Berglind Harpa nokkur, móðir í Langholtshverfi, er brjáluð yfir skólamatnum sem börnum sínum er boðið upp á. Í gær hafi þeim til að mynda verið boðið upp á grænmetisrétt sem enginn sé til í að smakka.
Þetta kemur fram í færslu Berglindar á Facebook. Þar fær hún fjölda athugasemda í þá veru að maturinn sé óbðlegur. Birna er meðal annars spurð í hvað hún greiði fyrir skólamatinn og segir hún það vera 12 þúsund krónur á mánuði. Það virðast vera um 600 krónur á máltíðina. „Ok „grænmetisréttur” dagsins á matseðli Skólamatur – Hver er til í að smakka ? Þetta er algerlega óboðlegt!! Fyrir þetta erum við foreldrar að borga 😡 Og þið megið endilega deila, þetta er orðið óþolandi!,“ segir Berglind.
Undir þetta tekur Erna Margrét. „Úff! Frekar sorgleg máltíð. Smörið lítur samt vel út,“ segir Erna. Guðni Scheving tekur í sama streng og deilir færslu Berglindar inni á Facebook-svæði Skólamatar sem sér um skólamatinn í grunnskólum höfuðborgarsvæðisins. „Þið greinilega haldið áfram að bjóða upp á gæðafæði og allt verklag til fyrirmyndar! Í alvöru talað. Hvernig dettur ykkur í hug að senda svona út? Fólk er að borga fullt af pening fyrir þetta og þetta á að vera fullt af næringu og orku fyrir börnin okkar,“ segir Guðni.
Þetta er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið er skammað fyrir óboðlegan skólamat. Íbúar í Norðurbænum í Hafnarfirði voru nýverið æfir yfir því sem börnunum þeirra var boðið upp á í hádeginu. Mynd af matnum var birt í hverfisgrúbbunni á Facebook sem samvæmt lýsingu áttu að vera hakkbollur með soðnum kartöflum og brúnni sósu. Á endanum baðst fyrirtækið afsökunar á þeim mat.