Miðvikudagur 4. desember, 2024
1.8 C
Reykjavik

„Ber engan kala til þessa fólks“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Birgitta Jónsdóttir segir það vissulega hafa verið áfall að hlusta á fyrrverandi samstarfsfólk úthúða sér á opinberum fundi en hún hafi tekist á við erfiðari hluti í lífinu og hafi ekki áhuga á að munnhöggvast opinberlega. Pólitík sé brútal vinnuumhverfi og þeir sem ekki geti tekið því endist ekki lengi.

 

„Þegar ég hætti á þingi var ég algjörlega útbrunnin, ég gaf allt sem ég átti og miklu meira en það þannig að ég bara hrundi,“ svarar Birgitta aðspurð hvað hún hafi verið að gera síðan hún hætti sem þingmaður Pírata haustið 2017.

„Það tók mig langan tíma að finna aftur eitthvað sem mér fannst spennandi. Mér hafa aldrei fundist hefðbundin flokksstjórnmál spennandi fyrirbæri, bara alls ekki. Núna undanfarið hefur hellst yfir mig rosalega sterk þörf fyrir að skrifa drápuljóð á íslensku, ég er alveg andsetin af því sem er það besta sem ég veit. Þegar þetta kemur yfir mig skrifa ég bara og skrifa og get ekki hætt. Þar fyrir utan hef ég verið að vinna í alls konar verkefnum sem er dálítið erfitt að útskýra. Ég hef verið að vinna með upplýsingaaktífistum, fólki sem er að búa til ný kerfi fyrir blaðamenn sem eru í rannsóknarblaðamennsku og svo hef ég fengið að njóta mín dálítið sem rithöfundur erlendis. Mér hefur alltaf gengið það illa hérna heima að passa inn sem rithöfundur þannig að ég fengi tækifæri til þess að koma fram. Ég er nefnilega ágætur „performer“ og finnst það mjög gaman.“

Það er ekki bara sem rithöfundur sem Birgittu hefur ekki fundist hún passa inn, hún segist alltaf hafa verið á jaðrinum.

„Ég hef aldrei passað inn í neitt, hvorki fyrir né eftir minn þingskáldaferil,“ segir hún og hlær. „Ég er reyndar nýlega komin með mjög spennandi vinnu sem ég get ekki alveg sagt frá strax, við eigum eftir að senda út fréttatilkynningu, en ég var fengin til að vinna fyrir Internet Arhives í samstarfi við stærstu réttindasamtök fyrir stafrænum mannréttindum í heiminum. Aðalstarfssvið mitt verður að kynna fyrir fólki hvað Internet Archives er, það eru svo margir sem vita ekki hvað það er. Ég hlakka mikið til að taka þátt í því.“

Heiftin kom á óvart

- Auglýsing -

Birgitta segir að hún sé að rísa upp úr kulnuninni, en hún verði þó að viðurkenna það að uppákoman á fundi Pírata fyrir skemmstu þar sem þingmenn flokksins tóku hana fyrir í opinberum ræðum hafi verið bakslag í batanum.

„Það var ákveðið áfall,“ viðurkennir hún. „Það hefði verið í lagi ef þetta hefði bara verið þessi fundur, en þetta virðist ekkert ætla að hætta. Ég hef verið að vanda mig rosalega mikið að fara ekki í manneskjurnar sem sögðu þetta, mér finnst bara asnalegt að vera í opinberum rifrildum við fyrrverandi samstarfsfólk.

Birgitta segir það vissulega hafa verið áfall að hlusta á fyrrverandi samstarfsfólk úthúða sér á opinberum fundi en hún hafi tekist á við erfiðari hluti í lífinu.

Auðvitað gæti ég sagt alls konar hluti en ég bara sé ekki tilganginn með því. Ef fólk á eitthvað ósagt við mig þá er síminn minn alltaf opinn og ég er mjög aðgengileg manneskja. Ég hef sagt við allan þann fjölda af fólki sem hefur sett sig í samband við mig eftir þetta að þetta sé nú bara eins og kattarklór. Ég hef farið í gegnum svo erfiða hluti í lífinu að ég hef mun stærri verkefni að vinna úr heldur en þetta. Það er hins vegar ágætt að fólk átti sig á því að þó svo að ég hafi farið inn í stjórnmál þá er ég ekki stjórnmálamanneskja og hef aldrei verið. Ég upplifði mig aldrei sem valdamanneskju og ber mjög litla virðingu fyrir valdi af öllu tagi og mér fannst það mjög óþægilegt á meðan ég var að vinna inni á þingi að upplifa alla þessa yfirfærslu á valdi á mig án þess að ég vissi það.

