Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Björn Ingi Hrafnsson: „Áslaug Arna getur ekki staðið fyrir stjórnarandstöðu í eigin ríkisstjórn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það er eiginlega grátbroslegt að fylgjast með forkólfum ferðaþjónustunnar lýsa áhyggjum sínum af því að það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir Ísland að komast á rauðan lista yfir nýgengi COVID-smita,“ ritar Björn Ingi Hrafnsson í pistli vef sínum, viljinn.is og bætir við:

„Þau hefðu betur átt að hlýða á varnaðarorð Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis sem einmitt benti á áhættuna sem fylgdi því að hætta að skima alla á landamærunum.

Við Íslendingar gerum sömu mistökin aftur og aftur og samt eru sumir enn þá undrandi á að afleiðingarnar verði þær sömu. Þetta gerðist líka í fyrra. Þá var slakað á landamærunum og veirusmit bárust inn með þeim afleiðingum að herða varð allar aðgerðir innanlands og marga mánuði tók að ná þeirri bylgju niður. Samt höfðu hagfræðingar á borð við Gylfa Zoëga verið búnir að vara eindregið við því, eins og fram kom í bók minni Vörn gegn veiru á síðasta ári.

„Hagkerfið mun ná sér á strik þótt ekki komi fjöldi ferðamanna, svo fremi sem annar faraldur kemur ekki í haust,“ sagði hann þar og bætti við að góður árangur í sóttvörnum í vor hafi skapað almannagæði sem bæti lífskjör og örvi hagvöxt. Gylfi sagðist vilja benda sóttvarnalækni á að þar sem okkur Íslendingum hefði tekist jafn vel upp gegn veirunni í fyrra vor, væru komin upp eins konar samfélagsleg gæði að geta búið hér í landinu og lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi þótt í heiminum geisi farsótt.“

Björn nefnir að Gylfi hafi „aukinheldur bent á, að sóttvarnalæknis sé að hugsa um sóttvarnir og hagfræðinganna og stjórnmálamannanna sé að hugsa um efnahagshlið málsins. „Ef þú ert að plana næsta vetur, þá skiptir máli að reyna að varðveita þessi samfélagslegu gæði sem við höfum hérna. … Og hafa þessa samræðu, þannig að þið séuð ekki að hugsa um efnahagsþættina. Þið hugsið um sóttvarnir og látið okkur um hitt. Og svo vinnum við saman. Að þið séuð ekki að taka sénsa af því að þið haldið að allt efnahagslífið sé að fara á hliðina,“ bætti hann við.“

Björn Ingi segir að í „máli Gylfa kom jafnframt fram, að hann hefur miklar áhyggjur af því að veiran blossi aftur upp við opnun landsins og það geti orðið algjört reiðarslag fyrir samfélagið. Því sé afar brýnt að vanda vel öll skref sem tekin eru. Það var ekki gert; slakað var á landamærunum og ný smit flæddu inn í landið með þeim afleiðingum að öllu var lokað og mannfagnaðir blásnir af.“

- Auglýsing -

Og svo gerðist það „sama nú í vor. Við lærðum ekki neitt. Smit voru orðin ansi fátíð hér innanlands og vel unnt að einangra hvert þeirra og ná niður með smitrakningu og sóttkví þeirra sem höfðu verið útsettir. En með því að samþykkja að undanskilja bólusetta ferðamenn frá skimun var tekin meðvituð ákvörðun um að hleypa nokkrum nýjum veirusmitum á dag inn í landið og aðeins örfáum dögum síðar erum við á beinni leið á rautt svæði; hertar takmarkanir teknar gildi innanlands og ný smitbylgja skollin á sem langan tíma gæti tekið að ná niður.“

Birni Inga lýst ekki vel á ástandið í ríkisstjórn Íslands um þessar mundir:

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir „dómsmálaráðherra brýtur blað með því að lýsa sig andsnúna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að herða aðgerðir á landamærunum. Hér áður fyrr hefði afsögn fylgt slíkri yfirlýsingu, enda geta einstakir ráðherrar ekki staðið fyrir stjórnarandstöðu í eigin ríkisstjórn. Ef stjórnarandstaðan væri ekki jafn sundurlaus og ótrúverðug sem valkostur andspænis stjórnarmeirihlutanum og raun ber vitni, væri ríkisstjórnin nú í harðri varnarbaráttu og jafnvel talað um ráðherraábyrgð.“

- Auglýsing -

Hann heldur áfram:

„Framkvæmdastjóri ferðaþjónustunnar spurði í hvaða sirkus hann væri eiginlega staddur þegar ákveðið var að herða aðgerðir og fara fram á neikvæð PCR-próf. Stuttu síðar hafði hann hvatt stjórnvöld til að „standa í lappirnar“ gagnvart sóttvarnalækni og ganga ekki á bak orða sinna gagnvart ferðaþjónustunni.

Þetta fólk kemur nú fram og lýsir af því áhyggjum að Ísland geti orðið rautt land!

Ísland er að verða rautt land og ný bylgja komin á fleygiferð af því að við gleymdum okkur í eigin velgengni og opnuðum fyrir landamærin sem allir vissu að leka meðan heimsfaraldur geisar. Þessu varaði sóttvarnalæknir við, en á hann var ekki hlustað. Því fór sem fór.

Og nú er kvartað því að það vanti plan til framtíðar. Það er ekki rétt. Farsóttin geisar um heiminn sem aldrei fyrr og nú er talið að hún geti gert það næstu 2-3 árin með nýjum afbrigðum. Bólusetning gegn smitum veldur vonbrigðum, enda þótt hún virðist verja fólk fyrir alvarlegum veikindum.“

Björn Ingi er á því að „á meðan sú er staðan getur plan stjórnvalda varla falist í öðru en gera það sem hefur sýnt sig að virkar. Skima alla sem koma til landsins, bólusetta sem óbólusetta, og krefjast neikvæðs PCR-prófs sömuleiðis. Þannig getum við gripið smit á landamærunum og gert viðeigandi ráðstafanir, en lifað góðu lífi innanlands og án flestra samkomutakmarkana.“

Hann nefnir að „hinn möguleikinn er að hafa áfram opið, en þá er alveg óhjákvæmilegt að nokkur smit berist hingað daglega og næstu vikur og mánuðir muni einkennast af mishörðum sóttvarnaaðgerðum. Skólarnir byrja innan skamms og það er nægt fóður fyrir útbreiðslu Delta-afbrigðisins. Hvað þá þeirra afbrigða sem á eftir munu fylgja,“ og að

það er „aðkallandi að nú þegar verði upplýst hvað varð til þess að skimunum var hætt fyrsta júlí. Skaðinn sem af því hefur hlotist er þegar orðinn gríðarlegur. Við eigum að nýta okkur það að vera einangruð eyja og skima alla sem hingað koma. Þannig verjum við innlenda hagsmuni, líf og heilsu fólks og getum haft það betra en flestar aðrar þjóðir.“

Að lokum segir Björn Ingi að ekkert okkar hafi beðið „um þessa veiru. Við erum öll orðin hundleið á henni og því að mega ekki gera allt eftir okkar eigin höfði. En meðan hún geisar um heiminn ber okkur skylda til að hugsa um hagsmuni heildarinnar og lágmarka tjónið. Það segir sig sjálft.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -