Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Bjarni Harðarson hefur lesið Kóraninn: „Hugmyndir annarra um múslíma oft og tíðum ansi öfgakenndar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að heyra sömu menn fimbulfamba nú um það hversu alvondir þeir menn eru sem komnir eru til valda í Afganistan er ekki nema brjóstumkennanlegt blaður. Ennþá vitum við lítið um stjórnarhætti nýrra herkonunga austur í Kabúl og það er sem betur fer sjaldnast nokkuð að marka þá menn sem þykjast sjá í gegnum hlið tímans.“

Þetta eru lokaorð í pistli Bjarna Harðarsonar, bóksala og rithöfundar, í Fréttablaðinu 25. ágúst. Titill pistilsins er: „Um hina alvondu menn í austrinu og gesti þeirra“ og þar fjallar hann í upphafi um að hvarvetna á Vesturlöndum sé nú rætt um Talibana og mjög á einn veg: Að þar séu á ferðinni miskunnarlaus og siðlaus illmenni. Bjarni skrifar að staðreyndin sé að Bandaríkjamenn og stuðningsþjóðir þeirra (Íslendingar þar með taldir) eigi skuldlaust heiðurinn af hinnu sorglegu valdatöku Talibana í Afganistan enda fyrstir til að hlaða undir öfgasveitir þessar í viðleitni til að hefta völd Sovétmanna á svæðinu. Bjarni nefnir að hann hafi reyndar ekki komið til Afganistan en hann hafi hins vegar farið til Pakistan þar sem hann hreifst af Phastúnum og að hann hafi með því að fara á þessar slóðir „komist örfá hænufet í átt að skilningi á þankagangi þessa fólks og fundið hve gagnstæður hann er okkar hugsun, um margt.“

Og Bjarni skrifar: „Og það er að sönnu að menn þessir eru ekki talsmenn frjálsræðis meðal kvenna og raunar ekki frjálsræði nokkurs manns ef út í það er farið. Allt í fari þessa fólks lýtur ströngum aga ferðaveldisins og verkar í heild heldur óhugnanlega. En að fólk þetta séu siðlausir villimenn eða illmenni er ekki bara rangt heldur og einnig vitnisburður um djúpstæðan rasisma, mannhatur og hroka.“

Síðar skrifar hann: „Eitt er það út af fyrir sig að senda nokkur þúsund manna morðsveitir inn í land sem Afganistan undir því yfirskini að leita þurfi uppi ofbeldismenn sem sprengja skýjakljúfa. Slíkt hefði getað jafnað sig. Hitt er til lengri tíma miklu verra að herför þessari var smám saman snúið upp í innrætingarherferð þar sem Afgönum skyldi kennt að vera eins og fólk tíðast er í okkar heimshluta.“

 

Við erum bara ein tegund

- Auglýsing -

Mannlíf hafði samband við Bjarna sem segist alls ekki vilja verja Talibana eða lífsviðhorf þeirra. „Þau eru ekki mín. En ég hef aftur á móti umgengist svolítið heittrúaða múhameðstrúarmenn einmitt á meðal Phastúa og reyndar víðar og það eru mikil öfugmæli að tala um þessa menn sem villimenn. Þau sjónarmið sem ég segi frá í pistlinum hef ég ekki hvað síst tileinkað mér hjá hófsömu fólki í þessum löndum sem blöskrar hvernig Vesturlandabúar hafa í rauninni alið á öfgaöflunum með sínum barnalegu íhlutunum og svo ekki síst með því að í rauninni voru það í upphafi Bandaríkjamenn sem kveiktu á þessum öfgaöflum, Talibönum og al-Qaida-samtökunum, af því að þetta eru öfl sem þeir gátu notað til að berja á Sovétríkjunum á sínum tíma. Ég held að við þurfum að sjá ófarnaðinn sem bandalagsþjóðir okkar hafa leitt yfir þetta svæði frekar en að vera að hneykslast á og gera mönnum fyrir fram upp eitthvað í þessum löndum. Það verður áhugavert að fylgjast með hvað gerist í Afganistan á næstunni en við skulum ekki fullyrða neitt um það fyrir fram hvernig þetta verður.“

Bent hefur verið á að Ísland sem NATO-þjóð beri ábyrgð á ástandinu í Afganistan og segir Bjarni að Íslendingar beri mjög mikla ábyrgð. „Ég tel einmitt að ábyrgð okkar liggi gagnvart því fólki sem hefur verið fengið til að starfa fyrir innrásarliðið þarna; við berum gríðarlega ábyrgð við að reyna að bjarga því fólki vegna þess að neyðin getur orðið mjög mikil. Mér finnst þó aðallega að við eigum í grunninn að opna land okkar fyrir fólki sem vill flytja hingað og ekki tala um það sem eitthvað sérstakt náðarbrauð rétt af okkur heldur hagnaður fyrir Ísland ef einhverjir vilja flytja hingað hvort sem það er fólk frá Afganistan eða öðrum löndum því hér erum við allt of fá og ég er algjörlega andvígur því hvernig í rauninni heimurinn er gerður að fangelsi fyrir stóran hluta jarðarbúa. Okkur ber í rauninni skylda til að taka við því fólki sem hingað vill koma nema það komi í illum tilgangi; afbrotamenn eða dópsalar.“

Talað hefur verið um að allt að 120 Afganir muni fá að koma til landsins og segir Bjarni að það væri Íslendingum algjörlega að meinalaus að hafa þann fjölda 10 sinnum meiri.

- Auglýsing -

„Ég held að það sé svo langt í frá að við þurfum að hafa áhyggjur af því að of margir komi. Ísland er við nyrsta haf og er fámennt land. Stóri straumurinn sækir í að fara í þessi stóru samfélög, inn í Bandaríkin og að einhverju leyti inn í Evrópu. Við eigum að geta haft þetta land miklu opnara fyrir almennu, aðfluttu fólki. Við sjáum það að Ísland er í rauninni í dag galopið fyrir fólki sem býr innan Evrópusambandsins og það er ekki svo eins og hingað á norðurhjarann liggi straumur milljóna og hann myndi heldur ekki gera það þótt við galopnuðum landið fyrir öllum heiminum sem ég held að væri gott vegna þess að lönd eiga ekki að vera lokuð. Ekki fyrir fólki. Það er í lagi að loka löndum fyrir lögum og reglugerðarfári en jörðin er bara ein og mennirnir eiga að mynda með vissum hætti ákveðið bræðraleg. Við erum bara ein tegund.“

 

Bjarni Harðarson

Mildara og heilbrigðara rit

Sumir óttast áhrif og ítök múslíma á Vesturlöndum og benda til að mynda á Svíþjóð sem dæmi um land þar sem aðlögun þeirra hefur mistekist. Hvað segir Bjarni um skoðanir þess fólks?

„Ég held að hugmyndir annarra um múslíma séu oft og tíðum ansi öfgakenndar og einkennast af fordómum. Það eru vissulega miklar ógöngur í heimi harðlínumanna í heimi múslíma sem hafa birst okkur í öfgafullum stjórnvöldum eins og Talibönum. En múslímar almennt eru ekki ógn þó svo við myndum opna landið. Það tel ég alveg af og frá. Við eigum ekki að vera hrædd við trúfrelsi eða hrædd við að menn trúi á eitthvað sem þeir skilja ekki. Þetta er bara barnaskapur.

Ég hef á ferðalögum mínum svo sem til Gambíu, Máritaníu, Senegal og svo náttúrlega Pakistan alltaf eignast vini á meðal múslíma og það sem stendur upp úr af kynnum mínum af múslímskum sveitamönnum er það hvað þeir eru í hugsunarhætti, háttum og gestrisni nauðalíkir íslenskum sveitamönnum. Það er styttra á milli okkar og múslímanna heldur en flestra annarra Evrópumanna vegna þess að við erum frá fornu fari rollumenn eins og þeir. Það að vera rollumenn bindur okkur og syni spámannsins svolítið saman.“

Bjarni hefur gegnt ýmsum störfum í gegnum árin en hann hefur lengi verið bóksali en áður var hann til dæmis bókaútgefandi og svo sat hann á Alþingi um árabil.

„Ég er alveg trúlaus en ég hallast nú helst að því samt og hef lært það af múslímum að líklega eru það forlögin sem stjórna manni og þau hafa leitt mig í það að ég var nú lengi blaðaútgefandi og svo varð ég allt í einu án þess að hafa nokkurn tímann tekið ákvörðun um það orðinn bókaútgefandi og bóksali. Og þetta er óskaplega skemmtilegt. Bókaheimurinn er skemmtilegur þó að hann eigi svolítið undir högg að sækja en það er ofsögum sagt að bókin sé að deyja.“

Bjarni er spurður hvað bókin sé í huga hans. „Bækur eru svo margt. Þessi breiða menning í allri heimssögunni felst í bókum og við náum ekki dýpt í menningarlegu tilliti nema að bækur komi þar við sögu.“

Hann er spurður hvort hann eigi uppáhaldsbók. „Nei. Þó er ein bók sem hefur ansi lengi fylgt mér og ég vona að hún geri það alla tíð og það er biblía okkar Sunnlendinga; Brennu-Njáls saga.“

Bjarni er svo spurður hvort hann hafi lesið Kóraninn. „Já, ég held ég megi segja að ég hafi lesið allan Kóraninn þó það hafi gerst í mörgum smábútum; ég hef aldrei lesið hann heilt í gegn ekki frekar en Biblíuna. Kóraninn er miklu mildara og heilbrigðara rit heldur en Biblían.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -