2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Byrjar að telja niður í jólin í febrúar

Diljá Ámundadóttir elskar jólin og er sérfræðingur í að koma öðrum í jólaskap. Hún er fyrir löngu byrjuð að minna fólk á að það sé að styttast í jólin.

Jólabarnið Diljá Ámundadóttir hlýtur að vera eitt mesta jólabarn landsins en hún er fyrir löngu byrjuð að telja niður í jólin. Í rauninni má segja að hún byrji að láta sér hlakka til jólanna strax í febrúar.

„Sem annálað jólabarn á ég það til að minna fólk á jólin upp úr þurru. Til dæmis þegar það eru tíu mánuðir í næstu jól, þann 24. febrúar. Eða að það sé styttra í næstu jól heldur en frá síðustu jólum um mánaðamótin júní og júlí. Svo þegar það eru 100 dagar til jóla, og svo framvegis. Það er mikilvægt að halda fólki upplýstu um mál sem varðar okkur öll. “

Diljá hefur alltaf verið mikið jólabarn. „En ég held að ég hafi orðið meira og meira jólabarn með árunum, sérstaklega þar sem margir tengja mig við þessa dásamlegu árstíð. Fyrir nokkrum árum var ég í heimsreisu og kom ekki heim fyrr alveg rétt fyrir jólin og þá fannst mörgum alveg ómögulegt að ég væri ekki á staðnum á aðventunni til að koma fólki í almennilegt hátíðaskap. Það er eitt mesta hrós sem ég hef fengið.“

Spurð út í hvað sé það besta við jólin að hennar mati segir Diljá: „aðventan er það allra besta við jólin. Ég held mun fastar í hefðirnar á aðventunni heldur en á jólunum sjálfum. Ég hef líka lengt aðventuna og núna hefst hún fyrsta sunnudag í nóvember – og kallast þá pre-venta.“

AUGLÝSING


Diljá byrjar að skreyta á „pre-ventunni“. „Það skraut sem fer fyrst upp er í sérstökum kassa. Í honum er svona dót sem gengur meira út á að lýsa upp skammdegið; ljósaseríur og fallegur borðstofudúkur til dæmis. Jólatréið set ég svo upp á fyrsta í aðventu. Í fyrra var ég með tvö jólatré. Eitt hvítt gervitré, svona í 50’s-stíl, og annað lifandi tré.“

„Varðandi gjafainnkaup þá hef ég síðastliðin ár fagnað Þakkargjörðarhátíðinni í Bandaríkjunum (sem er þriðja fimmtudag í nóvember) og þá hef ég yfirleitt keypt allar jólagjafirnar. Þeim hef ég svo verið að pakka inn dagana fyrir jólin. Með jólalögin ómandi, púrtvín í glasi og gráðost á piparkökur. Mikilvægast finnst mér bara að vera ekkert að stressa sig neitt, “ útskýrir Diljá sem þekkir nokkur önnur ofurjólabörn.

„Ég hef til dæmis boðið hóp af slíkum ofurjólabörnum í árlegt jólaboð síðan 2007, það er haldið í upphafi pre-ventunnar. Þá hittumst við og borðum smá hangikjöt og piparkökur og spilum spil…og bara tökum forskot á sæluna, blessuðu. Aðeins að tappa af. “

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is