• Orðrómur

Björn er eini fjöldamorðingi Íslandssögunnar – Börn meðal fjölda fórnarlamba

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Björn Pétursson er eini fjöldamorðingi Íslandssögunnar svo vitað sér um. Hann var betur þekktur undir nafninum Axlar-Björn, kenndur við bæinn Öxl í grennd við Búðir á Snæfellsnesi. Grimmd hans var með ólíkindum. Heimildum ber ekki saman um fjölda fórnarlamba en þau eru ýmist talin níu eða átján. Sumir töldu að þau hefðu jafnvel verið mun fleiri en það.

Jón Árnason skrifaði ítarlegan þátt um Axlar-Björn eftir frásögn séra Sveins Níelssonar.

Blóðþorsti á meðgöngu

- Auglýsing -

Axlar-Björn fæddist í kringum 1555, yngstur þriggja systkina. Sagt var að móðir hans hefði haft óslökkvandi löngun í mannablóð á meðgöngunni. Þegar hún gat ekki falið þessa löngun lengur sagði hún Pétri manni sínum frá. Hann lét allt eftir konu sinni og dró blóð úr fæti til að slá á þorsta hennar.

Björn þótti snemma dulur og harðlyndur og framdi hann ungur sitt fyrsta morð, 14 ára að aldri. Hann beitti exi við að myrða fjósamann að Knerri, þar sem hann var í vist, og dysjaði í flór. Þar kynntist hann fósturbróður sínum, Guðmundi Ormssyni, synir Orms ríka, valdamesta manns sveitarinnar. Urðu þeir miklir vinir. Á Knerri kynntist hann einnig vinnukonu sem hann síðar kvæntist. Heimildir eru ekki samhljóða en talið er að hún hafi heitið Steinunn eða Þórdís.

Orðrómur berst út

- Auglýsing -

Björn byggði bú að Öxl ásamt konu sinni í boði Guðmundar Ormssonar. Þau lifðu góðu lífi á þeirra tíma mælikvarða en mörgum þótti aftur á móti nokkuð furðurlegt hve marga hesta Björn átti og fór sá grunur af stað ekki væri þeir allir heiðarlega fengnir. Brátt fór af stað pískur manna á meðal að Björn rændi fólk og myrti. Enginn þorði þó að fara lengra með málið þar vegna vinfengis Björns við Guðmund.

Það reyndist rétt því Björn myrti ferðamenn og farandverkamenn sem áttu leið um land hans. Suma mun hann hafa myrt til að ræna, aðra til að fela illvirki sín en menn höfðu það á orði að það væri stórhættulegt að gista á Öxl.  Virðist morðheigð hans bæði hafa stjórnast af blóðþorsta og fégræðgi. Hann losaði sig við lík fórnalamba með því að sökkva þeim í tjörn fyrir neðan túnið á Öxl. Aðrar heimildir segja að mannabein hafi einnig fundist að Öxl, í fjósi og heygarði. Björn mun hafa útskýrt það með að hann hefði fundið látið fólk en ekki nennt að koma líkunum til kirkju. Fáir lögðu trú á þá skýringu.

Lokkaði börnin og myrti

- Auglýsing -

Í þætti Jóns Árnasonar eru hrottalegar lýsingar eins og þegar tveir vinnumenn koma til morðingjans:

„En þegar þeir komu að Öxl og Björn sá, að þeir voru vel útbúnir, og höfðu væna hesta, bauð hann þeim með sér út í fjós. Þar var myrkt, en þó sér annar þeirra glampa á eitthvað í hendinni á Birni“

Að því kom að kona nokkur bláfátæk, ásamt þremur börnum, sínum bað um gistingu að Öxl. Segir sagan að gömul kona hafi setið í baðstofunni ásamt móður og börnum og reynt að vara  þau við með að raula eftirfarandi vísu:

Gisti enginn hjá Gunnbirni
sem klæðin hefur góð.
Ekur hann þeim í Ígultjörn.
Rennur blóð
eftir slóð
og dilla ég þér jóð.

Björn lokkaði aftur á móti til sín börnin, eitt af öðru, og myrti. Móðirinn náði að sleppa úr klóm Björns og segja til hans.

Handtaka og dómur

Björn var tekinn höndum ásamt konu sinni sem Björn hélt staðfastlega fram að hefði aðstoðað hann við morðin með því að bregða um fórnarlömbin snæri eða rota þau með sleggju. Stundum hefði hún líka notað það úrræði að kyrkja þau með hálsklútnum sínum.

Björn og Steinunn/Þórdís voru dæmd til dauða. Mun Björn hafa verið festur niður og útlimir hans brotnir með sleggju. Hann var síðan afhöfðaður, bútaður niður og einstakir líkamspartar stjaksettir, meðal annars höfuð hans. Kynfærunum var hent í fang Steinunnar/Þórdísar sem var látin fylgjast með aftöku bónda síns. Aftöku hennar var frestað þar sem hún var þunguð en annars hefðu dagar hennar endað á sama veg og bónda hennar. Hún var síðar hýdd fyrir glæpi sína.

Ekki var glæpasaga fjölskyldunnar öll, því að sonur Björns, Sveinn „skotti“ landhlaupari, var hengdur fyrir nauðgunartilraun og Gísli „hrókur” sonur Sveins og barnabarn Axlar-Björns, var einnig hengdur og þá fyrir þjófnað.

Mun fjórtándi hver Íslendingur vera komin af ætt Axlar-Björns og geta landsmenn flett upp í Íslendingabók til að sjá hvort þeir eigi rætur að rekja til eina fjöldamorðingja Íslandssögunnar.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -