Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Dómur í frönsku sakamáli gegn Björgólfi birtur í árslok – sagður höfuðpaur í svikamyllu beint að eldri borgurum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við dæmum ekki fólk fyrir það sem það veit heldur það sem það gerir,“ sagði Félix de Belloy, verjandi Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi eiganda og stjórnarformanns Landsbankans, í frönsku sakamáli þar sem Björgólfur er sagður höfuðpaur svikamyllu er tengist lánasstarfssemi bankans til lífeyrisþega víða um Evrópu. Vörn sakborninga fór fram í París í vikunni. Mannlíf var á staðnum.

 

Stór hluti þeirra sem telja sig svikin eru lífeyrisþegar en lánin voru sérstaklega kynnt fyrir eldra fólki sem átti skuldlausar og verðmætar eignir sökum aldurs en ekki endilega háar tekjur. Málið er fyrir dómstólum í Frakklandi sökum þess að stór hópur lántaka eru þar í landi. Áður höfðu þau reynt að fá málið unnið í Lúxemborg en ekki tekist. Í gögnum málsins kom fram að tæplega fimmtíu þeirra sem hófu að sækja rétt sinn í kjölfar hruns bankans hafa látist.

Belloy gerði grín af málflutningi saksóknara sem hann sagði gefa til kynna að Björgólfur sé íllskeyttur bankamaður, einskonar kolkrabbi, allstaðar nálægður en þó hvergi. Hann sagði lánin sem hér er um að ræða lítinn hluta af lánum bankans í Lúxemborg og að sá banki sé aðeins lítill hluti af bankasamstæðunni.

Í varnarræðu Belloy mátti heyra kunnuglegt stef frá Íslandi. Belloy gaf til kynna að hér væri réttarmorð í uppsiglingu rekið áfram af refsiglöðum, pólitískum – jafnvel populískum – saksóknara sem ætli sér að sefa almenning með því að dæma bankamann.

Félix de Belloy, verjandi Björgólfs Guðmundssonar, í sakamáli gegn honum í Frakklandi. MYND: Moral Sentiments/Atli Þór Fanndal

Undirritaði falska ársreikninga

Björgólfur var formaður bankaráðs Landsbankans og skrifaði undir ársreikninga hans. Í gögnum málsins er vitnað til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Í henni kemur fram leiðrétt CAD-hlutfall Landsbankans sem er á skjön við ársskýrslu bankans. CAD stendur fyrir Capital Adequacy Directive og er á einföldu máli leið til að meta fjármögnun banka. Samkvæmt reglum á þeim tíma sem hér ræðir þurfti hlutfallið að vera 8,0% af eignum hið minnsta. Hins vegar kemur fram í Rannsóknarskýrslunni að hið opinbera hlutfall sem birtist í skýrslum bankans hafi verið hærra en það var í raun. Í lok ágúst árið 2007 sagði bankinn það 11.60% en samkvæmt leiðréttingu í Rannsóknarskýrslunni er hlutfallið 7,86%. Verjendur hinna ákærðu sökuðu Evu Joly um að hafa skáldað tölurnar. Þær er þó að finna í skýrslunni í bindi þrjú, kafla níu, mynd níu á bls. 20.

- Auglýsing -
Eva Joly er lögmaður lántaka Landsbankans í Lúxemborg. MYND: Moral Sentiments/Atli Þór Fanndal

Niðurstaða í árslok

Málflutningi er nú lokið en niðurstöðu er að vænta í lok árs. Björgólfur er ásamt öðrum sakborningum sakaður um blekkingar og svik. Franskur saksóknari fer fram á fimm ára fangelsi yfir Björgólfi Guðmundssyni og €375 þúsund í sekt. Það er hámarksrefsing. Málið er afar flókið og þúsundir blaðsíðna af skýrslum og sönnunum hafa verið lagðar fram í málinu. Mannlíf ræddi meðal annars við starfsfólk Palais de Justice, þar sem réttarhöldin fara fram, og fékk þær upplýsingar að sjaldan sæist slíkt magn gagna og í þessu máli. Það væri þó að sjálfsögðu ekki án fordæma.

Verði Björgólfur dæmdur yrði hann eini stjórnarformaður og eigandi banka í heiminum dæmdur í fangelsi vegna bankakrísunnar 2008. Á Íslandi var Ólafur Ólafsson, einn stærsti hluthafi Kaupþings, dæmdur í Al-Thani málinu vegna markaðsmisnotkunar. Ólíkt Björgólfi var Ólafur þó ekki stjórnarmaður banka heldur aðeins stór hluthafi.

- Auglýsing -

Björgólfur er sagður höfuðpaur málsins sökum stöðu sinnar sem formaður bankaráðs og stærsti eigandi bankans fyrir hrun. Ásamt syni sínum Björgólfi Thor Björgólfssyni átti hann formlega um 40% í bankanum. Í reynd var hlutfallið nær 50% vegna eignahalds bankans í eigin bréfum í gegnum aflandsfélög.

Dómsalurinn í Palais de Justice þar sem varnir fóru fram í málinu. MYND: Moral Sentiments/Atli Þór Fanndal

Franskir dómstólar mikið sjónarspil miðað við þá íslensku

Franskir dómstólar geta verið mikið sjónarspil í samanburði við þá íslensku. Lögmenn setja gjarnan á svið mikið leikrit með endurtekningum, ýktum handahreyfingum og hlutverkum. Það á að sjálfsögðu við í þessu máli og raunar sérstaklega. Það vakti athygli í aðalmeðferð málsins þegar Björgólfur gekk út úr dómsal ásamt lögmönnum sínum þvert á skipan dómara. Belloy gerði mikið úr meintum ofsóknum sakskóknara sem hann sagði ekki hafa fært sönnun á vitneskju né sekt Björgólfs. Ekki hafi tekist að sýna fram á að hann hafi haft vitneskju um lánin. Hvað þá að hann hafi gerst sekur um brot á lögum. „En hverju svarar saksóknari?“ spurði Belloy dómarann. „Mér finnst ekki líklegt að Björgólfur hafi ekki haft vitneskju um lánin.“ Þetta sagði verjandi Björgólfs sláandi yfirlýsingu frá saksóknara og viðurkenningu á hve veikur grunnur saksóknin er. Málið hafi nú verið tíu ár fyrir dómstólum, fimm ár í rannsókn og tæpar níu vikur í málsmeðferð en þrátt fyrir það hafi ekkert tekist að sanna.

Í þeim skjölum sem saksóknari lagði fram í málinu er Björgólfi líkt við Bernie Maddof, frægan Bandarískan svindlara, sem hlaut hámarksdóm árið 2009 fyrir þátt í Ponzi svindli. Ásamt Björgólfi eru fyrir dómstólnum þeir Gunnar Thoroddsen, fyrrverandi yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg. Olle Lindfors, Thorben Jensen, Morten Nielsen og Vincent Failly, starfsmenn bankans.

Herjað á lífeyrisþega með miklar eignir en tiltölulega lága innkomu

Málið snýr að lánveitingum Landsbankans í Lúxemborg til eldri borgara vikurnar fyrir og í kringum fall íslensku bankanna. Þannig má finna færslur tengdar lánunum frá 10. október 2008. Lánin voru veitt í gegnum Landsbankann í Lúxemborg og beindust fyrst og fremst að eldri borgurum með nokkrar eignir sem mátti veðsetja. Bankinn virðist hafa lofað fólki háar fjárhæðir að láni sem að stærstum hlut var ætlað til stýringar hjá bankanum. Gefið var til kynna að fjárfestingar bankans myndu halda í við vexti lána.

Í stuttu máli voru lánin sett upp sem 100% lán með húsnæði sem veð. Lántakar fengu hluta lánsins í peningum en stærstur hluti var færður í stýringu hjá bankanum. Algengt var að 25% hluti lánanna hafi verið greiddur út en 75% farið í stýringu hjá bankanum. Kærendur segja að þeim hafi verið seld lán sem áttu að standa undir vaxtagreiðslum. Bankinn virðist um leið hafa tekið féð og fjárfest í bankanum sjálfum í stað þess að dreifa áhættunni. Dæmi er um lántaka þar sem 80% fjárfestingarinnar var í íslenskum bréfum. Þegar Landsbankinn féll urðu bréfin verðlaus en lánin sótt af hörku af þrotabúi bankans í Lúxemborg. Sóknin fjallar því um þætti eins og villandi upplýsingagjöf og svo vinnubrögð bankans sjálfs við að fjárfesta féinu.

Fimm ára fangelsi
Saksóknari í Frakklandi segir stjórnendur bankans hafa selt fólki Ponzi-svindl. Það er að segja lofað ávöxtun á fjárfestingu sem ekki var mögulegt að ná með eðlilegum hætti. Þess í stað er fé frá nýjum fjárfestum – sem lofað er gríðarlegri ávöxtun – nýtt til að greiða þeim sem fyrir eru. Hér er þó um lánastarfsemi að ræða sem nýtt er til fjárfesta. Margir lántakenda lentu í vandræðum með lánagreiðslur þegar ljóst varð að ávöxtun stóð ekki undir greiðslum líkt og þau telja að loforð hafi verið gefin um.

Málið er sakamál og því sótt af saksóknara en með aðkomu brotaþola. Sóknin fer fram á fimm ára fangelsi. Hámarksrefsingu samkvæmt frönskum lögum. Auk þess er gerð krafa um €375.000 í sektargreiðslur.

Lögmaður, leikari og rithöfundur
Lögmaður Björgólfs, Felix De Belloy er tiltölulega þekktur í Frakklandi. Belloy sérhæfir sig í hvítflibbaglæpum og á vef fyrirtækis hans Boken er tekið sérstaklega fram að hann sé iðulega verjandi stjórnarmanna banka og fyrirtækja í slíkum málum. Starf hans í þágu Landsbankans í Lúxemborg er eitt þeirra mála sem talin er honum til tekna við að verja hátt setta bankamenn í kjölfar efnahagshrunsins.

Auk þess að vera lögmaður er hann rithöfundur sem gefið hefur út þrjár skáldsögur hjá Robert Laffont útgáfunni. Belloy er einn þeirra sem skrifaði og las sjónvarpsþættina Óð saga lag (La Folle Histoire des Lois ) sem sýndir voru á Public Sénat sem er líkt og Alþingisrásin með dagskrárgerð tengda þinginu og útsendingu 24 tíma sólarhrings.

Árið 2006 var hann einn stofnenda Proxité samtakanna. Proxité skólasamtök sem starfa með ungu fólki í viðkvæmri stöðu. Hann var meðal stofnenda Broken Avocats árið 2009 og hefur starfað þar frá upphafi.

Blaðamaður Mannlífs fylgdist með málsvörninni í París og ræddi við málsaðila. Verjandi Björgólfs Félix de Belloy sá ekki ástæðu til að ræða við fjölmiðla og vísaði til varnarræðu sinnar. Björgólfur var ekki viðstaddur vörn og ekki var rætt við hann við vinnslu þessar fréttar, aðeins er byggt á málsgögnum. Nánar verður fjallað um málið á næstunni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -