Föstudagur 25. nóvember, 2022
5.1 C
Reykjavik

Brynja Dan Gunnarsdóttir: „Rasismi á ekki að líðast“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég held að fólk ætti ekki að láta úr úr sér rasísk ummæli af neinum toga. Ég svo sem veit að það verður líklega aldrei þannig því miður en að stór miðill leyfi svona hlutum að fara í birtingu er mér fyrirmunað að skilja og hvað þá að gangast ekki við því, axla ábyrgð og sýna það í verki að það sé ekki í lagi,“ segir Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingkona og einn eigenda Loppunnar, sem hefur gagnrýnt orðræðu Mörtu Maríu Winkel Jónasdóttur, ritstjóra Smartlands, um svart fólk á miðlinum en þar er meðal annars minnst á verslun í Boston sem ku hafa selt „fínasta barnadótið“ og að þar versluðu hvorki svartir né fátækir.

Við saman eigum að vinna í því að uppræta hann og passa orðræðuna.

„Rasismi er eitthvað sem á hvorki að líðast hér eða annars staðar og við saman eigum að vinna í því að uppræta hann og passa orðræðuna. Mér finnst það beinlínis hættulegt að senda svona frá sér og þetta vissulega endurspeglar viðhorf blaðamanns. Ég skil í raun ekki af hverju það eru ekki allir miðlar að fjalla um þennan pistil og þetta málefni.“

Brynja Dan Gunnarsdóttir

Jómfrúarræðan

Brynja settist inn á þing í viku sem varamaður Ásmundar Einars. Hvernig var upplifunin að setjast inn í þingsalinn?

„Það var bara algjörlega frábært og spennandi og gaman að fá að takast á við nýtt verkefni. Þar sem þetta voru bara fimm vinnudagar þá náði ég að flytja jómfrúarræðuna mína og leggja fram fyrirspurn til matvælaráðherra varðandi laxeldi í sjókvíum,“ segir hún og er fyrirspurnin eftirfarandi:

- Auglýsing -

Hyggst ráðherra setja reglur um tilgreiningu á upprunalandi eða upprunastað eldislax sem seldur er á Íslandi? Ef ekki, hver eru þá rökin fyrir því að gera það ekki?

Telur ráðherra stöðu laxeldis á Íslandi ásættanlega með tilliti til heilbrigðis og dýravelferðar? Ef ekki, hvað telur ráðherra að hægt sé að bæta og mun hann beita sér fyrir því?

Telur ráðherra þörf á að bæta reglur um losun lífræns úrgangs eða frárennslisvatns í laxeldi?

- Auglýsing -

Telur ráðherra þörf á því að bregðast frekar við með einhverjum hætti vegna vísbendinga um erfðablöndun milli eldislaxa sem sloppið hafa úr sjókvíum og villltra laxastofna?

Það er alltaf bara draumur að fá að mögulega ná fram einhverjum smábreytingum í átt að betra samfélagi.

Hver er draumurinn varðandi stjórnmálin?

„Það er bara þannig að ég veit ekki enn hvað ég vil verða þegar ég verð stór. En það er alltaf bara draumur að fá að mögulega ná fram einhverjum smábreytingum í átt að betra samfélagi.“

Brynja Dan Gunnarsdóttir

Grænt fyrirtæki

Brynja er einn eigenda Loppunnar sem selur notuð föt.

„Loppan er grænt fyrirtæki sem hefur lagt áherslu á að breyta kauphegðun Íslendinga. Við erum með allt milli himins og jarðar, öll helstu merkin og því kjörið að byrja leitina þar.“

Auðlindir heimsins eru ekki ótakmarkaðar.

Finnst Brynju vera að aukast að fólk horfi í budduna og kaupi notað?

„Já, svo sannarlega. Það er viss vitundarvakning sem hefur átt sér stað og ég finn að til dæmis unga fólkið okkar hugsar öðruvísi en við gerðum og þetta er þeim frekar eðlislægt. Loppan er staðsett í verslunarkjarna og fannst mér vera mikilvægt skref að vera innan um hinar verslanirnar til þess einmitt að gera þetta að „norminu“ – að koma fyrst og leita að því sem vantar hjá okkur og fara svo og skoða nýtt ef við eigum það ekki til. Og ég held að okkur sé að takast það bara vel að koma þessum skilaboðum áleiðis. Auðlindir heimsins eru ekki ótakmarkaðar og það er því af hinu góða fyrir okkur og umhverfið okkar að nýta betur það sem til er.“

 

Göngutúrar í haustveðri

Það urðu breytingar í lífi Brynju fyrr á árinu en þá kom nýr maður inn í líf hennar.

„Ég hef aldrei verið mikið fyrir að tjá mig mikið um einkalífið en get sagt að lífið er bara dásamlegt og allir glaðir.“

Er hún rómantísk?

„Ætli hann verði ekki að svara því en svona í eðli mínu já já, ég á það alveg til en mér finnst oftast bara til dæmis kertaljós, kósí tónlist, samvera og göngutúrar í haustveðri og þessir hversdagslegu hlutir hafa sinn sjarma.“

Ég held að traust og góð samskipti séu lykilatriði.

Hvað þarf að hafa í huga til að viðhalda sambandinu almennt hvort sem það er nýtt eða fólk er búið að vera lengi saman og jafnvel gift?

„Ég held að traust og góð samskipti séu lykilatriði; að geta talað um allt milli himins og jarðar og fá að vera maður sjálfur; stundum grjótharður en stundum bara lítill í sér.“

 

Fjöldi flóttamanna áskorun

Fréttir berast daglega um hörmungarnar í Úkraínu og Rússar eru farnir að flýja til annarra landa. Varaþingkonan er spurð hvernig stríðið snerti hana.

„Það snertir mig svo sannarlega og það líður ekki dagur sem maður spáir ekki í það og hugsar til Úkraínu. Þetta er náttúrlega bara hræðilegt og áhrifin af því svo mikil.“

Það er áskorun að taka á móti svona mörgum flóttamönnum með svo skömmum fyrirvara.

Sífellt fjölgar þeim Úkraínumönnum – aðallega konum og börnum – sem koma hingað til lands. „Við höfum tekið við þeim sem koma hingað með opnum örmum og auðvitað er það okkar og þeirra von að flóttafólk geti farið aftur heim að stríði loknu ef það kýs að gera svo. Það er áskorun að taka á móti svona mörgum flóttamönnum með svo skömmum fyrirvara og á svo skömmum tíma en við höfum reynt að gera það eins vel og hægt er.“

Segja má að ógnin færist nær okkur en í síðustu viku komu í ljós eyðileggingar á nokkrum stöðum í gasleiðslum í Eystraasalti.

„Það er verið er að rannsaka ástæður lekanna og ekki vitað hvað nákvæmlega orsakaði þá en vissulega bendir margt til skemmdarverka. Það er auðvitað áhyggjuefni þegar ráðist er gegn mannvirkjum á alþjóðlegu hafsvæði. Við erum hér með sæstrengi til dæmis og verðum að vernda þá til að halda uppi samskiptum.“

Sendiherra Rússlands hér á landi var nýlega kallaður á fund ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins þar sem honum var tjáð einörð afstaða íslenska ríkisins til innlimunar Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu.

„Við eigum allt okkar undir því að ríki fari eftir alþjóðalögum og því er yfirtaka á landi með vopnavaldi óásættanleg. Það er því eðlilegt að Ísland komi sínum sjónarmiðum á framfæri.“

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -