„Ég vaknaði að ganga fimm um morguninn og hélt ég væri að pissa á mig.,“ sagði Berglind í samtali við Fréttablaðið, en hún varð aldrei óttaslegin í hamagangnum heima fyrir. 

Fjölskyldan heimkomin með tvö yngstu börnin; Henrik og Ólavíu Rós, í fanginu og stoltir stóru bræðurnir Matthías og Bjarni.

„Ég veit það ekki, þetta eru svo margar tilfinningar. En þegar þetta gerist svona hratt eins og í mínu tilfelli þá hristist hreinlega allur líkaminn. Þetta er náttúrlega rosa „power“ á stuttum tíma. Ég átti alveg von á að hafa neyðarlínuna í beinni á meðan á þessu stæði en svo var ekki.“

Drengirnir þrír sváfu í sínum herbergjum um nóttina en Bjarni, sá elsti, vaknaði rétt áður en litla systir kom í heiminn og varð vitni að hinum stóra viðburði.

„Ég næ nú kannski ekki að vera alveg hljóðlát í þessum miklu verkjum og á meðan ég er að hringja um allt, svo hann vaknar við lætin. Ég var í miðri hríð þegar ég var að reyna að koma heimilisfanginu til skila og reyndi að segja það eins skýrt og ég gat. Næst þegar ég leit á símann var bara búið að skella á svo ég vissi ekkert hvort það hefði tekist. Mér varð þá litið í spegil við hlið mér og sá þá hausinn kominn út og áttaði mig á því að við næstu hríð þyrfti ég að grípa hana.“