Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Bjarni fór eftir kaffi og hvarf sporlaust

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þann 25. ágúst árið 1974 fór Bjarni Matthías Sigurðssson, til berja skammt frá Hólahólum á Snæfellsnesi ásamt dóttur sinni og tengdasyni. Þrátt fyrir að vera orðinn 79 ára gamall var Bjarni heilsuhraustur með afbrigðum og hafði stundað útivist af kappi alla sína daga. Hann var þó farinn að tapa minni og grunaði ættingja Bjarna að hugsanlega væri hann kominn með elliglöp á upphafsstigi.

Bjarni var fæddur þann 29. nóvember 1894 og var búsettur í Ólafsvík. Hann var kvæntur Vigdísi Lydíu Sigurgeirsdóttur og áttu þau sex börn. Vigdís lést árið 1975. Bjarni var trésmiður, járnsmiður og var vinsæll og af góðu einu þekktur. Hann rak meðal annars vélsmiðju í Ólafsvík.

Nokkuð var fjallað um málið í samtímamiðlum auk þess sem áhugi á því jókst aftur með umfjöllun í sjónvarpsþættinum Mannshvörf á Stöð 2 árið 2013.

Sást aldrei eftir kaffiförina

Þennan örlagaríka ágústdag lögðu þremenningar bíl sínum upp við vegaslóða skammt frá aðalveginum og hófust svo handa við berjatínsluna. Bjarni var þá klæddur í blá nankinsföt, með köflótta húfu, eða svo kallaðan sixpensara. Hann var með rauða fötu undir berin og berjatínu sem hann hafði smíðað sjálfur. Fór svo að þau týndu ber góða stund áður en Bjarni segist ætla aftur til bílsins og fá sér kaffisopa. Fimmtán mínútum síðar fóru dóttir hans og tengdasonur á eftir honum en var þá Bjarna hvergi að finna.

Eftir að hafa svipast eftir Bjarna nokkra stund var hvarfið tilkynnt og hófst strax umfangsmikil leit. Hrúga af berjum mun hafa fundist við vegkant skammt frá þeim stað sem Bjarni sást síðast en aldrei fór lögregla hátt með þær upplýsingar. Ennfremur rakti sporhundur slóð Bjarna frá bifreiðinni og upp á aðalveginn en þar endaði slóðin. Það vakti grunsemdir og voru margir þess fullvissir að einhvers konar slys hefði hent Bjarna sem endað hefði með saknæmu athæfi. Sonur Bjarna segir í þáttunum Mannshvörf: „Það var leitað það vel á svæðinu að hann hefði fundist ef hann væri þarna”.

- Auglýsing -

Sjáandi gefur sig fram

Hvarf Bjarna tók mjög á fólk og lamaðist allt atvinnulíf í Ólafsvík og víðar á Snæfellsnesi vegna þess mikla mannfjölda sem bauð sig fram við leitina. Fóru bátar til að mynda ekki á sjó daginn eftir hvarfið og þegar mest var tóku hátt í þrjú þúsund manns þátt í leitinni. Leitin var gríðarlega umsvifamikil og segja má að hver einasti sentímetri hafi verið kannaður oftar en einu sinni, og oftar en tvisvar, á þeim slóðum sem Bjarni hvarf. Einnig var kölluð til þyrla til aðstoðar en hvergi bólaði á Bjarna.

Eðvarð Arnarson, fyrrverandi lögreglumaður í Kópavogi, sagði í þættinum að dulrænn sjáandi hefði gefið sig fram við lögreglu og sagt að hann sæi hvernig atburðarásin hafi verið. „Hann sagði að þessi gamli maður hefði verið að koma úr berjamó og gengur upp á veginn. Þar kemur bíll aðvífandi og hann verður fyrir bílnum. Bíllinn stoppar og út úr bílnum koma tveir menn. Þeir taka manninn og setja hann inn í bílinn og keyra áfram. Síðan segir hann að þeir hafi urðað manninn í grjótvegg við eyðibýli og eyðibýlið sé 60 kílómetra frá þeim stað þar sem hann varð fyrir bílnum.“

- Auglýsing -

Eðvarð og félagi hans fóru í frítíma sínum að leita að eyðibýlinu og fundu Landbrot, eyðibýli sem Eðvarð sagði hafa verið alveg eins og eyðibýlið sem sjáandinn lýsti og brá honum nokkuð við. Hvergi var þó neitt þar að finna.

Dularfulla ljósmyndin

Það var síðan sumarið 2012 að Jón Haukur Jóelsson, rafvirki á níræðisaldri, var á ferð um við Vatnshóla ásamt félaga sínum og hugðust þeir skoða helli. Hellirinn reyndist hins vegar lokaður og leiðsögumenn haldnir af stað heim á leið. Jón Haukur ákvað þó að smella af ljósmynd af holu í bergvegg við hlið hellisins. Þegar heim var komið hlóð Jón Haukur myndunum inn í tölvu og brá nokkuð við að sjá skýra mannsmynd af eldri manni með sixpensara við holuna. Hann hringdi strax í ferðafélaga sinn sem fullyrti að þeir hefðu verið tveir einir á svæðinu.

Myndin sem Jón Haukur tók við Vatnshelli. Skjáskot: visir.is

„Ég þekki engan mann með þessa holningu, og allra síst hef ég tekið mynd af manni sem lítur svona út,“ sagði Jón Haukur síðar í viðtalið við Vísi.

Jón dró þó engar ályktanir, þó vissulega hafi honum dottið hvarf Bjarna í hug þegar hann sá myndina. „Ég get ómögulega gert mér grein fyrir því hvort um þennan mann er að ræða. Ég hef alltaf verið vantrúaður á annað líf og þess háttar.“

Aldrei fannst neitt sem skýrt gat hvarfið, hvorki rauða fatan, berjatínan eða nokkuð annað. Gott veður var þennan dag og næstu daga á eftir. Auglýst var eftir Bjarna í fjölmiðlum bæði á íslensku og ensku og leitin endurtekin vorið 1975 þegar snjóa létti en án árangurs.

Líkamsleifar Bjarna Matthíasar hafa aldrei komið í leitirnar en afkomendur hans hafa þó aldrei gefist upp.

Minningarathöfn fór fram um Bjarna Matthías Sigurðsson frá Ólafsvíkurkirkju 30. nóvember 1974.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -