistaranámi í evrópskri stjórnmálahagfræði frá London School of Economics. Á þessum árum vann hann fyrir Stundina sem hann lýsir sem góðum vinnustað með öflugum blaðamönnum og vinum.

Jóhann hefur þrisvar sinnum unnið til blaðamannaverðlauna fyrir störf sín, meðal annars fyrir umfjöllun um lekamálið árið 2014, uppreist æru kynferðisbrotamanna árið 2017 auk þess sem hann hlaut tilnefningar meðal annars árið 2018 fyrir umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans við Glitni í aðdraganda bankahrunsins. Hann flutti til Íslands í haust og ákvað að segja skilið við blaðamennskuna og snúa sér að stjórnmálum.

„Mig fór að langa til að taka þátt og einhvern veginn beita mér. Í staðinn fyrir að vera alltaf að greina og skrifa um hlutina þá langaði mig bara allt í einu að vera þátttakandi í að efla vinstrið, koma að stefnumótun og svo framvegis. Ég gekk í Samfylkinguna í sumar og hef unnið fyrir þingflokkinn í haust og áttað mig sífellt betur á að mig langar að gera þetta sjalfur; verða þingmaður.“ Það varð úr að Jóhann gefur kost á sér í framboðskönnun Samfylkingarinnar í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna á næsta ári.

Hvers vegna er það mikilvægt að „efla vinstrið“? „Ég myndi segja að stóru áskoranirnar sem heimsbyggðin glímir við séu annars vegar misskipting auðs og yfirgangur hinna stóru, fjársterku og valdamiklu og svo hins vegar hamfarahlýnun, loftslagsbreytingar af manna völdum. Og þetta eru vandamál sem eru samofin og verða ekki leyst nema með mjög kraftmikilli beitingu ríkisvalds á kostnað sérhagsmuna, skattheimtu til að jafna kjörin og draga úr ofurvaldi þeirra ríku, og svo opinberri fjárfestingu í grænum innviðum, orkuskiptum og svo framvegis. Þetta krefst þess að við hrifsum völdin af auðstéttinni, umbyltum kerfunum okkar í þágu fjöldans og þess vegna er ég vinstrimaður; ég trúi því að jöfnuður sé ekki einhver hindrun í vegi þess að samfélög vaxi og dafni heldur þvert á móti undirstaða hagsældar. Svo er það líka þannig að markaðir virka langbest þegar kjörum er ekki of misjafnt skipt. Jafnaðarstefnan er stefnan sem hefur búið til bestu samfélög í heimi og kannski mættum við minna oftar á það.“

Jóhann segist ætla meðal annars að beita sér fyrir því að dregið verði úr tekjuskerðingum í barnabótakerfinu svo það verði almennt stuðningsnet líkt og á hinum Norðurlöndunum. Hann vill að foreldrar í láglaunastörfum fái fæðingarorlofsgreiðslur sem samsvara lágmarkslaunum en ekki aðeins 80% af fyrri tekjum, húsnæðisstuðningur verði aukinn og ráðist í markvissar aðgerðir til að tryggja húsnæðisöryggi. Til að standa undir slíkri eflingu velferðarkerfisins segir hann mikilvægt að hæstu tekjur verði skattlagðar með sambærilegum hætti og í Danmörku og Svíþjóð. Auk þess sé æskilegt að innleiða stóreignaskatt með sanngjörnu fríeignarmarki og að auðlindarentunni í sjávarútvegi verði skilað til þjóðarinnar með blandaðri leið veiðigjalda og uppboðs. Hann segir að sporna þurfi gegn samþjöppun og yfirgangi stórútgerða með skýrari reglum um yfirráð tengdra aðila yfir aflahlutdeildum og skilvirkri framkvæmd þeirra. Loks brenni hann fyrir því að mynduð verði ríkisstjórn sem treysti sér til að setja sér metnaðarfyllri loftslagsmarkmið, helst um að minnsta kosti 60% samdrátt í losun gróðurhúslofttegunda fyrir árið 2030 og leggi fram metnaðarfyllri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Hvað varðar utanríkismál vill hann að Ísland taki slaginn á alþjóðavettvangi gegn efnahagsmisrétti, skaðlegri skattasamkeppni og yfirgangi hinna stóru og sterku og standi með jaðarsettum hópum og rétti kvenna yfir eigin líkama og mótmæli mannréttindabrotum hvar sem þau eru framin.

Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrverandi blaðamaður, neitar því ekki að lekamálið hafi haft talsverð áhrif á sig. „Þetta var heilt ár sem var algjör rússíbani.“

Útlendingastofnun verði lögð niður

Jóhann fjallaði um málefni hælisleitenda hér á landi áður en lekamálið kom upp og hann segist vilja að Íslendingar axli ábyrgð í flóttamannamálum með mannúðlegri móttöku hælisleitenda.

„Við verðum sem samfélag einhvern veginn að smíða einhverjar reglur sem valda því ekki að nánast mánaðarlega komi upp mál sem bara öllu heiðvirðu fólki misbýður þar sem verið er að senda fólk úr landi sem á einfaldlega heima hérna, börn sem hafa alist upp á Íslandi og fest rætur hér. Ég held að það þurfi að leggja niður Útlendingastofnun í núverandi mynd og taka kerfið til mjög gagngerrar endurskoðunar með mannúð að leiðarljósi.“

Aðspurður hvort það þurfi ekki að skoða vel bakgrunn þeirra sem sækja um hæli á Íslandi segir Jóhann: „Jú, það er einmitt allt of oft þannig að málum fólks er vísað frá án þess að taka þau til efnislegrar meðferðar og í því felst að bakgrunnur fólks fær enga heildstæða skoðun. Það grefur undan öllum okkar samfélagssáttmála ef það er trekk í trekk, og jafnvel samkvæmt gildandi lögum, verið að misbjóða réttlætiskennd þorra þjóðarinnar. Við þurfum að koma okkur niður á einhverja sanngjarnari eða réttlátari reglur sem er hægt að fara raunverulega eftir. Það verður flókið en ég held að það séu ýmsar spurningar sem pólitíkin hefur ekki almennilega treyst sér til að svara varðandi útlendingalöggjöfina.“

Um fjórir milljarðar króna eru settir þessi árin árlega í málaflokkinn og segir Jóhann að það sé mikilvægt að hjálpa fólki utan EES-svæðisins að koma til Íslands og setjast hér að án þess að það þurfi endilega að fara í gegnum hælisleitendakerfið. „Þetta er eitthvað sem stjórnmálamenn tala alltaf um en svo er lítið gert. Kostnaðurinn af hælisleitendakerfinu myndi lækka við það. Svo þarf að efla virkniúrræði fyrir útlendinga; hjálpa þessu fólki af miklu meiri krafti að koma sér upp nýju lífi á Íslandi. Ég held að það myndi margborga sig til lengri tíma litið.“

Jóhann segir að um sé að ræða erfiðan málaflokk. „En við verðum að taka vel á móti fólki. Auðvitað er þetta flókið en við verðum bara að taka á því. Ísland er fjölmenningarsamfélag. Það er bara veruleikinn. Og Ísland þarf að axla ábyrgð þegar kemur að málefnum flóttafólks, þetta er alþjóðleg áskorun. Auðvitað kostar peninga að gera þetta almennilgea en það gefur okkur líka mjög mikið. Samfélagið verður fjölbreyttara og skemmtilegra við að fá hingað fólk með ólíkan bakgrunn.“

Snýst ekki um góða stemmningu

Eins og þegar hefur komið fram hlaut Jóhann tilnefningu árið 2018 fyrir umfjöllun um viðskipti Bjarna Benediktssonar og fjölskyldu hans við Glitni í aðdraganda bankahrunsins en í kjölfar umfjöllunarinnar var sett lögbann á Stundina sem var svo aflétt með dómi ári síðar. Nú vonast Jóhann til að komast á þing. En hvað finnst honum um að þurfa að mæta fólki á Alþingi sem hann hefur skrifað harkalega um?

„Það er ekki eitthvað sem truflar mig. Mín pólitík snýst ekki og mun aldrei snúast um stemmninguna í mötuneyti Alþingis. Það er alveg á hreinu. Ég sinnti störfum mínum sem blaðamaður af alúð og stundum skrifaði ég harkalega um fólk sem ég ber mikla virðingu fyrir. Þetta truflar mig ekki neitt.“

Aðspurður hvort hann gæti hugsað sér að sitja í ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni segir hann: „Nei, Samfylkingin hefur útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokki og afþakkað þátttöku í stjórnarmyndunarviðræðum við flokkinn. En þess utan tel ég Bjarna ekki vera treystandi til að fara með opinbert vald. Mér finnst Bjarni Benediktsson vera veikur leiðtogi og ekki hafa hemil á flokknum sínum. Ég gæti auðvitað aldrei setið í ríkisstjórn sem byggir á samkomulagi sem burðarflokkur virðir ekki. Mér finnst Sjálfstæðisflokknum hafa mistekist að standa undir því trausti sem aðrir flokkar hafa sýnt honum. Samfylkingin gerði þau mistök á árunum fyrir hrun að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Það dró ekki fram það besta í Samfylkingunni á sínum tíma en flokkurinn hefur lært af þeim mistökum og gert þau upp að verulegu leyti. Nú göngum við til kosninga að ári og heitum því að vinna ekki með Sjálfstæðisflokknum. Atkvæði greitt Samfylkingunni verður atkvæði gegn því að Sjálfstæðisflokkurinn sitji áfram í ríkisstjórn.“

Jóhann er spurður hvað einkenni góðan stjórnmálamann. „Góðum stjórnmálamanni þarf kannski fyrst og fremst að þykja vænt um fólk. Við skulum orða það þannig. Hann þarf að hafa þá auðmýkt að geta hlustað á sjónarmið frá mörgum hliðum og hann þarf að hafa metnað til að setja sig vel inn í hlutina og beita dómgreindinni sinni.“

Jóhann er næst spurður hvaða íslenska stjórnmálamanns hann líti upp til. „Ég hef lengi verið hrifinn af Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún vann mikilvæga sigra sem félagsmálaráðherra og sýndi svo ótrúlega þrautseigju sem forsætisráðherra á erfiðum tímum. Vinstristjórnin gerði margt vel en hefði mátt gera annað betur en ég held að sagan muni fara mjúkum höndum um Jóhönnu.“

Jóhann segist afhjúpa hvað hann sé óspennandi þegar hann er spurður um áhugamálin sem séu stjórnmál og efnahagsmál. „Ég hlusta stundum á tónlist. Svo finnst mér gaman að horfa á norræna sjónvarspsþætti. Og ég er mjög hrifinn af hryllingsmyndum.“

Hann er í lokin beðinn um að lýsa sér með þremur orðum. „Vinnusamur.“ Þögn. „Má ég fá hjálp frá Önnu, kærustunni minni; kalla á hana?“ spyr hann. En nei – það er verið að biðja hann sjálfan um að lýsa sjálfum sér. Hann hugsar sig lengi um. „Það er alltaf svo erfitt að hugsa um sjálfan sig. Ég er svolítill fullkomnunarsinni kannski en það er kannski hluti af vinnuseminni. Nú ertu alveg búin að koma mér úr jafnvægi. Jú, ætli ég sé ekki með gott jafnaðargeð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -