Föstudagur 19. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Bróðir Guðmundar var nær dauðvona sprautufíkill í Noregi: „Ekkert minna en kraftaverk að hann lifi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það er eitt ár á milli bræðranna Guðmundar Hrafns og Ragnars Arngrímssona. Þeir ólust upp saman og deildu á tímabili herbergi. En allt breyttist á unglingsaldrinum. Ragnar varð fíkill. Svo mikill fíkill að einn læknirinn sagðist aldrei á ferli sínum séð aðra eins fíkn.

Sviptur sjálfræði

Ragnar var fíkill í 19 ár og var neyslan gríðarleg. Heimilislaus, hálfrænulaus, í geðrofum og andlega og líkamlega ónýtur. Eitt árið var hringt í fjölskylduna frá sjúkrahúsi Noregi en þá hafði Ragnar fundist rænulaus á bekk og var vart hugað líf.

Það var ekki fyrr en Ragnar var sviptur sjálfræði árið 2009 og settur í eins og hálfs árs lokaða afeitrun og meðferð á Kleppi að hann hætti í neyslu. Þá hafði hann fundist nær dauða en lífi í dópgreni. Það sem hjálpaði mikið var að Ragnar sýndi fulla samvinnu frá upphafi.

Guðmundur segist vilja segja sögu sína sem aðstandanda til að vekja öðrum von.

„Ég fann til svo mikillar samkenndar með Kristínu sem sendi nýlega út neyðarkall vegna sonar síns. Við vorum stödd á nákvæmlega sama stað og hún er núna. Hún sýnir gríðarlegt hugrekki og ég dáist að henni.“

- Auglýsing -

Neyðarkall Kristínar má lesa hér.

Í dag er Ragnar edrú, á heimili, og sinnir vinnu. Að fársjúkum sprautufíkli eins og honum hafi tekist það er ekkert minna en kraftaverk. Guðmundur segir kraftaverkin geta gerst sé til staðar vilji, skilningur og samræming hjá stjórnvöldum. Séu réttu úrræðin fyrir hendi megi bjarga mörgum og miklu fyrr.

Beita þarf hörku

- Auglýsing -

Guðmund segir sorgasögu Ragnars hafa hafist þegar hann fór í Reykjanesskóla í Ísafjarðardjúpi sem Guðmundur segir hafa verið notaðan sem geymslustað fyrir vandræðastráka frá Reykjavík. „Það var ekkert alvarlegt að, hann var inn í sig og hafði lent í einhverju smáræðis veseni. Kennari hans taldi nýtt umhverfi geta verið hjálplegt og þar með hófst 19 ára þrautaganga. Í Reykjanesi komst hann í kynni við hass og sjóveikispillur og neyslan hófst.“

„Við fórum margoft allan þennan hefðbundna meðferðarhring“, segir Guðmundur en hann stóð þétt við bakið á litla bróður sínum öll þessi ár. „Vogur, Hlaðgerðarkot, Krýsuvík, geðdeild Landspítala en ekkert hjálpaði. Neysla Ragnars var algjörlega stjórnlaus og álagið á fjölskylduna var gríðarlegt.“

„Það var loks sjálfræðissviptingin sem bjargaði lífi bróður míns. Það er lífsnauðsynlegt að geta gripið til hennar í tilfellum eins og Ragnars.“ Hann er reiður og spyr af hverju hafi ekki verið reynt að bjarga lífi Ragnars miklu fyrr. „Ef björgunarsveitarmenn koma að einstaklingi sem biður þá frá að hverfa, myndu þeir bara fara? Ég held nú ekki.  En ef fíkill vill ekki hjálp er ekkert gert. Um er að ræða fársjúkt fólk sem hreinlega þarf að beita hörku.”

Fíknin skaðar allt og alla

Að sögn Guðmundar er alltof erfitt að svipta fíkla sjálfræði þar sem litið á sjálfræðið sem allt að heilagan rétt fólks.

„Ragnar skaðaði sjálfan sig, fjölskyldu sína og samfélagið. Það einkennir fíkla, sérstaklega þegar neyslan er orðin þetta stjórnlaus. Þú ræðir ekki yfirvegað um lausnir við einhvern sem kannski er í fráhvörfum og hugsar eingöngu um að redda næsta skammti.”

„Það er skylda okkar sem samfélags að grípa inn miklu fyrr og setja ramma og samræma aðgerðir.  Allir þessir meðferðaraðilar vilja vel, ótal góðgerðarfélög gera sitt besta og starfsfólkið er oft á tíðum hreinir englar en það er engin ein samræmd stefna um úrræði. Til dæmis fá fíklar á Hlaðgerðarkoti dagleyfi eftir 10 daga meðferð sem er alveg með ólíkindum. Meðferðarkúltúrinn hér er að útvista sem mestu. Við verðum sem samfélag að vinna í þessum andskota. Endurkomuhlutfallið er skelfilega hátt.“

Höfum misst metnaðinn

„Það er ótrúlegt en Ragnar fór á Klepp, stofnun sem er byggð um miðja síðustu öld þegar landið var þrisvar sinnum færra að fólki og tuttugfalt fátækara. Þetta er enn eina stofnun landsins sem meðhöndlar andlega, líkamlega og sálfræna erfiðleika eins og Ragnar átti við að stríða. Á þessum tíma var í gangi metnaður og forgangsröðun sem við virðumst hafa glatað í dag.“

Guðmundur var oft spurður að því af hverju hann léti Ragnar bara ekki gossa, það þýddi ekki að hjálpa fólki sem ekki vildi láta hjálpa sér. „Maður yfirgefur ekki fjölskylduna sína, ég myndi að minnsta kosti aldrei hætta að rétta út hjálparhönd og toga ef með þarf. Hér er um fólk að ræða, ekki bara fíkla. Þau eru synir og dætur, bræður og systur og jafnvel foreldrar sem flest eiga einhverja áfallasögu að baki. Það er mín reynsla að mikið af þessu fólki sé ákaflega eðlisgreint en persónuleg áföll hafi ýtt þeim út í notkun hugbreytandi efna. Þau byrja oft sem friðþæging þangað til þau verða helvíti sem taka yfir lífið fram að kvalafullum dauðdaga.“

Guðmundur er reiður út í kerfið. „Ég fór margoft með bróður mínum á göngudeild Landsspítalans og sá unga drengi koma, heimilislausa með dót í poka, og grátbiðja um hjálp. Sumir sváfu á biðstofunni þar til öryggisvörður vísaði þeim út. Aðrir komu í fylgd lögreglu, var hent í næsta sófa og enginn skipti sér af þeim. Þetta fór illa í mig og minnti mig á þegar Ragnar var yngri. Ekkert hefur breyst.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -