Enn eru tveir ferðamenn týndir eftir að veggur í gili við íshelli í Breiðamerkurjökli hrundi í gær. Fjórir lentu undir ísfarginu. Tveir slösuðust í hruninu og bvar annar úrskurðaður látinn á vettvangi. Gríðarleg leit var gerð að týndu mönnunum en hlé var gert á leitinni vegna erfiðra aðstæðna í nótt. Mikil bráðnun er í jöklinum.
Björgunarstarf mun hefjast aftur í dag. „Ekki er talið forsvaranlegt vegna hættu á vettvangi að halda leit áfram í nótt. Leit hefur því verið frestað og verður henni fram haldið að nýju í birtingu í fyrramálið,“ segir í tilkynningu Lögreglunnar á Suðurlandi.
25 manns voru í hellinum þegar hrunið varð. Þetta voru erlendir ferðamenn af ýmsu þjóðerni í skipulagðri ferð á íshellinn.
Tilkynnt var um slysið kl. 15 í gærdag. Hópslysaáætlun Almannavarna var þegar virkjuð. Hundruð björgunarsveitarmanna héldu þegar á vettvang. Erfitt er að komast á staðinn með tæki til björgunar. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á staðinn auk þyrlu frá danska sjóhernum.