Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Birgitta Jóns krassaði og leitar hjálpar í VIRK: „Enginn heimsendir að missa veraldlega hluti“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég krassaði algjörlega. Ég hef oft klárað batteríin en þarna eyðilagði ég batteríið mitt,“ segir Birgitta Jónsdóttir fyrrum alþingismaður og skáld í viðtali við síðdegisútvarp Rásar 2.

Birgitta fór í gegnum tímabil þar sem hún var tekjulaus, búin með sparnaðinn, og þurfti að selja íbúðina til að lifa af.

„Fólk hefur verið að átta sig á forgangsatriðunum í þessari innilokun og stöffi. Það er enginn heimsendir að missa veraldlega hluti ef maður hefur heilsuna og börnin og manns nánustu eru einhvern vegin í lagi. Þar liggja verðmætin í lífinu“.

Hún hefur verið að vinna sig upp með aðstoð VIRK.

Birgitta segir brjálað áreiti og vinnutörn við að búa til tvö stjórnmálaflokka úr engu og koma þeim á þing auk alls í kringum Wikileaks málið hafi tekið af henni toll. „Maður fattar þetta ekki þegar maður er á stöðurgri keyrslu í átta ár. Ég tók aldrei frí á meðan ég var á þingi, ég var ekki einn af þessum þingmönnum sem fór í háskólanám eða skrifaði bók eða eitthvað svoleiðis meðan ég var á þingi. Ég er núna í VIRK, loksins bað ég um hjálp. Ég komst ekki út úr því að finna eitthvað sem ég brann fyrir. Núna er ég að læra að gera ekki neitt“.

Maður getur orðið egóisti

- Auglýsing -

Birgitta segir að frá því á Rás 2 að eftir að hún varð þekkt á Íslandi hafi hún alltaf farið reglulega í burtu. Hún lærði það af móður sinni, Bergþóru Árnadóttur vísnasöngkonu sem var þekkt þegar Birgitta var unglingur.

„Það verða miklar kröfur og áreiti á mann þegar maður er opinber persóna. Og það getur eyðilagt mann. Maður getur orðið einhver egóisti og farið að fá ranghugmyndir um sjálfan sig. Þannig að ég hef alltaf farið til útlanda til að endurheimta sjálfa mig og núllstilla. En ég þurfti þess ekki núna, Covid kom og ég hef ég getað verið í felum heima hjá mér, notið þess virkilega að byggja mig upp andlega og ná meiri náttúru. Það afruglar mig að eyða meiri tíma með þessu stórkostlega landi“.

Að sögn Birgittu hefur það tekist afar vel og finnur hún að hún er tilbúin til að koma út aftur.

- Auglýsing -

Kona sem ekki passar í kassa

Þrátt fyrir að hafa dvalið í helli sínum er Birgitta enn með mörg járn í eldinum. „Það er búið að vera að gera heimildamynd um mig í ógeðslega mörg ár. Það gerir kona sem gerði heimildamynd um Daniel Ellsberg og fékk Óskarsverðlaunin Við erum búnar að vinna í þessari heimildamynd lengi en hún er alltaf að lenda á einhverjun hnökrum því það er stundum svolítið erfitt að gera heimildamyndir um konur sem passa ekki í neina kassa. En hún var að skrifa mér og myndin ætti að koma á þessu ári eða næsta”. Birgitta skrifar einnig mikið. „Ég er örugglega með 15 bækur sem ég hef byrjað að skrifa og svo sé ég hverja maður gæti haldið áfram með og verið í góðu flæði”.

„Ég uppgötvaði ljóðabók sem ég var búin að skrifa og búin að steingleyma. Ég er að spá í að fara í fjármögnun á henni á Karlolina Fund og gefa hana út mánuði fyrir kosningar því þetta er drápa á allt þetta kerfi, mótmælin og þessa svokölluðu byltingu okkar. Það er eins og ég hafi dottið í gullæð með tök á tungumálinu okkar með þessari bók“. Birgitta mun að sjálfsögðu fara sínar eigin leiðir þegar að útkomu kemur. „Ég hef alltaf verið svolítill frumkvöðull í að koma efni frá mér. Ég var fyrsta skáldið sem fór virkilega að nota internetið og fólk fór að nota ljóð frá mér við jarðarfarir og guð má vita hvað um allan heim. Ég plataði krakkana mína til að gefa mér almennilega míkrafón og þá er hægt að skanna bara QR kóða og fá performans á verkinu líka,” sagði Birgitta á Rás 2.

Gera allt á hnefanum

Aðspurð um vinnuna í VIRK segir Birgitta vera þakklát fyrir prógrammið og að fá þann stuðnings sem þarf til að ná aftur virkni.

„Ég hef margoft lent á vegg og lært mjög margt. Ég fer svo oft inn í verkefni sem eru ómöguleg og legg hjarta og sál í þau því mér finnst þau skemmtileg og krefjandi. Ég er með sálfræðing og aðila til að hjálpa við markmiðasetningu. Það er örugglega fólk eins og ég úti í samfélaginu sem ætlar að gera allt sjálft á hnefanum og ég hvet þau til að leita sér aðstoðar. Fyrsta skrefið til að vinna úr hlutum er að segja þá upphátt“.

Birgitta segist sig hafa afar lélegt sjálfsmat og það sé eitthvað sem hún sé að vinna í. „Það er til nokkuð sem heitir imposter syndrome. Maður upplifir sig aldrei eiga rétt á að gera eitthvað eða vera sérfræðingur í einhverju. Það sem gerist er þegar maður verður opinber persóna er að það er gerð mynd af manni, mynd af einhverju öðru en maður endilega er. Ég er rosalega prívat persóna og er heppin með það að ég tek ekki eftir að fólk viti kannski hver ég er. Ég er ekkert að pæla í því og finnst ég ekkert merkilegri en hver annar”.

Tekur einn dag í einu

„Ég hef verið það heppin að kunna að fara inn í flæðið. Ég skynja vel hvenær er rétti tíminn til að gera hluti. Það er eitthvað sem maður getur þróað og þroskað með sér, það þarf bara að treysta innsæinu og þora að gera hluti sem aðrir segja að ekki sé hægt að gera. Það er það sem að mótiverar mig mest, það er þegar einhver segir að það sé ekki hægt að gera eitthvað”. Spurð að því hvort hún hyggi aftur á þingsetu segist hún ákveða einn dag í einu. „Ég veit ekki alveg hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór, ég hef ekki ennþá fundið eitthvað sem ég brenn fyrir. Mér fannst ótrúlega mikil forréttindi að vera ráðin af þjóðinni í vinnu, það var mjög magnað, og það er svo margt sem þarf að laga þannig að hlutirnir virki“.

Hún er ákveðin í að fara ekki inn í stjórnmál í kringum þessar kosningar. „Ég held að næsta kjörtímabil verði stutt og skrítið. Það getur vel verið að ég verði búin að jafna mig á þessu fyrir þarnæstu kosningar, ég bara veit það ekki. Kannski langar mig að gera eitthvað allt annað. Mig langar að gera hluti þar sem ég finn að það er þörf á mér og ég viti að ég sé að skila einhverju inn í samfélagið. Ég er ekki að sækjast eftir að fara inn á alþingi til að lufsast þar einhvern vegin og ná athygli á hálftíma hálfvitanna eins og Þráinn Bertelsson kallaði það. Þessi hálftími getur gefist vel en aðeins ef fólk er ekki að hamast við að vera einhverjir páfuglar”.

Ruglið síðasta mánuðinn

Birgitta hefur hefur sterkar skoðanir á viðbrögðum við Covid og það sem á undan hefur gengið.

„Hvað er til dæmis í gangi með allt ruglið síðasta mánuð? Hvað er í gangi? Það vissu allir að lögin myndu ekki halda og svo á aumingja sóttvarnarlæknir vera eitthvað andlit fyrir þetta klúður. Áður en það kom kosningafiðringur í fólk í stjórnmálum var fylgt ráðleggingum þeirra sem vita best en núna finnst manni hver höndin vera upp á móti annarri. Við vorum alveg að komast í mark og þá ákváðu sumir að leggjast bara fyrir markið. Við sem þjóð höfum staðið okkur virkilega vel varðandi sóttvarnir og þegar að stjórnmálamenn sjá brotalamir eiga þeir að segja: „Okkur þykir þetta mjög leitt, við hefðum átt að vera skýrari“. En Svandís svarar ekki einu sinni spurningum fjölmiðla. Það ætti  að reka þá sem eru að ráðleggja þessu fólki í framvarðarsveitinni. Þetta er ekki það sem við þurfum. Við þurfum skýrleika og fyrirsjáanleika. Fyrirsjáanleikinn er að við ættum að ganga aðeins lengra en við þurfum þannig að við séum ekki alltaf að poppa aftur og aftur inn í sama ruglið“.

Götin í heilbrigðiskerfinu

Hún bendir á að það versta sem geti hent fólk sé að lifa undir fátæktarmörkum og búa við stöðugar áhyggjur og það sé til skammar að það sé enn við líði í samfélaginu. Hún er einnig gagnrýnin á geðheilbrigðiskerfið. „Það er verið að hafa bestu árinu af unga fólkinu okkar vegna gata í heilbrigðiskerfinu. Ég er búin að vera að skoða þetta mikið og langar að gera eitthvað í þessu en ég ætla ekki að stofna enn ein samtökin sem þurfa að vera að afla fé til að reka skrifstofu. Við þurfum færri en öflugri samtök til að það sé harður og raunverulegur þrýstingur á yfirvöld að breyta og laga. Margir þurfa aðstoð en það er margra ára biðlistar til sérfræðinga, við erum svo fá að það er kannski einn sérfræðingur í einhverfu og einn í áfallstreituröskun eða whatever. Þetta er gapandi sár sem ekki dugar að henda plástri á,” segir Birgitta Jónsdóttir skáld og fyrrverandi þingkona.

Hlusta má á viðtalið við Birgittu hér

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -