Laugardagur 28. maí, 2022
9.2 C
Reykjavik

Hún vildi þóknast elskhuga sínum: Drekkti dóttur sinni í vatnsfötu

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Denise Labbe fæddist í París í Frakklandi árið 1926. Lítið er vitað um hennar hagi á vegferð hennar til fullorðins ára, en þó ljóst að hún varð munaðarlaus þrettán ára að aldri. Þaðan í frá þurfti hún að sjá sjálfri sér farborða og ku hafa lagt hart að sér til að öðlast þokkalega tilveru.
Rétt fyrir þrítugt, árið 1954, hitti Denise karlmann að nafni Jacques Algarron í Rennes. Jacques þessi var þremur árum yngri en Denise og stúderaði heimspeki. Hann las af áfergju verk Friedrichs Nietzsche og mögulega hafði slegið eitthvað saman hjá honum, því hann áleit sig vera gott dæmi um ofurmenni hins þekkta rithöfundar.

Áður en Denise hitti Jacques hafði hún átt í sambandi við aðra karlmenn og með einum þeirra eignaðist hún dóttur, Catherine, sem var tveggja ára þegar þarna var komið sögu. Denise, sem hafði skapað sér ánægju- og hamingjuríkt líf, hreifst af þessum heimspekinema og sú hrifning átti eftir að hafa sorglegar afleiðingar.

Ofurmenni – ofurpar

Sem fyrr segir virtist Jacques hafa sannfærst um að hann væri ofurmenni Nietzsches. Fór Denise ekki varhluta af þeirri ranghugmynd því Jacques bætti um betur og ákvað þau væru ofurpar.

 

Denise Labbe og Jacques Algarron Samband þeirra var stutt en afdrifaríkt.

Hvað sem því leið var Jacques einnig þeirrar skoðunar að Denise þyrfti að sanna sig gagnvart honum, einnig að hún væri öllum öðrum konum æðri. Síðast en ekki síst þurfti hún að sýna að hún sjálf væri verð ástar hans og sambands þeirra.
Nú, Denise stóð frammi fyrir ærnu og framandi verki, en ástin á til að svipta fólk glórunni eins og dæmin sanna.

Neydd til kynmaka við ókunnuga

Ekki aðeins þurfti Denise að sanna tryggð sína og takmarkalausa ást til Jacques, því hann mun hafa neytt hana til kynmaka við ókunnuga menn og í kjölfarið þess þurfti hún að biðja hann afsökunar.

Ofurmenni Jacques áleit sig birtingarmynd ofurmennis Nietzsches.
- Auglýsing -

Brenglun Jacques átti eftir að taka á sig enn þá alvarlegri mynd. Þannig var mál með vexti að hann hafði lesið frásögn um móður sem hafði ákveðið að fyrirfara barni sínu því hún var í sambandi með manni, en barnið var ávöxtur annars sambands.
Jacques klifaði á þessari frásögn við hvert tækifæri sem gafst og hugmyndin skaut rótum í huga Denise. Jacques lagði sín lóð á vogarskálarnar með því að hreinlega að krefjast þess af Denise að hún myrti dóttur sína.

Fyrsta tilraun

Denise ákvað að gera sem Jacques bauð. Fyrsta tilraun hennar til að myrða Catherine tókst ekki sem skyldi. Sögum ber ekki saman um hvort Denise var trufluð við verknaðinn eða hvort móðureðlið hefði orðið yfirþyrmandi.
Í það minnsta varð ekki úr því að hún fleygði Catherine út um glugga heimilis þeirra, daginn þann. Denise var þá í öngum sínum vegna ótta um að hún myndi glata Jacques ef hún hlýddi ekki fyrirmælum hans og kæmi dóttur sinni fyrir kattarnef.
Því varð þessi tilraun Denise aðeins sú fyrsta af þremur.

Björgun á síðustu stundu

Þrýstingurinn á Denise jókst, sennilega hvort tveggja af hálfu Jacques og hræðslu hennar um að hann yfirgæfi hana. Í það minnsta gerði hún aðra tilraun og mátti litlu muna að sú tilraun tækist.
Denise fleygði dóttur sinni í síki, en fékk bakþanka strax í kjölfarið því í raun elskaði hún dóttur sína takmarkalítið. Denise hljóp eftir hjálp og á þessari ögurstundu tókst ókunnugum vegfaranda að draga Catherine upp á síkisbakkann.
Denise var á milli steins og sleggju og innra með henni tókust á þörfin fyrir að þóknast Jacques og ást hennar til dóttur sinnar. Eitthvað varð undan að láta.

Allt er þegar þrennt er

- Auglýsing -

Þriðja tilraun Denise til að þóknast ástmanni sínum varð einnig sú síðasta. Þann 8. nóvember drekkti Denise dóttur sinni í vatnsfötu og síðan sendi hún Jacques símskeyti til að upplýsa hann um að verkið væri unnið; hvort hún væri þá ekki verð ástar hans?

Vatnsfatan Teikning af dómaranum í málinu með vatnsfötuna sem Denise notaði.

Hver viðbrögð Jacques við símskeytinu voru er ekki vitað, en Denise var handtekin þennan sama dag og sagði lögreglunni alla sólarsöguna. Réttað var yfir Denise í Blois í maí árið 1955.

Í fylgd lögreglu Denise var handtekin sama dag og hún framdi morðið.

Það var mat dómstólsins að aðstæður þessa harmleiks væru mildandi hvað Denise áhrærði, en hún fékk lífstíðardóm árið 1956.
Jacques fékk 20 ára dóm, sem skyldi afplánaður í þrælkunarvinnu, fyrir að hafa rekið Denise til verksins.

Smelltu hér til að lesa brakandi feskt helgarblaðið eða flettu því hér fyrir neðan:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -