2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Benji the Dove hefur sig til flugs

Sýningarréttur að kvikmynd byggðri á barnabókinni Benjamín dúfa seldur vestur um haf.

Benji the Dove byggir á margverðlaunaðri barnabók Friðriks Erlingssonar, Benjamín dúfu, frá árinu 1992. Bókin var fyrst aðlöguð að hvíta tjaldinu árið 1995.

„Auðvitað skiptir máli fyrir alla sem koma að myndinni að hún sé sýnd sem víðast, það er alltaf markmiðið með gerð kvikmynda. En það hefur kannski enn meiri þýðingu fyrir svona sjálfstæða mynd í ljósi þess hversu margar slíkar myndir eru búnar til í Bandaríkjunum árlega og hversu fáar þeirra ná almennilegri dreifingu. Þannig að ég er hæstánægður,“ segir Erlingur Jack Guðmundsson framleiðandi kvikmyndarinnar Benji the Dove en sýningarrétturinn að henni hefur verið seldur vestur um haf.

Að sögn Erlings er þetta síst ekki ánægjulegt í ljósi þess að á ýmsu hafi gengið við framleiðslu myndarinnar. Upphaflegu framleiðendurnir, þær Susan Kirr og Cathleen Sutherland (Boyhood), sögðu sig þannig báðar frá verkefninu, m.a. vegna þess að ekki tókst að tryggja nægjanlegt fjármagn og af þeim sökum var á tímabili tvísýnt að af gerð myndarinnar yrði. Erlingi og viðskiptafélaga hans í Bandaríkjunum, George Martin, tókst þó að safna nægilegu fé til að halda áfram og við tók „krefjandi tökutímabil“ í New York og síðan öllu „þægilegri“ eftirvinnsla sem fór að mestu leyti fram hérlendis. Þegar myndin var svo loks fullkláruð segir hann að brösuglega hafi gengið að ná til erlendra kaupenda til að byrja með þar sem hún hafi verið „ódýr“ í framleiðslu og með ekkert almannatengslafyrirtæki á bak við sig eins og algengt sé í Bandaríkjunum. Áhuginn á myndinni hafi hins vegar snaraukist um leið og „rétta fólkið“ sá hana.

„Þetta er búið að vera langt og virkilega lærdómsríkt ferli,“ viðurkennir hann og hlær. „Maður er búinn að lenda á alls konar veggjum og ýmislegt ekki gengið upp. Það má því segja að það sé viss léttir að hafa náð að klára myndina, að hafa náð að koma henni í áhorfsvænt form.“ Nú sé bara að sleppa á henni takinu og sjá hvernig umheimurinn taki henni, en myndin verður frumsýnd á Barnakvikmyndahátíð Reykjavíkur á morgun, laugardaginn 7. apríl og verða íslenskir áhorfendur því þeir fyrstu í heiminum til berja útkomuna augum.

AUGLÝSING


Ertu ekkert stressaður fyrir viðtökunum? „Auðvitað vonar maður bara fyrst og fremst að landsmenn sjái myndina og taki henni opnum örmum. Að þeir líti á hana sem sjálfstætt verk því þótt hugmyndin sem liggur til grundvallar henni sé í meginatriðum sú sama og í forveranum þá er alls ekki um beina endurgerð að ræða. Sagan hefur verið staðfærð og ýmsu breytt,“ segir hann án þess að vilja ræða það frekar og hvetur sem flesta til að gera sér ferð á myndina.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is