Miðvikudagur 18. september, 2024
11.9 C
Reykjavik

Dauðarefsingin á undanhaldi í BNA

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rangar sakfellingar og umdeildar aftökuaðferðir eru meðal þess sem hefur gert það að verkum að sífellt fleiri ríki í Bandaríkjunum ákveða að stöðva aftökur um óákveðinn tíma eða banna dauðarefsinguna. Samkvæmt nýrri könnun vilja 60% Bandaríkjamanna heldur dæma fólk í ævilangt fangelsi en til dauða.

Færri en 30 voru teknir af lífi og undir 50 dæmdir til dauða í Bandaríkjunum í ár, fimmta árið í röð. Stuðningur við dauðarefsinguna hefur ekki mælst minni þar í landi í nær 50 ár en á síðustu árum hefur 166 föngum á dauðadeild verið sleppt eftir að dómum í málum þeirra var snúið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í árskýrslu samtakanna Death Penalty Information Center, sem berjarst gegn dauðarefsingunni. Þar segir einnig að New Hampshire hafi orðið 21. ríki Bandaríkjanna til að banna dauðarefsinguna en Kalifornía bættist í hóp þeirra ríkja sem hafa ákveðið að stöðva framkvæmd hennar um ótiltekinn tíma.

Alls voru 22 teknir af lífi 2019 í Bandaríkjunum í sjö ríkjum; Alabama, Flórída, Georgíu, Missouri, Suður-Dakóta, Tennessee og Texas. Þá voru 33 dæmdir til dauða en athygli vekur að dómarnir féllu í 28 sýslum, sem samsvarar minna en 1% af sýslum landsins. Washington Post hefur eftir Brandon Garrett, lagaprófessor við Duke-háskóla, að þar sem langfjölmennustu dauðadeildirnar sé að finna í Kaliforníu, muni stöðvunin þar hafa gríðarleg áhrif á fjölda aftaka. Alls bíða 2.656 fangar þess að verða teknir af lífi í Bandaríkjunum en þeir voru 3.593 árið 2000. Þá sitja 729 á dauðadeild í Kaliforníu.

Réttlætinu fullnægt?
Samkvæmt nýrri Gallupkönnun kjósa um 60% Bandaríkjamanna heldur dæma fólk í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn heldur en til dauða. Þar hefur eflaust áhrif mikil umræða um hina umdeildu banvænu innspýtingu sem aftökuaðferð og sívaxandi fjöldi einstaklinga sem er látinn laus, sumir eftir áratugalanga fangelsisvist, þegar dómum er snúið. Á árinu vakti ekki síst athygli mál tveggja bræðra, sem báðir eru nú frjálsir eftir að hafa setið á dauðadeild í langan tíma. Corey Atchison, 48 ára, var sleppt í Tulsa eftir að hafa dvalið 28 ár í fangelsi fyrir morð árið 1990. Yngri bróðir hans, Malcolm Scott, var frelsaður árið 2016 eftir að dómi í óskyldu morðmáli var snúið.

Tveir menn voru teknir af lífi á árinu á meðan enn lék verulegur vafi á sekt þeirra. Lögmenn Larry Swearingen höfðu reynt að bjarga honum í mörg ár með því að benda á ýmis atriði sem stóðust ekki skoðun, t.d. að sýni sem voru tekin undan nöglum konunnar sem Swearingen var dæmdur fyrir að myrða hefðu ekki passað við hann. Swearingen, sem var tekinn af lífi í Texas, hélt ávallt fram sakleysi sínu. Þá var Domineque Ray tekinn af lífi í Alabama, eftir að hafa verið dæmdur til dauða árið 1999 fyrir að nauðga og myrða unglingsstúlku. Kviðdómnum í málinu tókst ekki að komast að einróma niðurstöðu þar sem engar áþreifanlegar sannanir voru fyrir hendi í málinu.

Ljótasta málið, samkvæmt Guardian, var hins vegar mál Tiffany Moss. Hún varð á árinu fyrsta manneskjan til að vera dæmd til dauða í Georgíu í fimm ár. Þrátt fyrir að vera með staðfestan heilaskaða, var Moss leyft að sjá um eigin málsvörn en hún lagði ekki fram nein sönnunargögn til stuðnings sakleysi sínu, hvorki þegar dómur var kveðinn upp né refsing ákveðin.

Saklausir á dauðadeild?
Mál tveggja fanga á dauðadeild sem rötuðu til Hæstaréttar Bandaríkjanna á árinu vöktu gríðarmikla athygli. Báðir eru svartir og segir Robert Dunham, framkvæmdastjóri DPIC, þau til marks um arfleifð aftaka án dóms og laga sem svartir máttu þola á árum áður.

- Auglýsing -

Dómstóllinn snéri síðustu niðurstöðu í máli Curtis Flowers, sem komst fyrst í kastljós fjölmiðla eftir að um hann var fjallað í hlaðvarpinu In the Dark. Þar var greint frá því að réttað hefði verið í máli Flowers sex sinnum en í hvert sinn sem hann var fundinn saklaus, eða fyrri dómur ógiltur af áfrýjunardómstól, gaf saksóknarinn í málinu út nýja ákæru. Flowers var upphaflega fundinn sekur um að hafa myrt fjóra í húsgagnaverslun í Mississippi árið 1996 en Hæstiréttur komast að þeirri niðurstöðu að saksóknarinn í málinu hefði ítrekað beitt öllum brögðum til að sjá til þess að sem fæstir svartir sætu í kviðdómnum. Flowers var sleppt gegn tryggingu en hann bíður þess enn að saksóknarinn taki ákvörðun um hvort hann kjósi að ákæra Flowers í sjöunda skipti.

Kim Kardashian og Oprah Winfrey voru meðal þeirra sem vöktu athygli á máli Rodney Reed en aftöku hans var frestað á ögurstundu þegar stuðningsmenn hans kröfðust prófana á erfðaefni sem þeir telja að geta sýnt fram á sakleysi Reeds. Reed var ákærður og sakfelldur fyrir að hafa nauðgað og myrt hina 19 ára Stacey Stites, hvíta konu sem var trúlofuð lögreglumanni. Reed hefur ávallt haldið því fram að hann og Stites hafi átt í leynilegu ástarsambandi og að unnusti hennar hefði myrt hana í reiði vegna framhjáhaldsins.

Fimm á dauðalista stjórnvalda
Engir alríkisfangar voru teknir af lífi í ár, þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu ákveðið að hefja aftökur að nýju eftir nærri 20 ára hlé. Dómsmálaráðuneytið hefur gefið út raunverulegan dauðalista yfir þá fimm einstaklinga sem taka á af lífi en þeir eiga það sameiginlegt að hafa pyntað og myrt börn.

- Auglýsing -

Alls 13 aftökum hefur verið frestað í Ohio vegna deilna um „ágæti“ banvænnar innspýtingar sem aftökuaðferð en þrír fangar á dauðadeild létust á árinu skömmu áður en aftökur þeirra áttu að fara fram.

Nærri 100 manns voru teknir af lífi árið 1999 og á árunum fyrir síðustu aldamót voru um 300 dæmdir til dauða á ári hverju.

Þúsundir teknar af lífi í Kína
Amnesty International gefur árlega út tölur um aftökur á heimsvísu en árið 2018 voru að minnsta kosti 690 teknir af lífi í 20 löndum. Flestar aftökur voru framkvæmdar í Kína, Íran, Sádi-Arabíu, Víetnam og Írak.

Aftökurnar í Kína eru ekki inni í tölunni 690; þarlend stjórnvöld eru talin standa fyrir fleiri aftökum en öll önnur ríki samanlagt en engar upplýsingar eru gefnar um þær og gríðarlega erfitt að reyna að ná yfirsýn yfir fjöldann. Mannréttindasamtök gera ráð fyrir að aftökurnar nemi þúsundum.

Að minnsta kosti 253 voru teknir af lífi í Íran árið 2018, 85 í Víetnam og 52 í Írak. Í lok ársins 2018 höfðu 106 ríki tekið dauðarefsinguna úr lögum og 36 ríki til viðbótar látið af því að dæma menn til dauða.

Cornell-háskólinn í Bandaríkjunum heldur utan um nýjustu tölur yfir dauðarefsingar á heimsvísu. Þær voru síðast uppfærðar 18. desember en samkvæmt þeim hafa 26 verið teknir af lífi í Egyptalandi það sem af er ári, 232-256 í Íran, að minnsta kosti sex í Norður-Kóreu, 14 í Pakistan og 139 í Sádi-Arabíu.

Aftökuaðferðir eru afhöfðun, raflost, henging, banvæn innspýting, byssuskot og grýting.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -