Berglind Ósk Guðmundsdóttir, íbúi í Breiðholtinu, hefur varpað fram þeirri hugmynd meðal hverfisbúa að opnaður verði flugeldamarkaður í hverfinu sem opinn verði allt árið um kring. Ekki aðeins það heldur hefur hún lagt þessa hugmynd formlega fram til Reykjavíkurborgar.
Uppástungu Berglindar má finna í færslu hennar í hverfishópi Breiðholtsbúa á Facebook þar sem hún hvetur alla íbúa til að kjósa hugmynd hennar hjá borginni. „Veit að margir eru sammála og eru spenntir að fá flugeldamarkað í hverfið sem er starfandi allt árið. Allir að kjósa hérna fyrir neðan í hverfið mitt,“ segir Berglind.
Undir hugmyndavefnum Betri Reykjavík liggur uppástunga Berglindar. Þar segir hún vilja tryggja aðgengi Breiðholtsbúa að flugeldum allt árið með opnum flugeldamarkaðar. Slíkt komi til með að veita gleði og sameina íbúa hverfisins. „Eitthvað sem hægt væri að gleðja fólkið í hverfinu, hafa óvænta viðburði t.d eftir kl 22, lítið fyrir barnafjölskyldur í boði í hverfinu eftir kl 22,“ segir Berglind.
Talsverðar líkur eru á því að hugmynd Berglind sé sett fram í kaldhæðni vegna tíðra flugeldasprenginga í hverfinu utan gamlárskvölds og þrettánda sem pirrar marga íbúa. Unnar nokkur virðist þó ekki viss. „Reglugerð um sölu og markaðssetningu flugelda kemur í veg fyrir að svona hugmynd verði að veruleika, svo hafið engar áhyggjur. Það er enginn að opna flugeldasölu hér á landi allan ársins hring…,“ segir Unnar.
Berglind svarar að bragði. „En ef við söfnum undirskriftalista og reynum í sameiningu að fá reglugerðinni breytt?,“ spyr Berglind.