Mikil hækkun hefur orðið á hráolíu síðustu mánuði. Hefur komið til verðhækkana hjá íslenskum olíufélögum og er verð á 95 oktana bensíni að ná 270 krónum, það á við um flestar bensínstöðvar. Lítri af dísilolíu er ódýrari en hann kostar á flestum stöðum um 250 krónur.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir að verðið hafi ekki hækkað svona í mörg ár.
„Það kom svolítið langt tímabil með háu verði í kjölfar bankahrunsins, en núna hefur heimsmarkaðsverð á bensíni í Norður-Evrópu ekki verið hærra síðan 2014,“ sagði Runólfur í samtali við Vísi.
Þá segir Runólfur að Íslendingar séu ekki eina þjóðin sem finnur fyrir þessari hækkun, hana sé að finna víðs vegar í heiminum. En um 60 prósenta verðhækkun hafi orðið á innan við ári.
Heimsfaraldurinn hafi spilað inn í þessar sveiflur. Eftirspurn eftir eldsneyti dróst saman þegar Covid skall á en hækkaði svo hratt þegar efnahagskerfið fór að rétta úr kútnum og eftirspurnin jókst á nýjan leik.
Runólfur segir sveiflurnar enn vera til staðar, en í september hafi verð á eldsneyti hækkað hratt, skömmu áður, eða í lok sumars, hafi það þó verið töluvert stöðugra.