• Orðrómur

Bogi sagði ríkisábyrgð fásinnu þegar WOW féll – enn óvissa með eignarhald Play

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þegar WOW var á barmi gjaldþrots sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair í samtali við Vísi að erfitt væri að skilja að þeir sem ættu að leggja til áhættufjármagn til WOW ættu ekki að eignast það að fullu. Þá sagði Bogi að í raun væri miklu ódýrara að stofna bara nýtt flugfélag á grunni þess fallna. 

Bogi sagðist við sama tilefni hafa áhyggjur af viðskiptalíkani WOW air þar sem Ísland væri mjög dýrt land fyrir fyrirtækjarekstur og að Keflavíkurflugvöllur væri einn sá dýrasti í Evrópu. Skúli Mogensen vildi ekki ræða við Mannlíf um ríkisábyrgð til handa Icelandair þegar eftir því var leitað.

Það er aðeins rúmt ár frá þessari sögulegu forsíðu Fréttablaðsins um fall WOW

Tugmilljarða björgunaraðgerð Icelandair í höndum almennings og ríkissjóðs

Nú hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að veita Icelandair ríkisábyrgð á lánalínu sem nemur allt að 16,5 milljörðum íslenskra króna. Sé horft til fréttaflutnings af málinu munu Landsbanki og Íslandsbanki ekki skuldbreyta lánum sínum að fjárhæð um 20 milljarða króna í hlutafé og sama á við um aðra kröfuhafa. Á sama tíma leitast Icelandair við að fá lífeyrissjóði til að leggja áhættufjármagn til rekstursins til að freista þess að bjarga félaginu frá gjaldþroti. Fjármálastjóri Icelandair sagði nýlega að engar viðræður væru við kröfuhafa um skuldbreytingu lána.

Nýlega tilkynnti Icelandair um frestun hlutafjárútboðs fram í september en þá hyggst félagið selja nýja hluti fyrir 20 milljarða króna á genginu 1. Gengi félagsins við lok markaða í dag er 1,10. Komi til umframeftirspurnar í hlutafjárútboðinu getur stærð útboðsins stækkað í 23 milljarða króna.

Sjá nánar: Þjóðin situr uppi með Icelandair. 

- Auglýsing -

Play bíður áttekta

Samkvæmt heimildum Mannlífs fylgjast eigendur og stjórnendur Play flugfélagsins vel með stöðu mála og hversu mikið fjármagn fæst til reksturins. Takist Play að komast á loft stendur það frammi fyrir því að keppa við ríkisstyrkt Covid-flugfélag.

Arnar Már Magnússon, hefur lýst því yfir að forsvarsmenn hins boðaða flugfélags hafi nú aðeins dregið andann vegna Covid-19 og þeir gætu þess vegna beðið fram á vorið með að hefja flug. Aðaleigandi félagsins, Skúli Skúlason, hefur gefið það upp að rekstur Play kosti á bilinu 30-50 milljónir á mánuði og félagið heldur áfram að ráða nýtt starfsfólk þrátt fyrir að hafa enn ekki fengið flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu eða gert leigusamninga um flugvélar.

- Auglýsing -

Hverjir eru bakhjarlar Play?

Enn ríkir talsverð óvissa um hluthafa Play og fjárhagslegan styrk þeirra. Skúli Skúlason fjárfestir kom að rekstri félagsins í lok síðasta árs og er í dag skráður eini hluthafi félagsins. Í viðtölum við Mannlíf hefur hann sagt að með honum séu þekktir og óþekktir fjárfestar. Skúli hefur varist allra frekari frétta um hluthafa félagsins.

|
|Vignir Örn Guðnason

„Þessi hópur sem stendur að félaginu í dag hefur alveg burði til að keyra þetta áfram, hvort sem aðrir bætast svo við í hópinn eða ekki. Það eru bæði þekkt nöfn og óþekkt en ég verð að fá að halda smávegis dulúð yfir þessu,“ sagði Skúli í samtali við Mannlíf.

Líkt og Mannlíf hefur áður greint frá hafa fjárfestingafélögin Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar og Stoðir sýnt áhuga á að koma að fjármögnun félagsins en samkvæmt heimildum Mannlífs hafa umræddir aðilar enn sem komið er ekki lagt fjármuni til rekstursins. Umræddir aðilar hafa ekki gefið neinar skuldbindingar um fjárhagslegan stuðning við félagið samkvæmt sömu heimildum.

Í samtali við Mannlíf í byrjun sumars vildi Júlíus Þorfinnson, framkvæmdastjóri Stoða, hvorki staðfesta né hafna því að viðræður við Play flugfélagið hafi átt sér stað um innkomu fjárfestingafélagsins á næstunni. Hið sama var uppi á teningnum þegar Mannlíf sló á þráðinn til hans í dag. „Við gefum okkur út fyrir að fylgjast með því sem er að gerast í íslensku viðskiptalífi. Við erum opnir fyrir öllu því sem er í gangi og svo komast menn að einhverri niðurstöðu á ákveðnum tímapunkti. Við tjáum okkur ekki fyrr en um orðna hluti,“ segir Júlíus.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -