Drífa Jónasdóttir afbrotafræðingur bendir Reykjavíkurborg á að fjölmargir foreldar hafi engan möguleika á að vera með börnin sín heima milli jóla og nýárs. Því skilur hún illa það fyrirkomulag sem leikskólarnir virðast hafa komið sér upp þar sem hreinlega er ætlast til að börnin komi ekki í skólann.
Skoðun sína setur Drífa fram í færslu á Facebook og fær þar fjölmargar stuðningsyfirlýsingar. „Er ekki kominn tími á nöldur? Hvað með Jólanöldur um fyrirkomulag „frídaga“ í leikskólum borgarinnar. Ekkert akút mál svosem en ég velti fyrir mér vanlíðan og samviskubiti foreldra sem ekki hafa nokkurn einasta möguleika á að hafa barnið sitt heima yfir jól og áramót, sama sosum hver ástæðan er. Ég held að flestum foreldrum þætti ofsalega gaman að búa til sjónvarpsauglýsingu-jólastemmingu heima hjá sér yfir hátíðarnar. Hafa kósý, púsla, lesa góða bók, borða nammi, baka, skreyta piparkökur og allir sjúklega glaðir og hamingjusamir. Njótum stundanna saaaman, verum í faðmi fjölskyldunnar og allt það,“ segir Drífa og heldur áfram.
„En svo eru það börn sem hafa ekki séns á svona kósíheitum heima. Hinar ýmsu aðstæður geta legið þar að baki. Foreldrar þurfa að vinna, einstaða foreldrið þarf að vinna því það er ekki í boði að taka launalaust frí eða vinnan gefur ekki jólagjöf í formi frídaga og enginn getur passað meðan viðkomandi þarf að mæta í vinnuna. Svo geta verið allt aðrar aðstæður fyrir því að fólk þarf/vill nýta vistunartímann; eins og tildæmis mikið stress á heimilinu eða ofbeldi.“
Drífa segir að það sá kúltúr hafi skapast á leikskólunum að reiknað sé með því að börnin mæti þangað ekki yfir hátíðirnar. Hún bendir á að heimilin hafi greitt fyrir vistun og því eigi að gera ráð fyrir þeim í skólann, nema foreldri láti vita um annað. „Í Reykjavík er það gjarnan lenska hjá leikskólastjórnendum að senda mjúklega orðaða pósta á foreldra í aðdraganda hátíðanna. Svo eru foreldrar spurðir í covid gættinni í útifatahorninu þegar þeir koma með börnin á morgnanna: „ertu búin að hugsa málið, með jólin, þúst?“ Þegar foreldri herðir sig síðan upp og segir „ég þarf bara að nýta þessa daga“ þá þarf annað hvort að kvitta á blað, nafn barnsins og taka fram hvaða daga ætlar barnið að koma í dvöl eða að senda leikskólastjóra póst þess efnis,“ segir Drífa og bætir við:„Persónulega er mér ekki vorkunn en ég get ímyndað mér „lélegu foreldrana“ (lesist með kaldhæðni) sem verða að vinna, fá ekki frí, hafa ekki efni á að taka frí eða foreldrana þar sem er ekki allt löðrandi í piparkökuskreytingarkremi og bara stress og rifrildi og streita alla daga, líka dagana milli jóla og nýárs. Væri ekki snjallt hjá Reykjavíkurborg að hafa það sem er default áfram bara default og að ef ég vil halda mínu barni heima yfir jólin þá sendi ég bara línu þess efnis. Annars er gert ráð fyrir að barnið mæti?“