- Auglýsing -

Mig hefur aldrei dreymt um að vera einhver leiðtogi eða ráðherra eða eitthvað slíkt, það bara er ekki í mér. Ég uppgötvaði það þegar ég fór í gegnum mína fyrstu erfiðu reynslu að ég hafði þann valkost að láta erfiðleikana brjóta mig niður eða reyna að skilja hvað ég gæti lært af þessu til þess að verða betri manneskja. Ég tekst eins á við þetta mál; reyni að skilja hvað ég gerði til þess að eiga þetta skilið.“

Spurð hvort henni finnist hún hafa átt eitthvað af því sem sagt var skilið verður Birgitta hugsi.

„Ég verð að viðurkenna að mér finnst mjög margt af því sem þarna kom fram virka þannig að ég veit ekki hvað fólk er að tala um. Það kom mér rosalega á óvart að upplifa þessa heift frá fyrrum starfsfélaga mínum vegna þess að við áttum mjög fína tíma hjá vinnustaðasálfræðingnum á sínum tíma og ég vissi ekki að viðkomandi væri með svona rosalega mikla reiði gagnvart mér. Ég vildi óska þess að viðkomandi hefði bara hringt í mig og beðið mig að hitta sig og við hefðum talað saman um þetta.

Það er það sem mér finnst erfitt, ég skil ekki alveg hvað það er sem ég gerði þessu fólki. Eina skýringin sem ég fékk var að ég hefði mikinn sannfæringarkraft og einn þingmaðurinn kvartaði yfir því að ég notaði hann á þingmennina líka. Ég bað viðkomandi bara að láta mig vita ef ég væri að því, en mér fannst óþægilegt að heyra þetta og mér fannst svo margt sem var verið að vísa í á þessum fundi vera hlutir sem við vorum búin að ræða saman um og ég hélt að væru leystir. Þegar maður er verkstjóri þarf maður auðvitað stundum að segja fólki að standa sig, þannig að ég veit ekki alveg um hvað þetta snýst hjá þeim. En ég ber engan kala til þessa fólks eða heift eða neitt í þá áttina, ég melti þetta og hélt bara mína leið og vissi ekki annað en þessu væri lokið.“

„Ber litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér“

Eftir uppþotið á fundinum margumtalaða hefur Birgitta líka fengið mikinn stuðning frá samstarfsfólki og óviðkomandi aðilum og hún segist óendanlega þakklát fyrir það.

„Það hefur verið alveg ótrúlegt,“ segir hún. „Mér þykir vænt um að hafa fengið stuðning frá og heyrt í fólki sem ég hef unnið með miklu lengur en þessu fólki sem þarna er um að ræða. Það streyma til mín fallegar hugsanir og hlýjar kveðjur og ég finn að fólki er dálítið misboðið vegna þess að þetta virðist ekki ætla að taka neinn enda. Ég hef ítrekað sagt við blaðamenn að ég vilji ekki tala um þetta, ég hef engan áhuga á að fara á þetta plan. Auðvitað hafa allir eitthvert álit á framkomu fólks en þegar maður er í pólitík þá er það ofboðslega brútal vinnuumhverfi og maður verður að vera mjög sterkur til þess að geta náð árangri þar, sérstaklega þar sem ég og nánast allir sem ég var með á þingi voru nýliðar.

„Ég ber sérstaklega litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér og það var mjög skrýtið að þurfa að vera í samstarfi við fólk sem maður myndi aldrei tala við annars.“

Maður þarf að læra þetta allt saman jafnóðum og það sem mér finnst bagalegast við það hvernig þingið er orðið núna er hve ofboðslega hröð endurnýjun er þar. Þeir sem eru búnir að vera þar lengst kunna á kerfið þannig að það er afskaplega auðvelt að afvegaleiða nýja fólkið svo að það nær ekki að sinna því sem það brennur fyrir og var kosið til að koma í framkvæmd. Þegar það eru svo komnir átta flokkar inn á þing þá er þetta orðið svo brotakennt að það myndast ekki einu sinni sterk stjórnarandstaða sem nær saman um mál. Það eru engir sammála um neitt og allir fullir af óþoli gagnvart öðrum. Ég lenti sjálf í því á mínu fyrsta kjörtímabili að vera í stjórnarandstöðu með Bjarna Ben og Sigmundi Davíð sem var auðvitað fáránlegt. Ég man að við í Borgarahreyfingunni móðguðum Sjálfstæðisflokkinn rosalega mikið og ég fékk hótanir um að þetta yrði mér dýrt, þegar við ákváðum að fara í nefndarsamstarf við meirihlutann. Ég ber sérstaklega litla virðingu fyrir fólki sem hótar mér og það var mjög skrýtið að þurfa að vera í samstarfi við fólk sem maður myndi aldrei tala við annars. Ég hef reyndar komist að því og finnst það ógeðslega fyndið að bók sem ég þýddi einu sinni og heitir Lífsreglurnar fjórar er bók sem mínir pólitísku andstæðingar vitna mikið í og flestir þeirra virðast ekki vita að ég þýddi hana. Ég held reyndar að þeir þurfi að lesa hana aftur af meiri kostgæfni. Ein reglan er til dæmis sú að vera flekklaus í orðum og gæta að sannleikanum. Það er ekki í miklum heiðri haft.“

Var eitt af þessum skrýtnu börnum

Spurð hvað hafi valdið því að hún fór út í pólitík, hvað hafi heillað hana við þann vettvang er Birgitta eldsnögg til svars: „Ekki neitt!“ segir hún og útskýrir að það hafi verið fyrir algjöra tilviljun að hún endaði inni á þingi. Hún hafi verið að vinna fyrir Borgarahreyfingu þegar hún var stofnuð eftir hrunið og komið upp sú staða að það vantaði fleiri konur til að leiða lista. Hún hafi látið tilleiðast að taka það að sér og síðan bara „vaknað inni á þingi einn morguninn,“ eins og hún orðar það. Hún hafi hins vegar verið mjög ung þegar hún ákvað að verða skáld sem hafi verið fyrir áhrif frá móður hennar Bergþóru Árnadóttur sem var iðin við að semja lög við ljóð stórskáldanna.

„Eitt af því sem er erfitt hér á Íslandi er hvað fólk sem er öðruvísi hefur litla möguleika á að blómstra og við sem þjóð þurfum að læra að vera umburðarlyndari gagnvart fjölbreytileikanum,“ segir Birgitta.

„Ég fékk þannig æðisleg ljóð með móðurmjólkinni,“ útskýrir hún. „Ég var eitt af þessum skrýtnu börnum sem las alls kyns skrýtna hluti, þar á meðal mikið ljóð og fór snemma að skrifa sjálf. Það er fyndin saga, sem sýnir hvað mig dreymdi lítið um að verða stjórnmálamaður, hvernig fyrsta ljóðið sem ég fékk birt varð til. Þá vorum við í skólanum í vettvangsferð á Alþingi og ég hafði engan áhuga á því að fara þar inn, enda orðin bullandi pönkari á þeim tíma. Ég sat þess vegna úti í rútu og skrifaði fyrsta almennilega ljóðið mitt sem hét Svartar rósir og fjallaði um eftirmála kjarnorkustríðs. Svo fékk ég þetta ljóð birt í Helgarpóstinum og fékk mjög góð viðbrögð frá fólki þannig að ég hugsaði með mér að ég gæti kannski bara orðið skáld. Svo var ég svo heppin að forpokaðir fyrrverandi framkvæmdastjórar tóku mig sem dæmi um ömurlegt skáld í löngum greinum og dálkum og það eiginlega landaði mér bókasamningi hjá Almenna bókafélaginu á útgáfu fyrstu ljóðabókar minnar. Þá var ég tuttugu og eins árs og hugsaði með mér; vá ég er strax búin að ná markmiðinu mínu um að fá fyrstu ljóðabókina gefna út hjá stóru forlagi, hvað á ég nú að gera?

„Ég hef gert alveg ótrúlega mikið af mögnuðum hlutum og fengið að vinna með fólki sem ég ber mikla virðingu fyrir sem er alveg ómetanlegt.“

Og þá fór ég að gera eitthvað allt annað, fór að mála og gera tilraunir með alls konar hluti. Svo datt ég óvart inn á Internetið 1995 og kolféll um leið fyrir því. Ég byrjaði strax að vefa og bjó til minn eigin vef. Ég tók svo þátt í verkefni 1996 um fyrstu beinu myndútsendinguna frá Íslandi og skipulagði ásamt öðrum fyrstu marmiðlunarhátíð á Íslandi með ljóðið í forgrunni. Á þeim tíma var auðvitað miklu minna úrval af efni á Internetinu og allt í einu fór vefurinn að fá alls konar verðlaun, var meðal annars valinn „cool site of the day“ og við fengum svo mikla traffík inn á vefinn að við þurftum að dreifa efninu á nokkra servera. Þessu fylgdi að ég komst á radarinn hjá ótrúlega áhugaverðu fólki sem var að vinna við tæknisamfélag og list og fékk fullt af tækifærum, en ég hef ekki mikla þörf fyrir að vera alltaf að segja öllum frá því sem ég er að gera þannig að þetta vita fáir. Ég hef gert alveg ótrúlega mikið af mögnuðum hlutum og fengið að vinna með fólki sem ég ber mikla virðingu fyrir sem er alveg ómetanlegt. Hér heima finnst mér ég alltaf vera svona litli ljóti andarunginn, sem er allt í lagi, en það þýðir að flest mín verkefni hafa verið og verða erlendis, þótt ég geti unnið þau héðan. Mér finnst vera mjög lítill farvegur fyrir mína þekkingu og reynslu hérna heima, hvað þá skilningur á því hvaða tengsl ég hef náð að búa til erlendis sem mig langaði að færa þjóðinni minni. En þegar maður kemur að landi og sér að það er enginn til að taka við aflanum þá verður maður að fara með hann eitthvert annað. Þess vegna er ég núna komin með annan fótinn úr landi sem er allt í fína lagi. Eins og sagt er; það er enginn spámaður í sínu heimalandi, þannig að það er ekkert áfall.“

Samband fólks við vald óheilbrigt

En er Birgitta þá alveg hætt í pólitíkinni eða hefur hún í hyggju að setja saman nýja hreyfingu og hasla sér völl á þeim vettvangi aftur?

„Nei, ekki stjórnmálahreyfingu, alls ekki,“ segir hún ákveðin. „Og ástæðan fyrir því að ég get sagt alveg hart nei við þeirri spurningu er að í fyrsta lagi er það mjög slæmt fyrir hvaða hreyfingu sem er sem vill vinna að breytingum á samfélaginu að hafa það sem aðalmarkmið að ná fólki í valdastöður, það er mjög óhollt og vont vegna þess að samband fólks við vald er mjög óheilbrigt. Mesta óhamingja Pírata var þegar við fórum að skora svona hátt í skoðanakönnunum. Þá fór fólk allt í einu að hafa rosalegar áhyggjur af því að einhver segði eða gerði eitthvað sem gæti hugsanlega fælt mögulega tilvonandi kjósendur frá. Það er ekki hægt að keyra róttæka grasrótarhreyfingu á þeim hugsunarhætti, það verður að leyfa fólki að vera í þessari hvatvísu orku.

„Mesta óhamingja Pírata var þegar við fórum að skora svona hátt í skoðanakönnunum.“

Fyrir fólk eins og mig sem gengur út á að lesa í samfélagið, sem ég er ágæt í, er það mjög óþægilegt að mega ekki vera í því flæði. Þú veist ekki hvað ég eyddi miklum tíma í að reyna að útskýra fyrir fólki að ég hefði ekki tíma til að tala við hvern einasta útlenska fjölmiðil sem tók upp á því að kalla mig formann Pírata. Ég sagði alltaf við þá að við hefðum ekki formann, þetta væri flatur strúktúr, en þeir kölluðu mig samt alltaf formann. Það var bara ekkert hlustað á mig. Ef maður ætlar að byggja upp eitthvert byltingarafl verður markmiðið að vera það að valdefla almenning og ef fólk er ekki ánægt með hlutina eins og þeir eru þá eru nú þegar til ótrúlega góð verkfæri til að hafa áhrif. Og ef manni er alvara með að vilja breyta samfélaginu og skapa grasrótarlýðræði, verður maður að fara um landið og tala við almenning um hverju hann vilji breyta og hvetja hann til að nýta þessi verkfæri til breytinga, til dæmis Betra Ísland. Það hefur mig lengi dreymt um að gera og kannski læt ég verða af því einhvern tíma.“

En sérðu eftir þessum átta árum á þingi? Hefðirðu frekar viljað nýta þau í eitthvað annað?

„Alls ekki,“ segir Birgitta ákveðin. „Það sem mér þótti svo magnað og ég er óendanlega þakklát fyrir er það traust sem fólk sýndi mér. Ég hefði bara viljað geta gert miklu meira. Ég hefði viljað geta verið öflugri. Ég veit að ég sáði alls konar fræjum og það eru alls konar hlutir sem hafa lagast en mér finnst það bara ekki nóg því nú erum við aftur að fara inn í tíma sem verða erfiðir og við erum ekki með nein verkfæri til að takast á við þá. Umræðan verður alltaf svo svarthvít og fólk er annaðhvort með eða á móti öllum hlutum sem er fáránlegt. Við erum öll eitt risastórt blæbrigði og það er mjög óhollt að vera alltaf að þvinga aðra inn í eitthvað sem er ekki þeir í staðinn fyrir að fólk reyni að finna einhverjar sameiginlegar lausnir.“

„Nokkuð viss um að ég er með Asberger“

Að spyrja Birgittu um einkalíf hennar og nánasta fólk er eins og að ganga á vegg. Hún segist alltaf hafa passað vel upp á það að blanda ekki einkamálum sínum í opinbera umræðu.

„Ég er mikill varðhundur friðhelgi einkalífsins,“ segir hún hlæjandi. „En ég hef verið í flóknu sambandi við sjálfa mig alllengi og þegar maður fer í svona brjálæði eins og ég hef verið í er enginn tími fyrir eitthvert tilhugalíf, en ég á þrjú börn sem eru öll orðin meira en átján ára og tókst það sem fáum sem hafa verið áberandi í stjórnmálum hefur tekist að passa vel upp á þau og blanda þeim ekki inn í það drullusvað sem pólitíkin er. Það er eitt af því sem fólk gleymir þegar það segir ógeðslega ljóta hluti um aðra, oft án þess að hafa nokkurn tíma átt í samskiptum við viðkomandi, að þessir aðilar sem verið er að viðhafa svona stór orð um eiga sitt líf og sínar fjölskyldur. Það má vera með harða gagnrýni á verk stjórnmálamanna en þegar farið er að sjúkdómsgreina aðra opinberlega má fólk aðeins fara að hugsa sinn gang. Hafi fólk eitthvað út á mann að setja sem manneskju er lágmarkskrafa að það sé tilbúið að segja það við mann augliti til auglitis í einkasamtali. Ef fólk er ekki tilbúið til þess þá blokkera ég það, alveg án þess að hika. Fólk verður að geta staðið undir því sem það segir.“

Birgitta hefur unnið mikið í sjálfri sér, segir það gjörsamlega hafa bjargað sér. „Ég var svo heppin að detta inn í prógramm fyrir aðstandendur alkóhólista og það hefur algjörlega bjargað mér, útskýrir hún.

Birgitta hefur unnið mikið í sjálfri sér og sínum vandamálum í gegnum árin og segir það gjörsamlega hafa bjargað sér.

„Ég var svo heppin að detta inn í prógramm fyrir aðstandendur alkóhólista og það hefur algjörlega bjargað mér,“ útskýrir hún. „Það er erfitt að búa í litla samfélaginu þar sem allir þekkja alla og allir hafa skoðanir á öllum og sú sjálfsvinna sem fylgir því að fara í gegnum 12 spora kerfið hefur hjálpað mér óendanlega mikið. Eftir að hafa gengið í gegnum Asberger-greiningu með yngsta son minn er ég nokkuð viss um að ég er með Asberger. Ég get ekki logið og trúi alltaf að annað fólk meini það sem það segir. Verð svo rosalega hissa þegar það stendur ekki við það. Margir hafa sagt að ég sé óskaplega naív, en ég er bara svona og hef ekki áhuga á því breyta því. Eitt af því sem er erfitt hér á Íslandi er hvað fólk sem er öðruvísi hefur litla möguleika á að blómstra og við sem þjóð þurfum að læra að vera umburðarlyndari gagnvart fjölbreytileikanum. Það eru nefnilega allir öðruvísi, ég hef aldrei hitt venjulega manneskju. Hún er bara mýta.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Hildur Emilsdóttir, förðunarfræðingur fyrir Urban Decay á Íslandi

Mannlíf er fríblað sem er borið út á höfuðborgarsvæðinu og einnig í eftirfarandi verslanir á landsbyggðinni:

Krónan Vestmannaeyjar
Krónan Hvolsvelli
Krónan Selfossi
Krónan Akranesi
Krónan Reyðarfirði
Nettó Egilsstöðum
Nettó Borgarnes
Nettó Reykjanesbæ
Nettó Höfn í Hornafirði
Nettó Grindavík
Nettó Akureyri
Nettó Selfossi
Fjarðarkaup – Hafnarfirði

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -