Fimmtudagur 12. september, 2024
4.8 C
Reykjavik

„Besta bókin mín alltaf sú næsta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Glæpasögum Ragnars Jónassonar hefur verið vel tekið og þær komið út víða um heim. Einn erlendi útgefand inn vildi skrifa nýjan endi við eina bók Ragnars, honum fannst svo leiðinlegt þegar aðalsögupersónan dó. Nýlega sendi Ragnar frá sér sína tíundu bók, svolítið draugalega spennusögu.

 

Þorpið stendur bara ein og sér og er ekki hluti af syrpu,“ segir Ragnar þegar hann er beðinn um að lýsa nýju bókinni. „Sagan kom bara til mín,“ bætir hann við. „Í mínum huga er þetta spennusaga með smávegis draugagangi en það þarf enginn að óttast að draugurinn myrði, það eru rökréttar skýringar á öllum glæpunum í bókinni.“

Bókin segir frá Unu, kennara sem flytur í afskekkt þorp þar sem aðeins tíu manns búa, þar af tvö börn. Með tímanum fer hana að gruna að þorpsbúar búi yfir stóru leyndarmáli og hún fær á tilfinninguna að hún sé allt annað en velkomin. Sögusviðið eru Skálar á Langanesi, en þorpið þar fór í eyði um miðja
síðustu öld. Bók Ragnars gerist árið 1985 og tekur hann sér þar það skáldaleyfi að halda svæðinu í byggð lengur en raunin var.

Mörgum brá vissulega þegar Hulda dó … og einn útgefandi minn erlendis tók því svo illa að hann skrifaði nýjan endi þar sem hún dó ekki.

„Það var gott að fá svigrúm til að skrifa eitthvað allt annað eftir að bókunum um Huldu lauk.“ Aumingja Huldu sem Ragnar „drap“ með köldu blóði alveg óvænt, ekki við mikla gleði margra lesenda. „Ég er mjög ánægður ef fólk kvartar yfir örlögum sögupersónu, þá veit ég að bókin eða persónan hefur haft áhrif og hrist upp í lesandanum,“ segir Ragnar.

„Mörgum brá vissulega þegar Hulda dó … og einn útgefandi minn erlendis tók því svo illa að hann skrifaði nýjan endi þar sem hún dó ekki. Svo var ég beðinn um samþykki fyrir því en það kom aldrei til greina.“

Mikill aðdáandi Agöthu

- Auglýsing -

Ragnar las mikið í æsku og þegar hann var í tólf ára fór hann að lesa bækur Agöthu Christie. Úrvalið af þýddum bókum eftir hana var ekki mikið svo ef hann langaði að lesa meira varð hann að lesa þær á frummálinu og það gerði hann.

„Það var mjög gott að byrja á Agöthu því hún skrifar frekar einfalt mál og ég veit að margir velja bækur hennar þegar þeir byrja að lesa á ensku. Ég tók upp á því að þýða nokkrar smásögur eftir hana fyrir Vikuna úr ensku á unglingsárunum, en þegar ég var 17 ára, enn ekki kominn með bílpróf, keyrði mamma mig til Björns Eiríkssonar, útgefanda hjá Skjaldborg, en hann gaf Agöthu Christie­bækurnar út. Ég sagði honum að mig langaði til að spreyta mig á því að þýða heila skáldsögu. Björn sem kannaðist við mig sem strákinn sem hringdi reglulega til að spyrja hvenær næsta bók kæmi út og hvaða bók það yrði, tók mér vel og samþykkti að ég þýddi fyrir sig. Ég valdi bókina Endless Night sem var stysta bókin sem ég átti eftir Agöthu. Næstu 15 árin þýddi ég bækur hennar fyrir Skjaldborg og síðar Uglu útgáfu, alls 14 skáldsögur. Þegar sú síðasta sem ég þýddi kom út, árið 2009, kom jafnframt út mín fyrsta skáldsaga, Fölsk nóta.“

Ragnar gat ekki bæði skrifað eigin glæpasögur og þýtt bækur Agöthu og varð að velja. Við lesendur höf um heldur betur grætt á því og ný bók eftir hann komið út á hverju ári. Uppáhaldsbók Agöthu­bók Ragnars er Murder on the Links. „Ég nefni hana alltaf þegar ég fæ þessa spurningu, en hún kom fyrst út á íslensku á fimmta áratug síðustu aldar undir nafninu Dularfullur atburður. Hún var algjörlega ófáanleg í bókasöfnum og bókabúðum svo ég fór með pabba á Landsbókasafnið til að lesa hana þegar ég var eflaust ekki nema tólf eða þrettán ára. Bókin er mjög skemmtileg sakamálasaga, ein af þeim fyrstu sem Agatha Christie skrifaði, og var síðar endurútgefin á íslensku og hét þá Opna gröfin.“

- Auglýsing -

Ragnar hafði ekki verið búsettur í enskumælandi landi en taldi sig þó geta þýtt skáldsögu. „Ég held að lykillinn að þýðingum sé ekki síst tungumálið sem maður þýðir yfir á, og mér fannst alltaf gaman að skrifa og vinna með íslenskuna, en þarna þegar ég var sautján ára hafði ég líka lesið mikið á ensku,“ segir Ragnar. „Ég átti líka góða að, pabbi og mamma lásu yfir þýðingarnar og sömuleiðis amma og afi, allt saman mikið íslenskufólk.“

Iceland Noir í Iðnó

Fyrr í nóvember á þessu ári var haldin glæpasagna hátíð í Iðnó, þriggja daga hátíð sem Ragnar skipu lagði ásamt þremur félögum sínum úr glæpa sagna heim inum, Yrsu Sigurðardóttur, Lilju Sig urð ar dóttur og Óskari Guðmundssyni.

„Árið 2013 vor um við Yrsa á glæpasagnahátíð í Bretlandi, ásamt Quentin Bates, rithöfundi og þýð anda, en hann þýddi síðar bækur eftir mig yfir á ensku. Þar vorum við spurð hvort slík hátíð væri haldin á Íslandi og þá kviknaði hugmyndin. Sex mánuðum síðar var fyrsta Iceland Noir­hátíðin haldin og þar voru þau Ann Cleeves, höfundur bókanna um lögregluforingjann Veru, og Arnaldur Indriðason heiðursgestir. Vinir okkar að utan, hinir ýmsu rithöfundar, skráðu sig og auðvitað Íslendingar líka, og svo var hátíðin haldin aftur á næsta ári. Peter James var einn heiðursgesta þá og tveimur árum seinna voru þau Sara Blædel og Val MacDermid heiðursgestir hátíðarinnar. Í ár kom m.a. Shari Lapena, höfundur metsölubókarinnar Hjónin við hliðina, en auk hennar voru heiðursgestir Sjón, Eliza Reid og Katrín Jakobsdóttir.“

Sjá einnig: Tækifæri til að komast í nálægð við glæpasagnahöfunda

Hátíðir á borð við þessa eru öllum opnar en þá fara fram pallborðsumræður um hin ýmsu efni og höfunda og setið er fyrir svörum. Í ár voru meðal annars umræður sem forsætisráðherrann okkar, Katrín Jakobsdóttir, stjórnaði en Ragnar, Ármann Jakobsson prófessor sem er með sína eigin glæpasögu í ár og Martin Edwards rithöfundur sátu hjá henni uppi á sviði og umræðuefnið var Agatha Christie og bækur hennar. Þarna er einstakt tækifæri fyrir fólk að hitta mögulega uppáhaldsrithöfundinn sinn erlendis frá. Hægt er að kaupa helgarpassa en að sögn Ragnars er sniðugra fyrir landann að kaupa aðgang að þeim viðburði sem mest lokkar, eða viðburðum, og það kostar lítið, en hátíðin er unnin í sjálfboðavinnu og reynt að hafa hana aðgengilega fyrir alla.

Okkur dreymir um að gera hátíðina að árlegum viðburði.

„Næsta hátíð verður árið 2020 og við erum komin með þrjá heiðursgesti, þau Ann Cleeves, Ian Rankin og Louse Penny en hún er vinsælasti glæpasagnahöfundur Kanada og með þeim vinsælli í Bandaríkjunum líka. Okkur dreymir um að gera hátíðina að árlegum viðburði. Í ár héldum við ball þar sem hljómsveit skipuð breskum glæpasagnahöfundum lék fyrir dansi. Svo var Ísnálin veitt fyrir bestu þýðinguna. Bjarni Gunnarsson þýðandi og Jo Nesbø rithöfundur hrepptu Ísnálina að þessu sinni fyrir glæpasöguna Sonurinn, og tók Bjarni við verðlaunum fyrir hönd þeirra tveggja.“

Pressan sem þufti

Ragnar fær hugmyndir alls staðar að, meðal annars úr blaðagreinum.

Glæpasögur njóta mikilla vinsælda um heiminn og á Íslandi eru ekki mörg ár síðan erlendir krimmar í kiljum fóru að koma út allan ársins hring og seljast eins og heitar lummur. Íslenska glæpasagan er heldur ekki mjög gömul því lengi vel þóttu slíkar bækur ekki nógu trúverðugar á litla Íslandi. Ragnar hóf feril sinn á svolítið óvenjulegan hátt, eða tók þátt í samkeppni. Hann vissi fyrirfram að bókin hans myndi ekki sigra en sendi hana samt inn.

„Bókaútgáfan Bjartur auglýsti eftir hinum íslenska Dan Brown, eða bók í anda Browns, árið 2008. Ég var með bók í huga, ekki í þessum anda en notaði tækifærið og sendi hana inn. Þetta var pressan sem ég þurfti til að klára bókina og konan mín ýtti á eftir mér svo að ég skilaði handritinu á réttum tíma. Enginn íslenskur Dan Brown fannst en Veröld, systurforlag Bjarts, gaf bókina mína út og bað um aðra að ári. Þannig að Fölsk nóta sá dagsins ljós og allt fór af stað,“ segir Ragnar og bætir við að fyrsta glæpasaga Lilju Sigurðardóttur hafi einnig sprottið upp úr þessari Dan Brown­samkeppni.

Ragnar fær hugmyndir alls staðar að. „Blaðagreinar sem ég les geta kveikt hugmynd, þarf oft ekki nema eitt orð, einnig fréttir, samtöl þar sem fólk segir mér sögur en það fólk myndi þó aldrei þekkja þær sögur í bókum mínum, enda kveikja þær yfirleitt einfaldlega hugmyndir að einhverju allt öðru,“ segir Ragnar og brosir en hverja af bókum sínum heldur hann mest upp á? „Uppáhaldsbókin mín er yfirleitt alltaf sú nýjasta … og besta bókin alltaf sú næsta.“

Blaðagreinar sem ég les geta kveikt hugmynd, þarf oft ekki nema eitt orð.

Nýr karakter

Ragnar, áminntur um sannsögli, ertu byrjaður á næstu bók og ætlar þú að leyfa aðalpersónunni að tóra eitthvað áfram? „Já, já, ég er byrjaður á nýrri bók og þar er nýr aðalkarakter, lögreglumaður sem fær að lifa,“ lofar Ragnar og bætir við: „Ari lögreglu maður úr fyrstu bókunum er náttúrlega enn á lífi og ég á til einn fjórða úr bók um hann sem ég klára einhvern daginn. Ég er búinn að hugsa þá sögu alveg til enda en hef ekki enn haft tíma til að skrifa hana.“ Ragnar byrjar alltaf á nýrri bók í september, hann þarf að skila handritinu til útgefandans að vori. Það er lesið yfir um sumarið og gerðar athugasemdir, ef þarf. Hann segir að athugasemdum hafi fækkað með hverri bók, ferlið sé mjög lærdómsríkt og hægt að læra af mistökum sínum.

„Ég myndi aldrei senda frá mér bók nema hún fari í gegnum svona nálarauga, þetta er kannski ekki skemmtilegasti tíminn, það eru skrifin sjálf, en hann er býsna mikilvægur. Una hét t.d. stundum Hulda í nýju bókinni en það var auðvitað lagað í yfirlestri,“ segir Ragnar og hlær.

Hann vinnur sem lögmaður á daginn og þá er það samveran með fjölskyldunni. Um tíuleytið á kvöldin, þegar allt er komið í ró, sest hann við tölvuna og galdrar fram alls kyns plott og persónur. Hefði hann trúað því þegar hann sat í háskóla og lærði lögfræðina að ekki svo mörgum árum seinna yrði hann virtur og vinsæll glæpasagnarithöfundur? „Ég sá aldrei sjálfan mig fyrir mér sem rithöfund, ég ætlaði aldrei að skrifa skáldsögur, ég miklaði það fyrir mér en þetta var alltaf draumurinn,“ segir Ragnar einlægur. „Ég ólst upp við bækur, Ólafur Ragnarsson bókaútgefandi var föðurbróðir minn, og faðir minn, Jónas Ragnarsson, hefur skrifað bækur, m.a. Daga Íslands og Jólaminningar. Afi skrifaði bækur um Siglufjörð og ekki má gleyma mömmu sem er læknaritari, hún hefur verið mjög dugleg að lesa bækurnar mínar yfir.“

Gott skipulag galdurinn

Minnstu munaði að Ragnar færi í íslensku í háskóla en hann valdi lögfræðina og hefur aldrei séð eftir því. Starfið segir hann vera mjög skemmtilegt, en hann sýslar með fjárfestingarsjóði hjá fjármálafyrirtækinu Gamma. „Lögfræðistarfið er mjög fjölbreytilegt en mér finnst gott að hafa þetta tvennt alveg aðskilið, ég reyni til dæmis að hafa sem fæsta lögfræðinga í bókunum mínum.“

Ragnar segir að gott skipulag sé galdurinn við að skrifa bækur. „Best er að hugsa um bókina í nokkur ár, skipuleggja sig vel og setjast við skriftir þegar maður sér fyrir söguna, að minnsta kosti aðalatriði hennar, það virkar best fyrir mig. Ég skrifa endalaust niður hugmyndir í minnisbækur eða sendi sjálfum mér tölvupóst með hugmyndum, og svo renna þær oft saman í eina bók.“

Lögfræðistarfið er mjög fjölbreytilegt en mér finnst gott að hafa þetta tvennt alveg aðskilið.

Ragnar er giftur Maríu Margréti Jóhannsdóttur sem vinnur sem almannatengill hjá Wow air, mest í tengslum við markaði félagsins í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þau eiga dæturnar Kiru, átta ára, og Natalíu, fjögurra ára. Spurning hvort rithöfundurinn segi dætrunum ekki spennandi sögur á kvöldin? „Jú, ég segi þeim oft sögur en skrifa þær ekki niður. Ég var eitt sinn með hugmynd að barnabók en ég verð að viðurkenna að ég ver alltaf öllum þeim tíma sem ég gef mér til skrifta í glæpasögurnar.“

Jólin hjá Ragnari og fjölskyldu eru hefðbundin. „Við verðum heima og með hamborgarhrygg í matinn að vanda. Eftirrétturinn er sjaldnast sá sami en við erum alltaf með möndlugraut í forrétt. Dæturnar fá möndluna ótrúlega oft,“ dæsir Ragnar brosandi og segir að þegar komi að því að kaupa jólatré kaupi hann helst stærra jólatré en komist fyrir í stofunni.

„Skemmtilegast er að þurfa að saga það aðeins til svo það passi akkúrat. Fyrir tveimur árum skar ég reynd ar næstum af mér fingurinn við þær æfingar. Svo horfi ég nú oft á sömu gömlu jólamynd irnar á aðventunni, mæli sérstaklega með Die Hard I og II, og The Man who Came to Dinner frá 1942. Já, svo eru jólakveðjurnar á Rás 1 ómissandi á Þorláksmessu og útvarpsmessan á aðfangadagskvöld, bara allt þetta klassíska íslenska,“ segir Ragnar að lokum.

Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -