Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Birkir Kristján hundaröltari: „Ég missti alla hundana mína á tímabili“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta er ekki alltaf auðveld vinna. Hundarnir eru ekki allir jafnstilltir og sumir eru mjög erfiðir í taumi eða krefjandi á annan hátt. Ég hef verið að sjá um nokkra hunda sem geta alls ekki verið í hópi og hef þurft að taka þá einn og einn í einu. Ég labba í mesta lagi með þrjá í taumgöngu en leyfi mér að taka fjóra saman þegar ég fer með þá á hundasvæði í lausahlaup. Svo eru sumir hundar flottir í hópi en ómögulegir með einhverjum öðrum ákveðnum hundi. Það býður til dæmis oft upp á vandræði að láta tvo ógelda rakka og eina tík leika saman. En yfirleitt gengur þetta bara rosalega vel og allir eru ánægðir,“ segir Birkir Kristján Guðmundsson sem hefur í mörg ár unnið við að fara í göngutúra með hunda.

Þegar ég var lítill var ég mjög oft að banka upp á hjá nágrönnunum og bjóðast til að labba með hundana þeirra.

„Ég hef elskað hunda alveg frá því að ég man eftir mér. Ég átti samt aldrei hund sjálfur þegar ég var að alast upp. Þegar ég var lítill var ég mjög oft að banka upp á hjá nágrönnunum og bjóðast til að labba með hundana þeirra. Þá var ég ekki enn búinn að átta mig á því að ég gæti fengið borgað fyrir það.

Ég eignaðist minn fyrsta hund þegar ég var sautján ára en þá eignaðist ég kærustu og hundurinn hennar, Figo, fylgdi með í kaupbæti. Við byrjuðum fljótlega að búa saman og Fígó varð eins og barnið mitt á skömmum tíma. Stuttu eftir að hann dó sótti ég mér nýjan hund úr sveitinni sem hafði verið auglýstur á Dýrahjálp. Það er hann Tinni minn sem er Border Collie/Labrador-blanda og kemur með mér í nánast allar hundagöngurnar mínar. Ég fór þá á mitt fyrsta námskeið í HundaAkademíunni og fékk þá enn meiri áhuga á hundum og atferlisfræði hunda. Ég fór svo á þrjú önnur námskeið með Tinna í HundaAkademíunni en að ala hann upp var mjög krefjandi verkefni þar sem hann var alltof lengi í sveitinni. Öll þessi vinna borgaði sig samt því hann er mjög stilltur og góður strákur í dag og ég lærði helling sem gagnast mér mikið í vinnunni.“

Birkir Kistján Guðmundsson

 

Allt í allt hef ég örugglega unnið fyrir 30-40 aðila þó ég hafi nú aldrei tekið það saman.

Birkir segir að þegar Tinni var nýkominn til hans hafi önnur fjölskylda í hverfinu líka verið með nýja hvolp. Þetta var árið 2014. „Við hittumst oft á opnu svæði og leyfðum hundunum að leika sér. Eigandi hvolpsins bauð mér svo einn daginn að taka sinn hund með þegar ég og Tinni færum í hádegisgönguna okkar og borga mér fyrir. Svo það má segja að ég hafi bara algjörlega slysast út í þessa vinnu. Svo fór orðið að berast út meðal hundaeiganda í hverfinu og fleiri og fleiri fóru að bætast við. Rétt áður en Covid skall á var ég farinn að labba með sex til sjö hunda alla virka daga. Allt í allt hef ég örugglega unnið fyrir 30-40 aðila þó ég hafi nú aldrei tekið það saman. En eftir að Covid skall á fóru allir að vinna heima hjá sér, ég missti alla hundana mína á tímabili og fór að vinna bæði hjá félagsþjónustu eldri borgara á Seltjarnarnesi og á skyndibitastað. Hundarnir komu svo hægt og rólega til baka og það er eiginlega bara nýlega orðið aftur eitthvað að gera hjá mér í þessu þó mínir bestu dagar í dag séu ekkert miðað við hvernig þeir voru fyrir Covid.“

Birkir Kistján Guðmundsson

Hundavinnan er samt langskemmtilegasta vinna sem ég hef nokkurn tímann unnið.

- Auglýsing -

Birkir segir að áður en hann fór út í þessa atvinnugrein hafi hann meðal annars unnið við bókhald, sem plötusnúður og viðburðastjóri, þjálfað knattspyrnu og rekið íþróttahús og keyrt út pítsur. „Ég byrjaði mjög snemma að vinna á kassa í Bónus og einu sinni var ég að selja heimagert vegan-mæjónes þannig að ég hef prófað ýmsa hluti. Hundavinnan er samt langskemmtilegasta vinna sem ég hef nokkurn tímann unnið. Ég hef líka haldið fleiri tónleika en ég gæti talið, bæði fyrir sjálfan mig og aðra tónlistarmenn, en ég hef verið að gefa út tónlist undir nafninu Bróðir BIG frá 2015.“

Áhugasamir geta leitað að Birkir Dogwalker á Facebook.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -