Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Kjósendur VG: Konur, grænmetisætur sem hafa áhyggjur af hlýnun jarðar en horfa lítið á Netflix

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Miklar breytingar hafa orðið á íslensku stjórnmálalandslagi á undanförnum áratug. Þjóðin hefur snúið baki við kerfi sem byggði á fjórflokki, sem raðaði sér frá vinstri til hægri á hinum klassíska pólitíska skala, og svo stundum einum í viðbót sem endurspeglaði oftar en ekki stemninguna í samfélaginu á þeim tíma.

Síðustu árin hefur fylgi fjórflokksins hrunið úr því að vera að jafnaði yfir 90 prósent í 62-65 prósent í síðustu tvennum kosningum sem fram hafa farið. Tími sterkra tveggja flokka ríkisstjórna virðist liðinn og í síðustu kosningum náðu átta flokkar á þing. Eins og staðan er í dag mætti segja að þær blokkir sem teiknast hafa upp séu þannig að ríkisstjórnarflokkarnir ólíku: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, myndi eina slíka, frjálslyndu miðjuflokkarnir í stjórnarandstöðu (Samfylking, Viðreisn og Píratar) aðra og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins málefnalega þá þriðju, þótt flokkarnir tveir muni líklega aldrei geta unnið saman vegna persónulegs ágreinings sem á rætur sínar að rekja til Klaustursmálsins svokallaða.

En hverjir eru það sem kjósa þessa flokka? Og eiga kjósendur innan hverrar blokkar eitthvað sérstakt sameiginlegt? Kjarninn hefur fengið aðgang að miklu magni gagna úr síðustu könnunum MMR sem sýna hver líklegasta áferð meðalkjósanda hvers flokks er.

Þetta er hluti af stærri umfjöllun Kjarnans í nýjasta helgarblaði Mannlífs.

Flokkur forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur er sá ríkisstjórnarflokkur sem goldið hefur mest fyrir hið óvenjulega ríkisstjórnarsamstarf. Samanlagt fylgi hans í ágúst og september mælist 12,2 prósent, sem þýðir að hátt í þriðjungur af fylgi flokksins er horfinn frá síðustu kosningum.

Tölur MMR sýna að konur eru mun líklegri en karlar til að kjósa Vinstri græn. Stuðningur hans er langmestur á Norðurlandi þar sem hann mælist stærstur allra flokka með 18,4 prósent stuðning á heimaslóðum fyrrverandi formannsins Steingríms J. Sigfússonar. Eina landssvæðið utan þess þar sem fylgið er í takt við heildarfylgið er á höfuðborgarsvæðinu. Annars staðar á landinu eru Vinstri græn með eins stafa fylgi og minnst á Austurlandi, þar sem einungis 5,9 prósent kjósenda segjast styðja flokkinn.

Flestir kjósendur Vinstri grænna eru með háskólamenntun en flokkurinn nýtur líka ágætis stuðnings á meðal þeirra sem hafa einungis lokið grunnmenntun. Lægri hluti millitekjuhópa er líklegastur til að kjósa flokkinn og það eru kannski ekki óvænt tíðindi að flokkur með orðið „vinstri“ í nafninu sínu njóti minnst stuðnings hjá tekjuhæsta hópnum í samfélaginu.
Þegar fyrri kannanir ársins, sem skoða sértækt annað en bara fylgi flokka, eru skoðaðar kemur í ljós að kjósendur Vinstri grænna voru líklegri en kjósendur annarra flokka að ætla að ferðast í sumarfríinu sínu, jafnt innanlands sem utan, langlíklegastir til að borða grænmetis- eða veganfæði, höfðu miklar áhyggjur af hlýnun jarðar og ansi hlynntir veggjöldum. Þeir voru hins vegar ólíklegastir til að vera með áskrift að Netflix eða virkt Costco-aðildarkort og eru að uppistöðu mjög andvígir því að ferskt kjöt verði flutt til landsins frá öðrum löndum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -