Sunnudagur 4. desember, 2022
1.8 C
Reykjavik

Blóðugt morð á Hverfisgötu: „En þú ungi maður, hefur þú kjark til að drepa mig?“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -
Þann 1. apríl árið 1979 var 56 ára karlmaður myrtur á heimili sínu að Hverfisgötu 34. Sá látni hét Svavar Sigurðsson. Hann hafði verið stunginn til bana með eldhúshníf.

Lögreglunni var gert viðvart nokkrum klukkustundum eftir morðið, en það var morðinginn sem sjálfur gaf sig fram. Hann hét Þráinn Hleinar Kristjánsson og var 36 ára gamall. Þráinn var einnig búsettur í íbúð í húsinu að Hverfisgötu 34.

Svavar heitinn hafði hlotið stungusár á kvið, síðu og hálsi, en skurðirnir voru bæði langir og djúpir. Talið var að Svavar hefði látist fljótlega eftir að hafa verið veittir áverkarnir. Eins og áður sagði hafði Svavar verið látinn í nokkrar klukkustundir þegar lögregla var kölluð til. Það þótti strax rannsóknarefni hvers vegna hvorki Þráinn né sambýliskona Svavars, Lóa Fanney Valdimarsdóttir, höfðu haft samband við lögregluna fyrr.

Mikil ölvun og ásaknir um framhjáhald

Aðdragandi voðaverksins sem dró Svavar heitinn til dauða var sá að Svavar og Lóa, sambýliskona hans höfðu verið úti að skemmta sér kvöldið fyrir hinn vofeiflega atburð. Það hafði Þráinn Hleinar Kristjánsson einnig gert, ásamt Margréti vinkonu sinni. Svavar og Lóa höfðu verið á Hótel Esju, en Þráinn og Margrét á Hótel Borg. Fólkið hafði allt haft áfengi um hönd þetta kvöld.

Svavar og Lóa höfðu komið heim stuttu á eftir Þráni og Margréti. Íbúðirnar tvær voru á sömu hæð og sameiginlegt salerni var á hæðinni. Eftir að Svavar og Lóa komu heim fékk Svavar sér í glas, en Lóa fór fram á snyrtinguna. Þegar hún kom fram mætti hún Þráni og þau tóku tal saman. Svavar kom þá fram og sakaði þau Lóu og Þráin um að hafa átt stefnumót á snyrtingunni. Einhver orðaskipti urðu í framhaldinu, en að lokum hélt Lóa inn í íbúð þeirra Svavars og fór að sofa. Svavar fór á eftir henni skömmu síðar og sofnaði. Þráinn og Margrét vöktu hinsvegar áfram og sváfu ekkert alla nóttina.

Um morguninn hittust þeir Þráinn og Svavar á snyrtingunni. Svavar spurði Þráin hvort hann ætti eitthvað að drekka og Þráinn jánkaði því. Hinn síðarnefndi sótti vermóðsflösku og kom með hana yfir í íbúð Svavars og Lóu. Þar drukku mennirnir tveir saman og kláruðu úr flöskunni. Lóa vaknaði og slóst í hópinn. Þráinn sótti aðra vermóðsflösku og voru þau öll orðin talsvert ölvuð.

- Auglýsing -

„Hefur þú kjark til að drepa mig?“

Eftir einhvern tíma upphófst mikið rifrildi og Svavar tók aftur að ásaka Lóu um framhjáhald. Lóa brást hin reiðasta við og hreytti í Svavar að hún óskaði þess að hún gæti drepið hann. Svavar ýtti þá til hennar eldhúshníf sem lá á borðinu og sagði: „Gerðu það þá.“ Þá sagði Lóa að það gæti hún aldrei gert. Að svo búnu fór Lóa yfir í hina íbúðina.

Þá á Svavar að hafa beint orðum sínum að Þráni og sagt: „En þú ungi maður, hefur þú kjark til að drepa mig?“ Að sögn Þráins hafði Svavar horft á hann afar einkennilegu augnarráði.

- Auglýsing -

Samkvæmt Þráni hafði hann í kjölfarið varla vitað af sér fyrr en hann stóð með hnífinn í hönd fyrir framan Svavar í eldhúsinu. Hann lét hnífinn ganga inn í kvið Svavars og risti hann neðan frá og upp. Við það féll Svavar í gólfið og þar sem hann lá í blóði sínu hélt hann áfram að egna Þráin áfram og sagði: „Þetta er búið, gakktu alveg frá mér.“ Við þau orð Svavars kraup Þráinn niður við hlið hans og skar hann á háls.

Samkvæmt frásögn Þráins hafði hann á þessu augnabliki áttað sig almennilega á því sem gerst hafði. Það sem hann gerði fyrst var að þvo sér um hendurnar, en að því loknu gekk hann yfir í sína eigin íbúð þar sem Lóa og Margrét sátu saman. Hann sagði þeim frá því sem hann hafði gert og þær fóru samstundis með honum yfir í íbúð Svavars og Lóu, þar sem þær sáu líkið á eldhúsgólfinu.

Enginn trúði Þráni

Þráinn og Lóa fóru að ræða hvað hægt væri að gera í stöðunni og fyrst um sinn voru þau sammála um að vilja leyna því sem gerst hafði og reyna með einhverjum hætti að losa sig við líkið. Fyrst kom til tals að reyna að flytja lík Svavars í bíl Þráins og koma því þannig undan. Það var hinsvegar Margrét sem stöðvaði þessar vangaveltur og kom því skýrt á framfæri að best væri að segja satt og gefa sig fram. Eftir nokkrar umræður höfðu þau öll sammælst um að Margrét hefði rétt fyrir sér og ekki kæmi til greina að leyna morðinu.

Þar sem sími var í hvorgri íbúðinni brá Þráinn á það ráð að fara yfir í næsta hús, þar sem hann þekkti húsráðanda og fá að hringja. Þráinn þurfti að hringja í þrjá aðila áður en nokkur trúði honum þegar hann lýsti því sem gerst hafði. Hann hringdi í móðurbróður sinn, móður sína og yfirmann sinn. Öll héldu þau að um drykkjuóra væri að ræða, en Þráinn hafði áður átt það til að hafa samband ölvaður og röfla eitthvað samhengislaust rugl. Á endanum hringdi Þráinn á leigubíl sem hann lét aka sér heim til móður sinnar. Sú heimsókn stóð stutt og systir hans keyrði hann heim skömmu síðar. Þegar heim var komið biðu þær Lóa og Margrét hans enn. Hann hélt enn á ný yfir í næsta hús og hringdi í sömu menn og hann hafði áður haft samband við. Enn lýsti hann því sem hann hafði gert og í þetta sinn ákvað yfirmaður hans að bregðast við og gera lögreglu viðvart.

Lögregla mætti strax að Hverfisgötu 34 og hitti þar fyrir Þráin, sem kom til dyra, Lóu og Margréti. Þeim var hleypt inn í íbúðina þar sem vettvangur glæpsins blasti við þeim og Svavar heitinn lá í blóði sínu, látinn. Þráinn játaði strax á sig glæpinn.

Haldinn mikilli minnimáttarkennd

Eftir játningu Þráins var talin rík ástæða til að láta hann sæta geðmati. Þar kom fram að hann væri ekki „haldinn geðveiki“, en að hann væri með persónuleikatruflun, kominn vel yfir byrjunarstig ofdrykkju og glímdi við bæði taugaveiklun og kvíða. Persónuleikatruflun Þráins var talin stafa af rótleysi í bernsku, en hann átti alla tíð erfitt með nám og var bugaður af minnimáttarkennd. Hann var sagður hafa leiðst snemma út í ofneyslu áfengis sem sagt var stafa af öryggisleysi hans í félagslegum samskiptum og minnimáttarkennd gagnvart öðru fólki. Þráinn var sagður hafa mikla þörf fyrir að skara fram úr á vissum sviðum, hann væri framagjarn í eðli sínu og var sagður þrá viðurkenningu annarra. Það hefði ávallt reynst honum erfitt og flókið að mynda djúp tilfinningaleg tengsl við annað fólk, sér í lagi vegna gríðarlegrar minnimáttarkenndar hans. Óhófleg og sífellt vaxandi áfengisneysla var talin bæði orsök og afleiðing aukinnar taugaveiklunar Þráins.

„Viðbrögð Þráins hinn 1. apríl síðastliðinn verða að miklu leyti skiljanleg, ef haft er í huga, hversu mikið hann þarf að sýnast, duga og þora að gera hluti, til þess að bæla niður minnimáttarkennd sína. Dómgreind hans var ennfremur skert af svefnleysi og drykkju. Setning sú, sem samkvæmt málskjölum virðist hafa orðið kveikjan að viðbrögðum hans, fól í sér ásökun um ódugnað og heigulshátt. Innihald ræðunnar var áskorun, hann varð að sýnast og geta. Ætla má að viðbrögð hans hefðu orðið önnur ef skipun eða beiðni hefði falist í innihaldi ræðunnar,“ segir meðal annars í niðurstöðu geðrannsóknarinnar á Þráni.

Svo fór að Þráinn Hleinar Kristjánsson var dæmdur sakhæfur og hlaut hann sextán ára fangelsisdóm fyrir morðið á Svavari Sigurðssyni.

 

Baksýnisspegillinn er endurbirtur. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -