Fimmtudagur 28. mars, 2024
3.8 C
Reykjavik

Davíð miðil hlakkar til að deyja: „Ég talaði við þessar ljósverur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Davíð Guðmundsson, sem hefur verið skyggn alla tíð, leitaði til Sálarrannsóknarfélags Íslands fyrir átta árum vegna erfiðleika sem komu upp og hefur síðan farið á ýmis námskeið og starfar nú sem heilari, transheilari og við miðlun. Davíð segir vera mikilvægt að fylgja innsæi sínu og láta ekki fortíðina eyðileggja framtíðina. „Fortíðin er liðin og það er ekki hægt að breyta henni. En það er hægt að hafa áhrif á framtíðina.“

Mamma Davíðs var spænsk og hét María Teresa. „Hún kom til Íslands árið 1964. Það vantaði fólk í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum og þar kynntist hún pabba.“ Fjölskyldan bjó síðan í Reykjavík OG Davíð ólst þar upp.

Hann segir að þegar hann var mjög ungur hafi hann fengið á tilfinninguna hvernig líf hans yrði. „Mér var sýnt það. Og ég er að upplifa það í dag. Ég er kannski ekki sammála öllu sem mér var sýnt þegar ég var ungur og það er mjög erfitt að beygja af leið en það er samt hægt. Ég átti samtal við hið ósýnilega. Það er alltaf eins og það sé rödd með manni sem talar við mann. Og maður er bara oft í samræðum en það er enginn sýnilegur. Tilfinningasjónin segir að það sé einhver nálægt manni.

Ég talaði mikið við stjörnurnar þegar ég var barn. Ég talaði við þessar ljósverur sem ég skynja sem stjörnur. Þær eru enn vinir mínir.“ Davíð segist líka hafa séð álfa og farið inn í steinana þeirra. „Það er minnisstætt sumarleyfi með fjölskyldunni í Hveragerði. Ég var einu sinni uppi á fjalli og var ég að leika við álfana þar. Þeir voru þrír eða fjórir. Mér fannst það gaman og þeir spurðu hvort ég vildi skoða helmili þeirra. Ég sagði „já“ og labbaði með þeim inn í stein; ég hvarf inn í steininn. Mér fannst þetta ótrúlega flott, alveg eins og híbýlin okkar.“

Davíð segist líka hafa séð látna og segir að í æsku hafi hann oft ekki gert sér grein fyrir því hvort fólkið sem hann sá væri lifandi eða látið. „Það er sérstaklega mikið af þeim í hrauninu við gamla Keflavíkurveginn. Ég held að það tengist því hve margir hafa látist í sjóslysum á þessu svæði og þeir halda sig þar.“ Ennþá kemur það fyrir að Davíð áttar sig ekki á því strax hvort sumir séu lifandi eða látnir.

- Auglýsing -

Innsæi

Árin liðu. Davíð varð múrarameistari og stofnaði fyrirtækið Flotgólf. Hann er kvæntur Sólveigu Þorleifsdóttur og eiga þau tvær dætur og einn son.

„Það urðu atburðir fyrir átta árum síðan sem urðu til þess að við hjónin leituðum til Sálarrannsóknarfélags Íslands.“ Hann vill ekki segja hvað gerðist nema: „Að fyrirgefa verknað er ekki það sama og veita samþykki fyrir honum.“ Hann segist síðan þá hafa verið límdur við Sálarrannsóknarfélagið og vera þar í stjórn. Davíð segist líka hafa farið í alls konar mannrækt, til dæmis miðlun og heilun. „Vinnudagurinn er auðvitað við fyrirtækið en að honum loknum tekur við andlega starfið, til dæmis heilun, transheilun, dáleiðsla og samtal.“

- Auglýsing -

Hann segist hafa fengið mörg svör hjá félaginu. „Þá meina ég að þessi atburður var mikið högg fyrir okkur hjónin og það má segja að veröld okkar hafi hrunið á einni nóttu. Það tók mörg ár að vinna úr því og ég myndi segja að þeirri vinnu væri ekki lokið. Það er mjög erfitt þegar maður missir fótanna og það sem maður trúði að væri það rétta í lífinu er horfið. Það tekur mjög mikið á. Ég kom fyrst í hugleiðslu og slökun og það var ekki aftur snúið eftir fyrsta skiptið. Þá kom andinn svo sterkur yfir mig og ég fór að tala við þá sömu og ég talaði við fimm ára gamall; meðal annars álfana sem barnið lék sér við. Ég spurði spurninga og vildi fá að vita af hverju þetta hefði gerst, fékk svör en það er ennþá verið að vinna í þessu.“ Davíð talar um að honum sé umhugað um að ná sátt við liðna atburði og að hann vilji hvetja alla til að fara í bæna- eða hugleiðsluhópa. „Það er svo gott fyrir innri frið þegar „hjartað opnast“.“

Davíð segir mikilvægt að fylgja innsæi sínu og láta ekki fortíðina eyðileggja framtíðina. „Innsæið – sjálfið – veit alveg hvert það vill fara. Það er bara spurning hvort fólk hafi það í sér til að fylgja innsæinu. Ég vil nota tækifærið og hvetja fólk til að fylgja innsæinu. Það er mikilvægt með allar sálir að vera samkvæmar sjálfum sér. Við berum ábyrgð á eigin hamingju og lífi okkar hér á jörðinni. Fólk getur stjórnað því svo mikið sjálft hvernig því líður.“ Davíð talar líka um fortíð og framtíð, að fortíðin sé liðin og það er ekki hægt að breyta henni. „En það er hægt að hafa áhrif á framtíðina.“

„Það er búið að segja mér að ég lifi miklu lengur og ég er glaður með það.“

Millistykki

Það eru skiptar skoðanir á því hvort fólk geti séð og skynjað. Og hvað með að leita frétta hjá framliðnum? „Ég myndi segja að það væri í góðu lagi upp að vissu marki. Fólk ætti ekki að spyrja miðil hvert það eigi að fara eða hvort það ætti að giftast hinum eða þessum. Þetta eru ákvarðanir sem viðkomandi þarf að taka sjálfur.“

Davíð segist sjá látna mest í gegnum tilfinningasjónina en að hann geti líka séð þá með berum augum. „Maður ræður því svolítið sjálfur hvað maður vill verða fyrir miklu áreiti. Þegar ég sé látna hjá fólki sem kemur til mín sem miðils þá sé ég oft móta fyrir þeim en svo koma karaktereinkennin fram.“

Davíð segir að sá sem kemur til miðils þurfa að átta sig á að miðillinn sé fyrst og fremst millistykki milli hans og andans. „Miðillinn sér lítið eða afmarkað ef viðkomandi er hvorki hreinn og beinn né samkvæmur sjálfum sér. Miðillinn virkar hins vegar mjög vel ef fólk kemur með opið hjarta.“

Davíð segir að látnir vilji þó yfirleitt fá að vera í friði. „En þegar látnir fylgja þeim sem koma til miðils koma þeir oft með skilaboð. Þeir sem koma eru oftar en ekki einhverjir sem viðkomandi hefur verið að hugsa um eða hefur langað að komast í samband við. Þeir vilja þá hugga og sinna samtalinu. Það eru líka óteljandi tilfelli þar sem ástvinir vilja koma skilaboðum á framfæri. Oft vilja þó látnir fá að vera í friði. Þeir eru búnir með þennan áfanga og svo tekur næsti áfangi við.“ Davíð segir að sumir látnir vilji vera áfram í jarðvist, þeir komist ekki áfram. „Þessar sálir má kalla flökkusálir en í íslenskum þjóðsögum er talað um drauga. Þeim líður vel í þessu umhverfi og það er ekkert að því.“

Davíð talar um muninn á heilun og transheilun. „Í heilun er snerting og handayfirlagning mikilvæg til að finna til dæmis verki. Þá fer ég þá beint í verkina og segi viðkomandi hvað ég skynja. Þetta gerir heilarinn í vöku og segir þeim sem hann er að heila frá því. Síðan er þeim tíma faktískt lokið. Transheilun fer aðeins öðruvísi fram. Þá sest miðillinn niður og fer í trans-ástand. Transheilari „kúplar sér frá“, er í transi og þá man heilarinn ekki og veit ekki hvað er gert, enda kemur honum það í sjálfu sér ekkert við. Heilarinn er alltaf millistykki fyrir anda sem vinna í gegnum hann, annað hvort í vöku eða í transi. Ég nota mikið bæði heilun og transheilun.

Læknamiðlun er ekki ólík transheilun en læknamiðilinn vinnur þá í rauninni eins og heilari. Hann kemur við meinið, hann fellur oftast ekki í trans.“

Davíð talar líka um dáleiðsluna sem hann býður upp á. Hann líkir dáleiðslu við djúpa slökun og svefn. „Það er hægt að breyta ákveðnu mynstri; þetta er eins og endurforritun. Dáleiðarinn brýtur mynstur sem persónuleikinn er búinn að búa til og þetta virkar vel til dæmis í tengslum við prófskrekk, fóbíu og kvíða.“ Davíð segist hafa gaman af „bíómyndadáleiðslu“ þar sem dáleiðari smellir fingri og fólk fer umsvifalaust að gera ýmsar hundakúnstir. Hann sé að gera allt aðra hluti og hjálpa fólki að breyta eigin lífi til hins betra. Sá sem komi til hans þurfi að vilja breytinguna og þá geti hann hjálpað.

Leiðbeinendur Davíðs eru að hans sögn margir og segir hann þá koma frá ljósinu; hann talar um indíána, Indverja og búdda. Davíð segir leiðbeinendurna vera sýnilega, skæra og í kuflum. „Þetta eru misjafnlega sterkar verur.“ Hann segir að það fari eftir verkefnum hverju sinni hvaða leiðbeinandi kemur. „Þeir vinna mismunandi.“

„Fortíðin er liðin og það er ekki hægt að breyta henni. En það er hægt að hafa áhrif á framtíðina.“

Dauðinn

Þegar Davíð er spurður um heiminn að handan segir hann hann vera nákvæmlega það himnaríki sem hver og einn er með í huganum. „Ég tel mig til dæmis hér á jörðinni vera í himnaríki; einu af þeim. Hins vegar veit ég að eftirlífið er þannig að fólk sem sál verður frjálst. Það er ekkert sem bindur og það er ekkert skemmtilegra en að vera frjáls sál sem getur ferðast um alla heima og geima. Það eru engar reglur aðrar en þær að reyna að komast sem hæst upp í ljósið. Leiðbeinendur eru komnir dálítið langt hvað það varðar.“

Miðlar tala gjarnan um nokkur svið svo sem astralsviðið og jafnvel að þangað fari fólk þegar það dreymir. Davíð segist trúa því að sálir fari í ferðalag þegar fólk sofnar og dreymir, fari í heiminn að handan.

Dauðinn bíður allra og Davíð segir að dauðinn sé fyrst og fremst endurfæðing.

„Sálin gerir upp og tekur út þann lærdóm sem má draga af þessu lífi. Það er enginn dómari hinum megin; enginn nema viðkomandi sem dæmir hvað hann gerði á jörðinni. Þetta uppgjör eftir jarðvistina er það sem látnum finnst erfiðast. Það er stærsta verkefnið. Það er enginn greinarmunur gerður á gjörðum og hugsunum. Það er persónuleikinn sem er fyrir dómi, gerðir hans og hugsanir. Sá látni þarf að gera upp það sem hann mótaði.“

Davíð segist hlakka til þess að deyja. „Mér er það einhvern veginn svo kært. Ég veit ekki af hverju. Ég hélt ég yrði dauður fyrir fimmtugt en ég er orðinn 53 ára. Það er búið að segja mér að ég lifi miklu lengur og ég er glaður með það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -