Miðvikudagur 29. júní, 2022
14.8 C
Reykjavik

Brexit skilur sendiherra eftir í lausu lofti

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Síðustu vikur og mánuðir hafa verið snúnir hjá sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi. Lengi vel stóð til að hann myndi yfirgefa Ísland á sama tíma og Bretland yfirgæfi ESB en ítrekaðar frestanir á Brexit hafa framlengt dvöl hans á Íslandi. Í millitíðinni hefur hann svo fengið þýskan ríkisborgararétt sem gæti orðið til þess að hann verði áfram á Íslandi.

Michael Mann hefur gegnt stöðu sendiherra ESB á Íslandi frá því í september 2017. Hann er Breti og þegar hann var skipaður lá ljóst fyrir að Bretland myndi yfirgefa Evrópusambandið. Alþjóðasamningar kveða á um að sendiherra skuli vera ríkisborgari þess ríkis eða ríkjasambands er hann rekur erindi fyrir og þegar Mann var sendur til Íslands lá fyrir að hann myndi þess vegna snúa til baka um leið og Bretland gengi úr sambandinu. Það átti að gerast 29. mars síðastliðinn en hér dvelur Mann enn. Fjölskylda hans er hins vegar farin úr landi.

„Með Brexit hangandi yfir höfðinu á okkur ákváðum við loks að skipuleggja okkur og við keyptum íbúð í Brussel þar sem konan mín fékk starf. Við ákváðum að hún færi þangað með börnin þar sem hún byrjar að starfa í júlí og ég yrði áfram hérna. Við ferðumst því á milli. Þetta er ekki ákjósanlegt, sérstaklega þar sem hún tók öll húsgögnin með sér en ég fæ í staðinn að upplifa norræna alvörunaumhyggju. Ég læt mér það nægja enda með hógværan smekk,“ segir Mann í léttum dúr. „Ég er mjög andvígur Brexit þannig að hvað mig varðar eru allar tafir góðar. Ég fæ að vera á Íslandi allavega í nokkra mánuði til viðbótar.“

Örlagadagurinn 29. mars

Staðan í Brexit er æði flókin og í raun útilokað að segja til um hvenær af útgöngunni verður. Fer það eftir því hvernig Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, gengur að koma útgöngusamningi í gegnum þingið. Það gæti orðið í byrjun júní ef Bretar taka ekki þátt í Evrópuþingskosningunum en einnig er miðað við 31. október. Alla jafna hefði það þýtt að Mann færi aftur til Brussel samhliða Brexit. En 29. mars var ekki bara dagurinn sem Bretland hefði átt að ganga úr ESB, því þann sama dag fékk Mann að vita að hann væri kominn með þýskan ríkisborgararétt.

„Ég er svo vel settur í sveit að ég er giftur þýskri konu og fyrir einu og hálfu ári síðan sótti ég um þýskan ríkisborgararétt og bréfið barst mér þann 29. sem er pínulítið fyndið,“ segir Mann og viðurkennir að Brexit eigi þátt í þeirri ákvörðun að hann sótti um þýskan ríkisborgararétt. „Ég væri að ljúga ef ég segði að svo væri ekki en það kemur vissulega fleira til. Ég er giftur þýskri konu og börnin mín eru þýsk. Að mörgu leyti upplifi ég mig sem Þjóðverja því ég lærði þýsku og bjó þar í tvö ár. Það er því ekki alveg úr lausu lofti gripið hjá mér. Ég hef heldur ekki kosið í Bretlandi í yfir 20 ár því þegar þú hefur búið erlendis í ákveðið langan tíma þá missirðu kosningaréttinn. En nú fæ ég að kjósa aftur sem er ánægjulegt, reyndar í Þýskalandi,“ segir Mann sem verður því með tvöfalt ríkisfang, bæði breskt og þýskt.

Orðinn grúppía hjá Mammút

- Auglýsing -

Fyrir Mann gæti þýski ríkisborgararétturinn skipt miklu því hann getur haldið áfram að starfa fyrir utanríkisþjónustu ESB og þar með setið út skipunartíma sinn á Íslandi sem er til 2021. Mann vonar svo sannarlega að það verði raunin þar sem hann kann ljómandi vel við sig á Íslandi. „Bæði finnst mér eins og að starfi mínu hér sé ólokið og eins hentar lífsstíllinn hérna mér mjög vel. Fólkið er virkilega almennilegt, hvort sem það er fylgjandi eða andvígt aðild að Evrópusambandinu. Ég er laus við allt stressið sem kollegar mínir í höfuðstöðvunum þurfa að glíma við.“

Mann hefur ferðast víða um Ísland ásamt konu sinni og tveimur börnum, sjö ára syni og eins árs dóttur. Hann er mikill sundmaður og sækir sundstaði borgarinnar grimmt auk þess sem hann hefur kolfallið fyrir íslenskum tónlistarmönnum. „Konan mín er aðdáandi klassískrar tónlistar en ég er meira í rokkinu og er þegar orðinn grúppía hjá nokkrum íslenskum böndum. Mammút er eitt þeirra, ég hef oft séð þau spila. Ég sótti einnig Músíktilraunir á dögunum og það var hreint ótrúlegt. Þetta eru svo ungir krakkar en með svo mikla hæfileika.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -