Fimmtudagur 18. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Bragi eini morðingi Íslands sem sjálfur var myrtur – Bæði morðin framin í sömu íbúð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í íslenskri sakamálasögu hafði það aldrei gerst, svo vitað sé, að sami einstaklingur væri jafnt gerandi og þolandi í tveimur morðmálum. Það gerðist þó í tilfelli Braga Ólafssonar sem varð konu að bana árið 1988 en féll sjálfur fyrir hendi morðingja árið 2002.

Lá ísköld á gólfinu

Að kvöldi sunnudagsins 10. janúar árið 1988 hringdi Bragi, þá 52 ára gamall, í lögregluna frá heimili sínu að Klapparstíg 11 í Reykjavík. Tilkynnti hann að eiginkona sín, hin 27 ára Gréta Birgisdóttir, lægi ísköld á gólfinu og hefði að öllum líkindum hengt sig. Lögreglan mætti á staðinn þar sem Bragir reyndist ofurölvi en Gréta látin. Dagana á undan höfðu þau Gréta og Bragi neytt mikils magns áfengis og hafði Bragi dáið áfengisdauða um morguninn. Kvaðst hann hafa vaknað sex til sjö klukkutímum seinna og séð konu sína hanga í kaðalspottum í svefnherberginu. Sagði hann lögreglu hafa leyst hana úr köðlunum, lagt á gólfið og sett yfir hana sæng. Í ljós kom að Bragi hafði neytt heillar flösku af sterku áfengi eftir að hann „uppgötvaði” lát Grétu og þar til hann hringdi á lögreglu. Liðu tæpir tveir klukkutímar þar í milli.

„Með hamagang, stór og sterk“

Töluverðir áverkar voru á Grétu, meðal annars á hálsi og höfði. Sparkað hafði verið í andlit og höfuð Grétu og köðlum hafði verið vafið um háls hennar og þrengt að svo að skjaldbrjóskið hafði brotnað. Dánarorsök var köfnun.

Áverkarnir voru þess eðlis að lögregla áleit strax að um dauða af völdum ofbeldisverknaðar væri að ræða og var Bragi í kjölfarið handtekinn og færður í gæsluvarðhald. Hann gaf afar óljósa frásögn af atburðum kvöldsins við yfirheyrslur, kvaðst Grétu hafa valdið sér áverkunum sjálf. Hún hefði marghótað því að fyrirfara sér dagana fyrir andlátið. Sjálfur kvaðst hann enga sök eiga og hélt sig lengi við þá sögu. Að því kom þó síðar í mánuðinum að Bragi viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa orðið valdur að dauða Grétu með því að sparka í höfuð hennar og kæfa hana með böndum úr dyrahengi. Hann vildi þó meina að um sjálfsvörn hefði verið að ræða, Gréta hefði „margoft ráðist að honum með áhöldum, haft uppi hamagang og verið stór og sterk”.

- Auglýsing -

„Elskaði Grétu“

Tók hann ítrekað fram að hann hefði alltaf elskað Grétu en þau höfðu verið saman frá því hún var aðeins sautján ára en Bragi 42 ára. Mikil neysla einkenndi alla þeirra sambúð.

Aldrei mun þó verða fullvitað hvað gerðist þessa örlagaríku nótt þar sem eina vitnið var banaðmaðurinn sem reyndist margsaga auk þess þess sem minni hans var gloppótt eftir mikla áfengisneyslu.

- Auglýsing -

Bragi var dæmdur í 10 ára fangelsi sem síðar var lækkað um tvö ár í Hæstarétti.

Skelfileg aðkoma

Fjórtán árum síðar var Bragi búinn að sitja af sér dóm sinn og bjó enn í íbúðinni við Klapparstíg 11. Hinni sömu og hann banaði Grétu í. Að kvöldi 26. september 2002 kölluðu nágrannar til lögreglu og sjúkraflutningafólks eftir að mikil læti  höfðu borist úr íbúð Braga. Aðkoman mun hafa verið skelfileg og íbúðin undirlögð blóði. Ljóst var að mikil átök höfðu átt sér stað. Lá Bragi illa særður og með litla meðvitund. Hann hafði verið stunginn víða, meðal annars í handlegg og kvið og náðu stungusár inn að hjarta. Bragi gat sagt lögreglunni hvað gerst hafði og nefndi banamann sinn en lést á leið á sjúkrahús.

Áhyggjur af andlegu ástandi

Lögreglan handtók hinn 36 ára gamla Stein Ármann Stefánsson það sama kvöld. Steinn Ármann hafði áður komið við sögu hjá lögreglu og var hann talinn veikur á geði. Fjölskylda Steins hafði þá þegar lýst yfir áhyggjum sínum af andlegu ástandi Steins, en hún taldi víst að hann gæti reynst hættulegur og framið eitthvert voðaverk. Steinn Ármann hafði flúið af vettvangi og lögregla hóf leit að honum og eggvopni sem notað var til verksins. Ekki leið á löngu þar til hann fannst í austurbæ Reykjavíku. Hann var handtekinn og síðar ákærður fyrir morðið á Braga.

Steinn neitaði til að byrja með að hafa verið valdur að dauða Braga, en viðurkenndi það þó fljótlega. Vafi lék á um sakhæfi hans, en geðlæknar voru ekki sammála um ástand Steins að kvöldi morðsins.

„Þessi maður er mjög veikur“

Hann var talinn hafa verið á sterkum lyfjum er hann framdi verknaðinn og hafi verið haldinn ranghugmyndum.

Steinn átti að baki langan sakaferil og hafði verið talinn á „gráu svæði” í heilbrigðis- og réttarkerfinu í rúman áratug. Hann hafði oft komið við sögu lögreglu áður og voru tvær líkamsárásarkærur sameinaðar morðákærunni. Áður hafði hann til dæmis hlotið sjö ára dóm fyrir kókaíninnflutning. „Þessi maður er mjög veikur,” sagði Þorsteinn A. Jónsson, forstöðumaður Fangelsismálastofnunar, síðar í viðtal við DV, aðspurður um hvort eðlilegt hefði verið að sleppa honum út á reynslulausn ekki löngu fyrir morðið á Braga. Hafði Steinn Ármann þá verið sendur stofnana á milli án þess að úrræði fyndust fyrir hann.

Málið var lengi í rannsókn og deildu geðlæknar um sakhæfi Steins Ármanns. Töldu sumir að hann hefði verið í nánast samfelldu geðrofsástandi frá 21 árs aldri sem orsakaðist af geðsjúkdómum og mikilli fíkniefnaneyslu. Svo fór að Steinn var metinn ósakhæfur, bæði í héraði og Hæstarétti, og vistaður á réttargæsludeildinni að Sogni.

Steinn Ármann lést árið 2013.

 

Baksýnisspegillinn er endurbirtur. Höfundur: Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -