Guðrún Sigríður nokkur upplýsir íbúa Langholtshverfis um nokkuð dularfullt dyraat, ef svo má kalla, sem tengdamóðir hennar varð fyrir í gærkvöld. Hún segir ungan pilt hafa bankaði upp hjá henni og svo spurt hana um guð en hrækt á stéttina þegar honum leist ekki á svarið. Viðbrögð íbúa einkennast einna helst af furðu.
Guðrún skrifar í gær: „Góða kvöldið, tengdamóðir mín lenti í því í kvöld að ungur drengur hringdi dyrabjöllunni hjá henni, spurði hana hvort hún tryði á ákveðin guð og þegar hún neitaði því skyrpti hann á stéttina. Þeim fór ýmislegt annað á milli en henni stóð orðið ekki á sama. Mig langaði bara að heyra hvort aðrir hefðu lent í svipuðu? Hann var snyrtilega til fara og með hlaupahjól með sér.“
Hún hélt að þetta væri líklega dyraat en þó furðulegt að hann myndi spjalla svo við fórnarlambið. „Fyrst þá hugsaði ég bara að þetta væru bara strákar að gera bjölluat en þegar þetta samtal þeirra dróst á langinn þá fannst mér þetta frekar einkennilegt,“ skrifa hún.
Hún svarar spurningum nágranna í athugasemdum. Pilturinn á að hafa verið um 12 til 13 ára. Einni konu líst ekki á blikuna og því svarar Guðrún. „Ég ætla nú ekki að skapa einhverja hræðslu heldur er ég að velta fyrir mér hvort þetta hafi verið mögulega hópur með eitthvað grín og fleiri lent í þessu eða hvort hún sé sú eina. Hún er reyndar aðeins skelkuð og búin að loka öllum gluggum.“
Ein kona veltir fyrir sér hvort málið snúist um rasisma, enda sterklega gefið í skyn að pilturinn hafi verið múslími. „Krakki? Maður bendir krökkum á hvaða hegðun er ekki í lægi og/eða fær upplýsingar um foreldra og hefur samband við þá. Væri sama hræðsla í gangi ef 12 ára krakka hefði spurt hvort viðkomandi trúði á Jesús H. Krist og hrækti ef hann fengi neikvætt svar? Það er okkar allra að hjálpast að við að ala næstu kynslóð. Við felum okkur ekki í gardínunum þegar 12 ára krakki er dóni,“ spyr eina kona.
Þessu svarar fyrrnefnd Guðrún skilmerkilega og segir að atvikið hefði ekki verið minna furðulegt hefði hann spurt um Jesú. „Eins og ég sagði hér áðan fór þeim ýmislegt annað á milli. Mér er alveg sama hvaða trú hann spurði hvort hún aðhylltist og já ég hefði líka póstað þessu hér ef hann hefði spurt um Jesús H. Krist. Það sem mér lék forvitni á að vita var hvort hann hefði bankað uppá hjá fleirum, eða hvort þetta væru mögulega krakkar að gera at.“