Grindvíkingar ætla sér stóra hluti í körfuboltanum á næsta tímabili. Nú hefur hinn frábæri leikmaður Dedrick Deon Basile samið við Grindvíkinga.
Basile er íslenskum körfuboltaáhugamönnum að góðu kunnur enda verið einn besti leikmaður Subway-deildarinnar undanfarin ár. Hann hefur leikið með Njarðvík síðustu tvö tímabil og var með 19,8 stig og 7,3 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.
Basile er frábær leikstjórnandi en jafnframt mjög öflugur varnarmaður. Hann lék með Þór Akureyri tímabilið 2020-2021 sem var hans fyrsta tímabil hér á landi.
„Við erum stolt af því að fá Dedrick Deon Basile til liðs við Grindavík fyrir komandi tímabil. Basile hefur sannað með frammistöðu sinni að hann er einn af bestu leikmönnum deildarinnar og það er hvalreki fyrir Grindavík að fá þennan öfluga leikstjórnanda til félagsins. Með komu hans getum við svo sannarlega sett stefnuna hátt á næsta tímabili,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður Körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.
Þá hefur Grindavík nú þegar samið við DeAndre Kane og Daniel Mortensen um að leika með félaginu á næstu leiktíð. Leikmannahópur Grindavíkur fyrir næsta tímabil í Subway-deild karla er því farinn að taka á sig mynd.