Miðvikudagur 22. júní, 2022
7.8 C
Reykjavik

Daníel missti bróður í sjálfsvígi eftir kalda kveðju: „Drullaðu þér út, helvítis auminginn þinn“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Daníel Örn Sigurðsson er leigubílstjóri og spilatöframaður. Hann var ungur greindur með ADHD og einkenndust næstu ár og í raun áratugir af stjórnleysi: Hann var rekinn úr skóla í 8. bekk, sendur á heimili úti á landi fyrir vandræðafólk og hann fór út í neyslu 15 ára og braust inn á neyslutímabilinu. Daníel talar líka um slysið þegar hann brenndist illa þegar hann féll ofan í hver, veikindi sem og dauðann og sorgina en einn hálfbróðir hans var einnig í neyslu og framdi síðar sjálfsmorð. Þá lést móðir hans í fyrra. Áföllin hafa haft áhrif á andlegu heilsuna.

 

„Ég á mjög skrautlega sögu,“ segir Daníel Örn Sigurðsson leigubílstjóri sem margir þekkja sem töframann. Spilatöframann. „Ég var svo mikið vandræðabarn. Ég var í sveit og ég bjó mikið hjá afa mínum og ömmu á tímabili.“

Hér á eftir fer saga Daníels sem hann segir að sé svo skrautleg. Best að hafa þetta í réttri tímaröð. Þetta er kannski eins og nóvella. Lítil nóvella.

„Ég datt út um glugga þegar ég var tveggja ára; ég var að ná í flugur og lenti á eina grasblettinum á svæðinu þar sem var annars stétt. Annars hefði ég dáið. Svo kveikti ég í bíl þegar ég var þriggja ára; stjúppabbi minn kom heim í hádeginu í vinnubíl og ég fór inn í bílinn. Ég var eldspýtnaóður, kveikti á einni eldspýtu og missti hana. Ég sá síðar myndir af bílnum sem var kolamoli en ég komst með einhverjum ólíkindum út úr bílnum.

Það magnaðasta var að ég var einu sinni að hjóla í fjörunni með vini mínum þegar ég var sex ára og það var útsog. Svo kom alda og tók mig. Það voru tvær konur að skokka á stíg fyrir ofan fjöruna og heyrðu óp, sáu eina hönd og náðu að draga mig upp úr.

- Auglýsing -

Mín saga upp frá þessu er rosalega skrautleg. Ég er með svo endalaust ADHD að þú trúir því ekki. Ég er rosalega orkumikill og fór mikið út fyrir kassann.“

Daníel ólst upp með móður sinni, stjúpfeðrum og hálfbræðrum á nokkrum stöðum. ADHD hefur haft áhrif á hann alla tíð og fékk hann greiningu þegar hann var sex ára en hann segist ekki hafa farið á almennileg lyf fyrr en hann var 13 ára.

Ég var bara gersamlega stjórnlaus.

„Ég var út um allt. Ef ég fór út að leika mér að morgni til, þá var happ og glapp hvort ég myndi koma heim í kvöldmat eða ekki. Ég kom kannski heim klukkan 10 eða 11 um kvöldið. Mamma hafði enga stjórn á mér. Ég var bara gersamlega stjórnlaus. Ég var svo ofvirkur. Ég var svo mikið vandræðabarn. Þetta er rosalega skrýtin saga.“

- Auglýsing -

Þegar hann var átta ára, en fjölskyldan bjó þá á Meistaravöllum, ætlaði hann einn daginn að heimsækja ömmu sína sem bjó í Breiðholti. „Ég er svo sérstakur. Ég ætlaði að fara í strætó til ömmu og ætlaði að taka þristinn. Vagninn fór fyrst niður á Lækjartorg og þá varð ég smeykur þannig að ég fór þar út, labbaði niður að Grund og gekk síðan til baka eftir Hringbraut og síðan Miklubraut og alveg upp í Breiðholt. Ég var algjörlega svo ógeðslega út á skjön og ég var svo uppátækjasamur þegar ég var yngri að það var ekki eðlilegt. Ég var svo handóður að ef ég fór einhvers staðar í heimsókn þá var ég rótandi í öllum skúffum.

Mamma vann um tíma á Grund og einu sinni á afmælisdaginn minn var ég þar og sagði gamalli konu að ég ætti afmæli. Og hún gaf mér mola. Eftir það átti ég oft rosalega oft afmæli.“ Hann hlær. Og hann fékk þá mola. „Maður var fljótur að finna „loopholes“ hér og þar.“

 

Það á eftir að moka flórinn

Jú, Daníel bjó á nokkrum stöðum og gekk í nokkra skóla svo sem Laugarnesskóla, Ölduselsskóla, Melaskóla, Fellaskóla, Grunnskóla Borgarness og Steinsstaðaskóla. Það var oft flutt. „Já, ég var bara flakkandi út um allt alls staðar.“ Fjölskyldan bjó stundum í félagslegum íbúðum. „Mamma var aldrei efnuð. Hún vann baki brotnu alla sína ævi. Ég á enga silfurskeið neins staðar. Það hefur enginn gefið mér bíl.“

Svo fór hann í Fellaskóla og segist hann hafa verið rekinn úr skólanum þegar hann var í 8. bekk. „Það tók Barnaverndarnefnd tvo mánuði að finna viðeigandi heimili; viðeigandi sveitaheimili fyrir mig. Mamma gafst upp. Ég var alveg stjórnlaus. Það fannst heimili rétt hjá Borgarnesi þar sem meðal annars fyrrverandi fangar höfðu dvalið og maðurinn þar keyrði mig heim eftir mánuð. Þá var hann búinn að fá nóg. Það voru bara engin úrræði.

Ég sagðist ekki ætla að moka skítinn.

Ég fór svo norður í sveit þegar ég var 15 ára og þar var ég gerður að manni. Þar breyttist ég. Þá var mér kennt að éta og vinna. Ég ætla ekki að segja að þetta sé viðurkennd aðferð, alls ekki, en þetta virkaði á mig. Þegar ég kom þá útskýrði bóndinn fyrir mér hvernig þetta virkaði; hann sagði að við myndum vinna saman – gæfum skepnunum og mokuðum skítinn. Ég sagðist ekki ætla að moka skítinn. Hann sagði „allt í góðu, við sjáum til með það“. Svo kom kvöld og ég spurði hvað væri í matinn. Þá leit bóndinn á mig og sagði: „Ég veit það ekki, það á eftir að moka flórinn.“ Það liðu fjórir dagar. Þá mokaði ég flórinn. Þá gafst ég upp.“ Daníel hlær. „Ég fékk ekkert að éta fyrr en ég mokaði flórinn. Hann var bara harður; það rann ekki í honum blóðið. Hann var sultuslakur. En þetta þurfti ég. Ég þurfti svona „fuck you“. Bara svona „haltu kjafti, drengur og farðu að læra“. Þetta breytti mér svolítið.“

 

Hverinn

Daníel fór eftir dvölina í sveitinni að vinna hjá Hinu húsinu. Árið er 1999 og Daníel er 16 ára. „Þetta var aðeins meira en unglingavinna. Þetta var fyrir vandræðabörn og var ég til dæmis að mála grindverk. Við fórum nokkur sem unnum saman einn daginn í ágúst í Reykjadal þar sem ég sá hver og stoppaði tvo metra frá honum. Svo sá ég hvernig lappirnar á mér byrjuðu að búa til fótspor ofan í jörðina og áður en ég vissi af var ég kominn hálfur ofan í jörðina í 200 gráðu heitan leirhverinn. Félagar mínir reyndu að koma mér til hjálpar en það brotnaði alltaf undan þeim þannig að þeir komust ekki að mér.“ Það tókst þó að lokum að draga Daníel upp úr hvernum og var hann kældur með vatni og síðan þurfti hann að ganga í um kortér að bílnum. Það var stoppað á leiðinni og handklæði bleytt. „Þegar einn úr hópnum ætlaði að taka handklæðið af öðrum fætinum á mér þá gat hann það ekki af því að það var svo heitt. Leirinn var ennþá sjóðandi heitur og festist á fætinum eins og olía.“

Þögn.

Daníel lá á sjúkrahúsi í 12 vikur.

 

3. stigs bruni.

„Lappirnar voru svo illa farnar að það þurfti að taka húð af hægra lærinu til þess að setja á vinstri löppina af því að hún var svo ónýt. Lýtalæknirinn settist hjá mér einn daginn eftir að ég var búinn að vera í einangrun; hann var voðalega líbó gæi. Hann sagði að þetta væri mesta kraftaverk sem hann hefði séð og að allt í læknisfræðinni segði að það væri ekki hægt að lifa svona af. 35% af líkama mínum brenndust og 20% af því var 3. stigs bruni.“

Hann talar um bláa dúnúlpu sem hann var í daginn sem hann brenndist. „Það var um 20 stiga hiti og ekki ský á himni en allir aðrir voru í stuttermabol. Ef ég hefði ekki verið í þessari dúnúlpu þá væri ég ekki að tala við þig í dag af því að hún hélt mér á floti.

Mamma fór á miðilsfund í nóvember sama ár. Þá sagði miðillinn „hérna er hrokkinhærð kona eða kona með permanent og hún segir að hún sé ánægð með að úlpan hafi komið að góðum notum“. Daníel segir að um sé að ræða látna ömmu sína sem hafði gefið honum úlpuna á sínum tíma. Úlpuna bláu.

það kom bíll á um 110 kílómetra hraða og ók beint í hlið bílsins.

„Það er búið að segja mér margoft að það er einhver sem vaki yfir mér vegna þess að þetta er ekki í eina skiptið. Við mamma áttum alltaf Þorláksmessu saman. Skötuna. Alltaf skata á Þorláksmessu. Þetta hefur verið um 1998. Hún var að skutla einhverjum heim og ég var bara heima með stjúppabba mínum. Svo þegar hún kom heim ætlaði hann að skutla mér til afa sem bjó í sama hverfi. Við fórum út og það var kalt en enginn snjór þannig séð. Í staðinn fyrir að taka bíl mömmu, sem var heitur þar sem hún var nýkomin á honum, þá tók hann sinn bíl sem var ískaldur. Það var ekið á bílinn á leiðinni en það kom bíll á um 110 kílómetra hraða og ók beint í hlið bílsins. Ef við hefðum farið á bílnum hennar mömmu þá væri ég ekki að tala við þig í dag af því að í hinum bílnum sem við vorum í voru stálbitar í hurðinni þar sem ég var en ekki í bíl mömmu. Allt svona raðast þannig að ég slepp alltaf með ólíkindum fyrir slysni.“

 

Neyslan

Daníel byrjaði í neyslu 15 ára gamall. Hann hitti mann sem spurði hvort hann vildi prófa hass. Daníel spurði hvers vegna hann ætti að gera það. „Þér líður svo ógeðslega vel af þessu,“ segir hann að maðurinn hafi svarað.

„Ég fór þess vegna niður í kjallara og prófaði hass og ég varð rosalega skakkur.“ Hann var kominn á bragðið. Í partíi eitt kvöldið kynntist hann amfetamíni og segist hafa bundist ástfóstri við það. „Það var algerlega mitt efni. Ég var í dagneyslu á amfetamíni í tvö til þrjú ár og missti um 45 kíló. Ég var orðinn 57 kíló í árslok 2005 en ég var í rosalega harðri neyslu alveg frá 2002-2005.“

Þögn.

Hvað var það versta sem Daníel upplifði á þessum tíma? Hvernig heimur er þetta?

Það eru dæmi um að menn hafi látið hengja sig „basically“.

„Þetta er heimur sem enginn vill vera í vegna þess að það er engin miskunn þarna. Það er mikið af innbrotum til að verða sér út um efni og ég var orðinn það siðblindur að ég var farinn að brjótast inn hjá fólki sem ég vissi hvar það geymdi hitt og þetta. Ég þekkti fólkið. Maður varð strax svo siðblindur að það er ekki hægt að lýsa því. Manni fannst allt í lagi að gera allan andskotann. Það var ekkert heilagt. Þetta er rosalega brútalt og rosalega vondur heimur. Ég veit til dæmis um mann sem hengdi sig en ég vissi að það var ekkert annað en handrukkun. Það eru dæmi um að menn hafi látið hengja sig „basically“. Það er ekki hægt að lýsa þessum heimi. Þetta er svo óhugnanlegt. Þessir fíklar eru samt bara Jói frændi eða Maggi bróðir sem var manneskja. Manneskja sem fæddist með markmið og drauma og sem vill örugglega gera flesta hluti eins og allir vilja gera.“

Daníel kynntist svo ástinni; eignaðist nýja kærustu. Það var árið 2005. Og hann 22 ára.

síðhvörf eru það þegar maður setur mjólkina inn í ofninn í staðinn fyrir ísskáp.

„Þá bara hætti ég. Hún setti mér stólinn fyrir dyrnar og sagði að ef við ætluðum að vera saman þá annaðhvort hætti ég í neyslu eða að ég gæti farið. Og ég ákvað að hætta. Það tók mig alveg þrjá til fjóra mánuði. Ég fékk largactil og phenergan til að trappa mig niður og til að jafnvægisstilla mig. Ég var í fráhvörfum í fjóra til fimm sólarhringa og hún skipti á rúminu tvisvar til þrisvar í viku af því að ég svitnaði svo mikið. Ég var svo í síðhvörfum í tvo mánuði eftir það; síðhvörf eru það þegar maður setur mjólkina inn í ofninn í staðinn fyrir ísskáp og ætlar að fara að grilla sér samloku og setur hana kannski á milli tveggja bóka í staðinn fyrir að setja hana í samlokugrill. Maður sónar út. Maður gerir allt annað en maður ætlaði að gera. Maður ætlar kannski að fara að horfa á sjónvarpið en er svo allt í einu sestur á klósettið.“

Daníel fór sem sé ekki í meðferð per se.

„Nei, ég hætti af því að ég var líka kominn með nóg. Ég nennti þessu ekki lengur. Þetta var orðið ágætt. Þetta leiddi ekki neitt. Ég átti aldrei pening. Þetta var alltaf eymd. Ég var alltaf inn og út hjá löggunni og alltaf í yfirheyrslum hér og þar.“

Alltaf inn og út hjá löggunni og í yfirheyrslum; fékk hann aldrei dóm? „Ég fékk einu sinni dóm fyrir fíkniefnalagabrot; hann var skilorðsbundinn til sex mánaða. Svo braut ég það skilorð en ég var byrjaður að vinna hjá borginni og ég var orðinn svo klár að ég kom bara í vinnugallanum og skítugur í framan í réttarsalinn og sagði dómarinn að fyrst ég væri búinn að snúa svona við blaðinu þá ætlaði hann að lengja skilorðið aðeins. Þannig að þetta var framlengt um níu mánuði. Þannig að ég fór ekki inn.“

Hvað lærði Daníel af þessum neysluárum?

„Ég lærði hvað mig langaði ógeðslega mikið ekki í þennan lífsstíl. Þetta er lífsstíll sem leiðir fólk ekki neitt. Þetta leiðir ekkert. Vegna þess að ef fólk er með einhvern vott af metnaði þá er hann horfinn um leið. Allt tímaskyn hverfur algjörlega og raunveruleikatengsl við allt. Þetta er svo óheillandi.“

Hann reykir rafrettu. Hefur hann ekkert verið í neyslu eftir þetta?

„Nei.“

 

Spilagaldramaður

Og svo hélt lífið áfram og áfram virtist vera vakað yfir Daníel sem segist eiga svo skrautlega sögu.

Hann átti einu sinni aðra kærustu. „Hún á frænda sem hún bauð í partí og hann sagðist kunna spilagaldra. Ég bað hann um að kenna mér einn galdur og hann sýndi mér hann þrisvar sinnum í röð og ég bara fékk veiruna; hann benti mér á síðu sem heitir ellusionist.com og þar kynntist ég manni sem heitir Brad Christian sem varð minn mentor. Ég byrjaði að æfa mig og svona þróaði ég mig áfram og í dag er ég einn færasti spilatöframaður á Íslandi. Ég er stundum með svo mikla þráhyggju að ef ég geri eitthvað þá ætla ég að verða bestur í því. Ég var kominn með blöðrur á puttana af því að ég var að æfa mig alla daga. Ég fór á fullt og er búinn að vera að skemmta í 13 ár.

lungnabjúg, lungnabólgu, sýkingu í blóði og hjartabilun.

Árið 2015 var ég búinn að skemmta ógeðslega mikið og vinna ógeðslega mikið og ég reykti eins og strompur og drakk. Borðaði eitthvað og svaf eitthvað í marga mánuði og var orðinn ofboðslega veikur af flensu. Svo eitt aprílkvöld hóstaði ég svo mikið að ég gat ekki sofið. Ég fór upp á bráðamóttöku og var sendur beint inn. Ég var með 70 í súrefnismettun en ef maður er neðar en það er maður dáinn. Það kom í ljós að ég var með svo mikinn lungnabjúg, lungnabólgu, sýkingu í blóði og hjartabilun. Læknirinn sagði að ég hefði verið að drukkna; lungun voru að fyllast af vatni.“

 

Rúmri viku síðar hengdi hann sig

Nei, lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum hjá Daníel enda rósir almennt með þyrna. Það sama má segja um einn bróður hans, Steindór, sem var þremur árum yngri. Daníel er elstur bræðranna. Þeir voru fjórir í allt. Nú eru þeir þrír á lífi. Þeir Steindór voru hálfbræður. Sammæðra. Allir eru hálfbræður Daníels en þeir tveir yngstu eru þó albræður.

„Steindór dó 13. júní árið 2018. Hann var búinn að vera í gríðarlega mikilli fíkniefnaneyslu alveg frá því hann var 13 ára. Hann fór sínar eigin leiðir. Hann var rosalega ævintýragjarn en hann var á sama tíma ofsalega hlédrægur. Rosalega skrýtinn persónuleiki. En hann var fluggáfaður. Rosalega gáfaður strákur. Þetta var svo dýrt dauðsfall af því að hann var svo gáfaður. Og hann var svo klár. Hann var svo áhrifagjarn. Rosalega áhrifagjarn. Alveg svakalega. Og átti mjög auðvelt með að verða bara undir áhrifum. Hann leiddist fljótt út í viðurkenningu einhvers staðar annars staðar.“

Daníel Örn Sigurðsson
Steindór Smári

13 ára í neyslu.

„Þá var hann byrjaður að reykja hass en hann byrjaði að neyta kókaíns þegar hann var 16 ára og hann var byrjaður að sprauta sig 19 ára svo sem með læknadópi, kókaín og amfetamíni. Hann var orðinn svo sárþjáður sprautufíkill að það var orðið erfitt fyrir hann að finna æð. Hann sprautaði sig þangað til hann lést 32 ára.

Ég fékk að vita rosalega mikið eftir dauðsfall hans sem var ofboðslega sárt af því að hann sagði öðrum að hann langaði til að verða eins og stóri bróðir sinn. Eins og ég. Þetta vissi ég ekki vegna þess að hann gaf mér ekki tækifæri á því að umgangast sig vegna þess að hann var ekki í sama heimi og ég. Hann gaf okkur ekki tækifæri á að kynnast almennilega til þess að geta sagt að hann þyrfti hjálp. Hann lokaði sig af af því að hann var svo greindur. Hann vissi að það var ekki hægt að vera innan um okkur þegar hann var í neyslu þannig að hann lokaði okkur af.“

Daníel talar um nýársdag árið 2018. „Hann kom til mín grátandi og skíthræddur með sitt eigið líf af því að vinir hans voru að hríðfalla. Detta niður dauðir. Hann sagði að hann væri vanur að sprauta sig með því sama og þeir og vissi hvað hann þyldi en að þeir væru að deyja og það væri einhver að útrýma þeim. Hann laug aldrei að mér. Hann hélt að einhver væri að útrýma þeim af því að þeir vissu eitthvað sem þeir máttu ekki vita. Það var hans kenning.“

Hann var í rauninni að segja mér að þetta væri búið.

Daníel segir að þeir Steindór hafi talað saman einni og hálfri viku áður en Steindór dó. „Ég var að skutla honum til mömmu viku áður en hann dó og þá sagði hann mér hvað hann væri kominn í mikið þrot. Hann sagðist ekki hafa meiri orku í þetta. Hann var í rauninni að segja mér að þetta væri búið. Ég fattaði ekki fyrr en eftir á að hann var að kalla á hjálp. Hann var að segja mér að hann væri að fara að hengja sig. Svo gerði hann það einni og hálfri viku síðar.“

„Drullaðu þér út, helvítis auminginn þinn,“ sagði ég.

Daníel segir að Steindór hafi beðið móður þeirra um að fá að vera hjá henni um helgina þar sem hann væri að bíða eftir félagslegri íbúð og fékk hann leyfi svo lengi sem hann væri edrú. Daníel bað móður þeirra um að passa dóttur sína á laugardeginum. „Svo þegar ég kom að sækja hana á sunnudeginum þá sagði mamma að Steindór hefði farið út og komið aftur aðfaranótt sunnudagsins dópaður. Ég var svo reiður þar sem stelpan mín var þarna að ég kallaði hann „helvítis drullusokk“ og gjörsamlega sparkaði honum út og henti í hann 2000 kalli til að komast með rútu í bæinn. „Drullaðu þér út, helvítis auminginn þinn,“ sagði ég og skellti hurðinni. Ég sá hann ekki eftir þetta. Viku seinna hengdi hann sig.“

Þögn.

Daníel segir að Steindór hafi verið lifandi þegar hann fannst. „Það var hnoðað í tæpa tvo tíma. Það bar árangur en hann fékk púls en eftir fjóra daga í öndunarvél var ljóst hver niðurstaðan yrði svo hann var settur í líknandi meðferð og lést degi síðar.“

Daníel á erfitt með að halda tárunum í skefjum þegar hann talar um þetta. Þessi síðustu orð sem hann sagði við bróður sinn áður en hann lést valda honum mikilli vanlíðan.

Þetta er svo mikil vanlíðan að það er ógeðslegt.

„Þetta er hræðilegt. Það er hrikalegt að hafa skilið svona. Þetta er alveg skelfilegt. Þetta er svo skelfilegt,“ segir hann með áherslu, „að þurfa að lifa með þetta. Þetta er svo mikil vanlíðan að það er ógeðslegt.“

Þögn.

Dauðaþögn.

 

Daníel Örn Sigurðsson

Þetta nær engri átt

„Það er kannski líka rétt að nefna það að ástæðan fyrir því að Steindór lést var ekki af því að honum leið illa og líf hans var ömurlegt og allt það; hann var svo ósáttur við það hver hann var. Hann vildi ekki vera þessi maður sem var í fíkniefnum. Ég fékk að vita það eftir á hjá fólki sem var með honum á geðdeild að hann þráði ekkert heitar en að vera eins og bróðir sinn eins og ég hef sagt. Eins og ég. Eiga fjölskyldu og hús. Hann þráði bara eðlilegt líf. Hann vildi ekkert húllumæ. Hann vildi ekki þessa þráhyggju. Hann gat fengið hjálp við fíkn og hjálp við geðveikinni en ekki á sama tíma. Því miður.“

Var Steindór greindur með geðsjúkdóm?

„Nei. En þetta var orðin hálfgerð geðveiki þegar hann var búinn að búa á götunni frá því hann var krakki. Hann var kominn á götuna 21 árs og þá voru bara þrjú ár síðan hann varð lögráða. Þetta er byrði, sérstaklega fyrir svona óþroskaða einstaklinga.

Það þarf að stofna einhvers konar samtök.

Daníel segir að Steindór hafi stundum farið inn á geðdeild en að honum hafi verið hent út af því að hann var ekki í sjálfskaðahættu í augnablikinu, af því að hann var ekki að fara að drepa sig, af því að hann var ekki í maníu eða af því að hann var ekki öskrandi eða geðveikur. „Hann fékk ekki þá hjálp sem hann var að biðja um. Hann fór sjálfviljugur inn á geðdeild til þess að fá hjálp en af því að hann var ekki í „critical“ ástandi þá; „sorrí, út með þig, komdu þegar ástandið verður „critical“.“ En ef það var orðið of seint? Hvers lags… Hvers eigum við aðstandendur að gjalda þegar við getum ekki treyst á okkar eigin kerfi? Hvað eigum við þá að gera? Við verðum að geta treyst á okkar kerfi. Það er svo mikið í húfi. Á bak við hvern fíkil er fjölskylda sem situr eftir með alla sorgina. Þetta er bara galið og nær engri átt. Þetta getur ekki verið svona. Þetta verður að breytast. Þetta er ekki hægt. Það þarf að stofna einhvers konar samtök; það þarf að búa til einhvers konar konsept þannig að það sé hlustað. Það þarf eitthvað að gerast þangað til að þeir sem sjá um peningavöldin verða komnir upp að vegg og dæla pening í þetta. Við verðum að fara að skilja hvað þetta er mikilvægt. Þegar einstaklingur fer þá eru margir skildir eftir í sárum. Margir fjölskyldumeðlimir þurfa kannski að taka sér frí í eina til tvær vikur og þurfa áfallahjálp eða á sálfræðingi að halda. Þetta er svo mikill kostnaður fyrir svo ofboðslega marga bara af því að heilbrigðiskerfið okkar er bara á rassgatinu. Þetta er stropað. Þetta nær engri átt. Sorrí. Ég er bara svo reiður.“

Kross í bandi hangir á vegg á heimili Daníels. Steindór átti þennan kross og hafði hann oft um hálsinn.

Jú, það er þessi sorg.

Hann var bara einn.

„Þetta var gríðarlega erfitt. Ég missti helminginn af sjálfum mér þegar Steindór dó. Ég á tvo aðra hálfbræður sem eiga aðra feður en ég hef ekki náð að tengjast þeim nógu vel af því að ég var svo lítið heima; þeir fæddust 1995 og 1997 og á þeim tíma var ég á svo miklu flakki út í sveit og hingað og þangað og bjó hjá ömmu og svona. Þannig að ég kynntist þeim lítið en ég ólst svolítið upp með Steindóri. Hann var svolítið hluti af mér. Að missa Steindór er það erfiðasta sem ég hef upplifað og gengið í gegnum vegna þess í fyrsta lagi hvernig við skildum. Og að vita það eftir á hversu mikið hann stóð einn í þessu. Ég vissi það ekki en ég hélt hann væri með einhverja vini þarna úti og væri með þeim að gera eitthvað. Hann var bara einn. Stóð bara einn. Og á jólum og á afmæli sínu.“

Þögn.

„Hann var einhvern veginn einn. Mamma varð aldrei söm eftir að hann dó. Hún lamaðist af gráti. Hún grét svo sárt þegar hann dó. Ég tók þetta svolítið út á vinnunni; ég fór að vinna mikið eftir þetta sem kom í bakið á mér en tveimur til þremur mánuðum síðar grét ég í mánuð. Ég grét hafsjó. Ég var eins og pínulítið barn. Ég syrgði hann svo svakalega. Ég samdi ljóð til hans. Ég vaknaði klukkan sjö um morguninn daginn sem jarðarförin var með þetta í hausnum og skrifaði niður. Ég lagðist síðan niður og sofnaði aftur. Síðustu orðin hafa svolítið gildi vegna þess að ég enda ljóðið á „mér var aldrei sama“. Ég man ekki einu sinni eftir því þegar ég las ljóðið upp í jarðarförinni. Fólk sagði að það hefði reglulega lekið tár eins og í takti. Ég man ekki eftir því. Það skilur enginn hvernig ég gat staðið í pontunni en það var einhver styrkur í mér.“

Ljóðið heitir „Bróðurást“.

Hér kveð ég mann sem var drengur góður

indæl og ljúf sál hann bróðir minn

klár og lífsreyndur þrátt fyrir ungan aldur

nú tala ég til hans í hinsta sinn.

 

Elsku bróðir minn nú ertu farinn mér frá

og hefur fært þig um sess

elsku drengur þú ert ekki lengur mér hjá

og ég fékk ekki einu sinni að segja bless.

 

Já elsku Steindór nú ertu meðal feðra þinna

minning þín björt og falleg hjá okkur ávallt skín

þó ég viti að þú ert þar sem friðinn er að finna

græt ég fjarveru þína og mun alltaf sakna þín.

 

Nú hefur þú loks öðlast frið

en þrátt fyrir allt sem hefur á dunið

og sjúkdómur þinn verið oft til ama

þá vil ég að þú vitir að mér var ekki sama.

 

Hvíl í friði elsku bróðir minn

lítil samvera í seinni tíð þykir mér miður

þótt þínu jarðneska lífi sé lokið um sinn

munum við hittast og faðmast þegar minn tími kemur.

 

Bróðurhjartað er mjög veikt núna

og af öllu vildi ég þið faðma núna

og þó svo stundum hafi vantað upp á trúna

vil ég að þú vitir að mér var ekki sama

mér var aldrei sama.

Daníel Örn Sigurðsson

 

Áföllin urðu fleiri. Sorgin knúði aftur dyra. „Konan skildi við mig 2019 eftir 14 ára samband, 2020 kom Covid og ég missti vinnuna í heilt ár og svo dó mamma 2021.“

Þögn.

„Þetta eru fjögur ár áfall eftir áfall. Má ég bara fá eitt fríár? Þannig að ég fór til sálfræðings til að athuga og hún setti mig í eitthvað próf og ég er víst á einhverjum skala varðandi áfallastreituröskun þannig að ég ætla að halda áfram að vera hjá sálfræðingnum. Ég er víst með áfallastreituröskun, kvíða og snert af þunglyndi eftir þessi áföll.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -