Þriðjudagur 23. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Dísella sópransöngkona hreppti Grammy-verðlaun: „Bestu og verstu bylgjurnar eru hverfular“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þessi verðlaun gefa mér gæðastimpil, hæsta gæðastimpil sem ég get mögulega fengið í mínu fagi – en hvað það gerir fyrir frama minn verður að koma í ljós,“ segir Dísella Lárusdóttir sópransöngkona sem fékk í vikunni Grammy-verðlaun ásamt samstarfsfólki fyrir uppsetningu Metropolitan-óperunnar á verki Philips Glass, Akhnaten. Verðlaunin eru fyr­ir bestu óperu­upp­tök­una en Dísella lék burðar­mikið hlut­verk í óperunni, hlutverk Queen Tye. „Þetta er nútímatónlist og hlutverkið mjög raddlega krefjandi. Upptakan var bara „live“ og ég veit ekki hvaða „live sýning“ var tekin upp þótt ég giski á HD-sýninguna sem var „live“ í um 70 löndum víðs vegar um heiminn.

Afhendingin fór fram á svokölluðu „pre-show“ á Grammys, en það var alveg sérhátíð beint á undan hátíðinni sem var sjónvarpað um allan heim. Við vorum tilkynnt sem sigurvegarar rétt um hálftíma fyrir lok þeirrar athafnar. Þá vorum við send beint í viðtöl og myndatökur. Síðan fórum við aftur beint á rauða dregilinn fyrir næstu hátíð, sem var þá sú sem Trevor Noah var kynnir á. Andrúmsloftið á báðum hátíðunum var bara þægilegt. Fólk var að hrósa manni fyrir kjólinn sem maður klæddist og það var mikill stuðningur við sigurvegara kvöldsins, okkur meðtalin.“

Dísella Lárusdóttir

Dísella segir að viðbrögðin hafi verið yfirþyrmandi jákvæð og æðisleg alls staðar frá. „Fólk er að óska manni til hamingju úr öllum áttum, svo mikið að ég hef ekki haft tækifæri til að svara öllum og þakka almennilega fyrir mig. En ég er þakklát fyrir hverja og eina kveðju.“

 

Eitt það flottasta

- Auglýsing -

Tónlistin hefur fylgt Dísellu alla tíð. Hún fór að læra á trompet þegar hún var átta ára og svo lærði hún líka á píanó. Hún söng popptónlist í einhvern tíma, en hún söng á Broadway með hljómsveit Gunnars Þórðarsonar og hóf nám í klassískum söng þegar hún var að verða 22 ára.

„Það var eiginlega pabbi, Lárus Sveinsson, trompetleikari með meiru, sem hvatti mig áfram í söngnum. Honum fannst mikið til minnar söngraddar koma, þótt ég hafi ekki heyrt það sjálf. Þegar hann lést skyndilega árið 2000 var ég staðráðin í að halda áfram á þessari braut, eiginlega fyrir hann. Ég komst að í skóla í Bandaríkjunum, Westminster Choir College of Rider University, og tveimur árum eftir útskrift var ég komin í undanúrslit í Metropolitan Opera National Council Auditions. Sú keppni varð til þess að mér var boðið svokallað „cover“ eða „staðgengill“ á mínu fyrsta hlutverki í Metropolitan Opera eða Met.“ Hún segir að Met sé eitt flottasta ef ekki flottasta óperuhús í heimi. „Þetta er hús sem býður upp á gæði fyrst og fremst og einnig er hugsað vel um okkur listamennina, okkur eru borguð laun á réttum tíma og þetta gefur manni gæðastatus því samkeppnin er hörð og allir vilja þarna inn; þeir sem komast eru því í flestum tilfellum frábærir listamenn þótt auðvitað séu til undantekningar.“

Dísella Lárusdóttir

- Auglýsing -

Einn til tveir mánuðir

Dísella flutti heim til Íslands árið 2014 og býr í Grafarvogi ásamt eiginmanni sínum, Braga Jónssyni, rekstrarstjóra BYKO-leigu. Hann er einnig lærður söngvari og segir Dísella að hann sé almennt frábær einstaklingur í alla staði; hennar besti vinur og kletturinn í lífi hennar. Börnin eru þrjú. Bjartur Lárus er elstur, en hann er að verða 12 ára og hann á Dísella með fyrrverandi eiginmanni sínum. Þau Bragi eiga svo Jökul Orra, sem er sjö ára, og Snædísi Lind, sem er eins árs.

„Ég skrepp svo út öðru hverju til að vinna og er eins og sjómaður; er úti í einn til tvo mánuði í senn og kem svo heim og reyni að verja svipuðum tíma heima áður en ég fer út aftur. Ég er því mjög vandvirk að velja þau verkefni sem ég er tilbúin að taka að mér.

Fjölskyldulífið er vanafast en líka spennandi því við Bragi leggjum áherslu á að börnin fái að upplifa það sem kallast „eðlileg æska“ á íslenskum mælikvarða, en samt fá þau að ferðast því þau fá að koma í heimsókn til mín á þeim stöðum sem ég syng eiginlega í hvert skipti sem ég fer út. Þá er þetta ævintýraleg upplifun fyrir börnin og þau fá að kynnast öðrum menningarheimum; og mögulega fá frí í skóla í smástund, sem er voða sport þó að heimavinnan komi með.“

Dísella Lárusdóttir

Dísella segir að áhugamál sín snúist að mestu um mat og drykk. „Það er eiginlega hálfvandræðalegt að eiga ekki almennilegt áhugamál, en það er nú bara þannig að líf mitt snýst um mína vinnu annars vegar og fjölskyldulíf hins vegar og ég elska að elda ofan í fólkið sem ég elska og framreiða á fallegan hátt; og sötra góðan drykk með.“

Hvað með lífsstílinn vestanhafs? „Lífsstíllinn úti hjá mér allavegana er ekki mjög fjölbreyttur; maður ferðast einn, býr einn og reynir að verja frítíma sínum í allt það sem getur hjálpað manni að vera í góðu raddlegu formi, sem er hreyfing, svefn, næring og raki í lofti fyrir röddina. Samkeppnin er gífurlega hörð og þess vegna leggur maður ALLT á sig til að reyna að vera í góðu raddlegu, andlegu og líkamlegu formi til að halda sinni vinnu.“

 

Silfurtónar

Jú, hún er sópran. Lýrískur sópran.

„Ég hef oftast fengið lýsinguna „silfurtónar“ þegar kemur að minni rödd – mér þykir mjög vænt um þá lýsingu þar sem ég tengi það við fallegan vetur, ís og frost. Verandi frá Íslandi er það bara fullkomið. Mínar uppáhaldsraddir eru samt oft frekar „flauel“ eða „rúbínrauðar“ en það er kannski svona týpískt dæmi um að vilja vera það sem maður er ekki; sumir sem eru með slétt hár vilja vera með krullur og öfugt.“

Dísella segir að í huga sínum sé tónlist nauðsynleg tjáning á tilfinningum. „Hvort sem ég er að tjá eða ég er að hlusta á aðra tjá. Ég vil hlusta á góða tónlist til að upphefja góða stemmingu og lyfta lund eða þá að tónlistin verði hvatning í að hreyfa mig eða gera eitthvað sem ég þarf að gera. Meira að segja þögn er góð tónlist; eða eins og Mozart sagði: „Tónlist er ekki í nótunum heldur í þögninni inn á milli þeirra.“

Tónlistin gefur mér minn frama og leyfir mér að vinna við það sem ég elska að gera en aftur á móti þarf ég oftar en ekki að fórna ýmsu til að stunda þessa vinnu. Bara það til dæmis að vera í háværum fögnuði eða gleðskap þýðir að röddin gæti orðið erfið og rám daginn eftir þó maður sé duglegur að tala ekki né neyta áfengra drykkja; en það sem flestir mögulega fatta ekki er að maður brosir og það eitt lyftir barkanum og þreytir hann. Flestir kannski kannast við þreytu í kinnum við mikið bros, en þetta fer fyrr í hálsinn. Við söngvarar þurfum að vera mjög næmir að lesa í svona lagað til að geta stundað okkar vinnu. Þetta getur stundum hljómað eins og „væl“ í eyrum þeirra sem ekki syngja og það er mjög erfitt að standa með sér á þeim tímum. Fólk skilur þetta þegar íþróttamenn tala um að þurfa að hvílast en því miður sýnir það því oft ekki skilning þegar kemur að söngröddinni. Svefn, hvíld og raki skipta gífurlegu máli í lífi söngvara.“

Dísella Lárusdóttir

Tók mjög á mig

Dísella segist alltaf reyna að vera heiðarleg í sínum túlkunum; ekki reyna að túlka heldur bara segja þá sögu sem tónskáldið og textahöfundur eru að reyna að segja. „Þá reyni ég að nota reynslu mína til að reyna að skilja þeirra túlkun og standa með því. Það er erfitt að segja hvort ég sé að túlka það rétt eða rangt því oftast eru skáldin löngu horfin á braut en þá er mikilvægt að trúa því sem manni finnst textinn og tónlistin vera að segja.“

Fram undan er endurvakning á óperunni Akhnaten eftir Philip Glass í Metropolitan óperunni. „Ég hlakka mikið til að fara aftur út að vinna eftir þennan heimsfaraldur en ég hef að mestu verið heima ólétt og svo með lítið barn í þessum faraldri.“

Hvert er eða hver eru draumahlutverk sópransins? Lýríska sópransins? „Draumahlutverkin eru úr ýmsum áttum. Maður hefur sungið einhver en mig langar enn þá að syngja til dæmis Sophie úr Rosenkavalier og Luciu hans Donizettis. Ég nefni þessi hlutverk vegna þess að ég hef verið bendluð við Sophie frá því ég byrjaði að syngja og mér líður mjög vel í hennar hlutverki, þótt ég hafi ekki sungið hana opinberlega í óperufyrirtæki, og Lucia vegna þess að mér finnst hún alveg brjálæðislega áhugaverð sem karakter og tónlistin undurfögur.“

Dísella sagðist reyna að nota reynslu sína þegar kemur að tónlistinni. Hún hefur upplifað ýmislegt í sínu persónulega lífi.

„Líf mitt litast að miklu leyti af því að mamma mín fékk alvarlegt heilablóðfall þegar ég var 11 ára; hún þurfti að læra að tala upp á nýtt og gat ekki stundað sína vinnu lengur. Mamma og pabbi skildu tveimur árum síðar og það var frekar erfiður skilnaður sem tók nokkur ár og það tók mjög á mig. Svo lést pabbi skyndilega þegar ég var 23 ára. Þessi áföll lituðu tilveru mína töluvert þó ég reyni nú alls ekki að lifa í þeirri fortíð. Það sem ég lærði hins vegar er að vera þakklát fyrir það sem ég hef þegar ég hef það. Ég veit að lífið kemur í bylgjum, háum og lágum, og bæði bestu og verstu bylgjurnar eru hverfular. Þá er nauðsynlegt að njóta góðu stundanna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -