Laugardagur 24. september, 2022
12.8 C
Reykjavik

Birgir sagði hingað og ekki lengra- Læknir bað hann að handtaka sjúkling: „Á hvaða öld erum við?“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga, segist búinn að fá upp í kok af fornaldarlegu háttarlagi gagnvart fíkniefnaneytenda á Íslandi. Hann segir kominn tími á að hugsa um það fólk sem sjúklinga en ekki glæpamenn. Máli sínu til stuðnings segir hann frá því þegar læknir bað Birgi um að handtaka sjúkling sem hálfgerða reddingu. Birgir segir mikilvægt fyrir opinbera starfsmenn að lýsa aðstæðum fyrir almenningi að því gefnu að slík frásögn sé ekki rekjanleg.

„Hér er smá innsýn í samfélagið okkar gegnum störf lögreglu. Sönn saga en lyginni líkust. Við fengum aðstoðarbeiðni frá aðstandendum aðila sem var að glíma við vímuefnavanda. Hafði hann að þeirra sögn ætlað að enda líf sitt með of stórum skammti. Lögreglan hafði upp á honum og kom honum undir læknishendur. Hann vildi ekki þyggja þá aðstoð og fór aftur heim,“ segir Birgir.

„Næsta dag hafði lögreglan afskipti af heimili aðilans eftir að vegfarandi tilkynnti óeðlilega hegðun tengda heimilinu. Ég tek fram að þetta heimili er ekkert óeðlilegt og ekki það sem fólk myndi kalla „óreglu“ heimili. Aðstandendur afþökkuðu aðstoð að svo stöddu. Seinna sama dag höfðu þessir aðstandendur samt aftur samband og óskuðu þá eftir sjúkrabifreið og lögreglu til að flytja aðilann undir læknishendur. Var þá andlegt ástand aðilans orðið það slæmt að þau voru komin á endastöð og urðu að fá viðeigandi faglega aðstoð fyrir hann.“

Birgir segir mál sem þessi í raun ekki eiga heima hjá lögreglunni. „Það er ekkert í lögum sem leyfir lögreglu að handtaka fólk fyrir að vera veikt og ég var ekki að fara að gera slíkt. Eðlilega vita aðstandendur samt ekki hvernig þetta gengur fyrir sig. Þau vilja bara hjálpa ástvini. Ég afpantaði því sjúkrabíl en hafði samband við lækni og fékk hann á heimilið. Þessi læknir mat að ástand aðilans væri það slæmt að brýn þörf væri á að koma honum á sjúkrastofnun og að hann væri of veikur til að geta metið það sjálfur. Var hann því sjálfræðissviptur í þrjá sólarhringa. Aðilinn brást illa við þessari ákvörðun og streyttist við er lögregla flutti hann á sjúkrastofnun í umboði læknissins,“ segir Birgir.

Þá var hann enn og aftur beðinn um að handtaka manninn. „Eftir að hafa rætt við aðilann hafði annar læknir á þeirri sjúkrastofnun samband við mig. Hann sagði aðilann hættulegan sjálfum sér og öðrum en undir það miklum áhrifum og í það slæmu ástandi að hann þyrfti að „óska eftir því“ að hann yrði vistaður í fangaklefa um nóttina og komið yrði með hann næsta dag. Já þetta er í alvörunni sönn saga! Þetta er langt frá því að vera í fyrsta sinn sem lögreglan lendi á svona vegg en þarna fékk ég bara nóg. Þarna var annar læknir búinn að sjálfræðissvipta aðilann en það átti að aflétta þeirri sviptingu og lögreglan að yfirtaka ábyrgðina og setja aðilann í fangaklefa. Á hvaða öld erum við?,“ spyr Birgir.

Hann segir þetta einfaldlega ekki eðlilegt. „Ég ræddi lengi við lækninn og útskýrði þá skoðun mína að slíkt væri á engan hátt eðilegt. Heilbrigðisstofnun gæti ekki óskað eftir því að aðili yrði handtekinn. Ég ákvað því að neita lækninum um þessa beiðni hans. Ég sagði að ef þau gætu ekki aðstoðað veikan aðila þá værum við ekki að fara að taka við honum. Lögreglan hefði ekki slíkar forvirkar heimildir að geta handtekið aðila sem hugsanlega á eftir að gera eitthvað vegna veikinda sinna. Þar á heilbrigðiskerfið að grípa inn í,“ segir Birgir.

- Auglýsing -

Hann bætir við að lokum að ekki hafi verið við neinn ákveðinn mann að sakast. Kerfinu sé um að kenna. „Læknirinn ákvað að lokum að taka við aðilanum og leggja hann inn. Ég tek fram að læknirinn var mjög kurteis á allan hátt og ég er ekki að dæma hann eða samstarfsfólk hans. Þetta eru nefnilega þau sem eru sérfræðingarnir á þessu sviði. Ekki lögreglan. Þetta er bara partur af göllum og götum í kerfinu sem við höfum búið við. Göllum sem verður að lagfæra, götum sem þarf að stoppa upp í og hugarfar sem þarf að breytast. Þetta ástand er hvorki boðlegt fyrir lögreglu né heilbrigðisstarfsfólk og alls ekki þá sem eru veikir og þurfa aðstoð. Aukið samstarf mismunandi stofnanna og félagasamtaka er lykillinn að forvörnum og aukinni velsæld þeirra hópa sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu. Það eru til lausnir og ráð. Við verðum að gera betur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -