Brynjar Níelsson er kræfur karl og kaldur, eins og menn eiga að vera.
Skrifar:
„Einhver undarlegast umræða sem ég hef orðið vitni af á þinginu var nú í morgun. Hún bar yfirskriftina „Rannsókn Samherjamálsins og orðspor Íslands.“
Fyrirspyrjandi, mannréttindafrömurðurinn, Þórhildur Sunna, sem ku hafa lært eitthvað um mannréttindi í Hollandi en ekki náð að skilja hvað felst í hugtakinu og enn síður hvað er spilling og hvað felst í siðareglum, hóf ræðuna samt á því að þessi umræða væri ekki um rannsókn Samherjamálsins þrátt fyrir yfirskriftina og þær spurningar sem hún kom með.“
Og Brynjar spyr:
„Eru engin takmörk á því hvað hægt er að bjóða fólki upp á? Svo var reynt að snúa umræðunni um það að fjármálaráðherra og ódámurinn aðstoðarmaður dómsmálaráðherra hafi haft afskipti af rannsókn lögreglu á svokölluðu símamáli þar sem blaðamenn fengu stöðu sakbornings við rannsóknina. Það eru ekki afskipti af rannsókn sakamáls þótt tveir löglærðir menn, þótt þeir starfi í stjórnarráðinu, bendi á að um blaðamenn gildi sömu reglur og um aðra við rannsókn sakamála og því algjör óþarfi fyrir þá að leika einhver fórnarlömb lögregluofbeldis.“
Hann nefnir að „sorglegast við umræðuna á þinginu var þegar einstakir þingmenn lýsa yfir sekt manna hægri vinstri í málum sem enn eru til rannsóknar. Það hafa þingmenn gert áður í málum og það iðulega reynst mikil sneypuför og engum til framdráttar, eins og ráðherra benti á í umræðunni. Allra síst ef menn eru að berjast gegn spillingu og fyrir mannréttindum.“
Hann segir um spillingur:
„Afskipti stjórnmálamanna af rannsóknum einstakra mála og krafa um að ráðherra beiti sér með einhverjum hætti í tengslum við rannsóknina er birtingarmymd tærrar spillingar. En virðist skipta suma litlu máli þegar þeir eru í pólitík. Það hefði verið í góðu lagi ef þessi umræða hefði snúist almennt um málshraða í rannsókn og saksókn mála og hvort nægilega vel væri búið að þessum stofnunum til að sinna verkefnum sínum. Slík umræða er nauðsynleg og dómsmálaráðherra hefur bent á að við þurfum að taka okkur taki í þeim efnum. En slíka umræðu gat stjórnarandstaðan ekki tekið og því farið í gamalkunnar skotgrafir og endurtekin pólitísk leikrit.“