„Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað?“

Deila

- Auglýsing -

„Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað?“ Þannig hefst texti Páls Óskars við lagið Ég er eins og ég er. Þema Vikunnar að þessu sinni er sjálfstraust, lífsgleði og vellíðan og af því tilefni fengum við fimm konur til að ræða líkamsímynd, heilbrigði og fleira en þær prýða forsíðuna.

Þessar glæsilegu konur, Birna Íris, Eva Ruža, Katrín Þóra, Snædís Karen og Valentína, eru á misjöfnum aldri og koma úr ólíkum áttum en voru sammála um margt. Til dæmis það að heilsan snúist ekki um töluna á vigtinni og að góð andleg heilsa skipti miklu máli fyrir sjálfsmyndina.

Katrín Þóra, sem er einkaþjálfari og glímdi við alvarlega átröskun fyrir nokkrum árum, segir m.a. í viðtalinu að sér finnist greinilegt að fólk líti neikvæðari augum á feitt fólk en grannt og virðist frekar leyfa sér að hafa orð á því við viðkomandi. Þegar hún glímdi við átröskunina og var greinilega óheilbrigð, var hún til dæmis spurð að því hvort það væri ekki þægilegt að geta klæðst hverju sem var.

Og tvær kvennanna segja frá fordómum sem þær hafa orðið fyrir vegna vaxtarlags síns. Allar voru þær sammála um að athugasemdir vegna vaxtarlagsins væru hvimleiðar. Og Sædís Karen segir meðal annars: „Það á bara enginn að skipta sér af holdafari annarra; það hefur engin persónuleg áhrif á líf þeirra hvort þú ert feitur eða mjór, stuttur eða stór.“

En einhverra hluta vegna er það nú svo að sumum virðist finnast þeir verða að koma skoðun sinni á framfæri.

„Mikið værirðu nú sæt ef þú myndir grenna þig.“

„Ertu bara alveg að hverfa?

„Þú ert ekki bara feit, þú ert offitusjúklingur.“

„Mér finnst þú ekki mega við að missa meira.“

„Það er gríðarleg skerðing á lífsgæðum að búa með henni af því hún er svo feit.“

„Þú borðar eins og fugl. Ekkert skrýtið að þú sért svona horuð.“

Þetta eru allt athugasemdir sem fólk hefur raunverulega látið út úr sér við aðra manneskju. Stundum fylgir það í kjölfarið að fólk meini vel; sé að reyna að hjálpa. En allar svona athugasemdir gera ekkert annað en að sá óvelkomnum fræjum í hugann og særa. Ef til vill er það líka markmiðið að einhverju leyti. Stundum grípur fólk til þess að gera athugasemd við útlitið á öðrum þar sem það hefur ekkert annað verkfæri til að særa eða fá útrás fyrir sína eigin bresti eða ergelsi.

Það er gömul saga og ný að það eru fitufordómar þarna úti. Vissulega fær grannt fólk leiðinlegar athugasemdir við holdafar sitt og ef til vill er það svo að fólk leyfi sér frekar að segja þær upphátt við þá sem eru grannir. En feitt fólk er síður samþykkt af samfélaginu og mætir frekar fordómum. Það fær á sig stimpil að vera latt og nenni ekki að gera neitt í sínum málum og er hreinlega annars flokks oft og tíðum. Dæmi um fitufordóma eru svo mörg að plássið hér nægir ekki undir þau öll.

Árið er 2019 og það er alltaf verið að tala um að fagna fjölbreytileikanum. Er ekki kominn tími til að fagna fjölbreyttum líkamsvexti? Allir eiga sinn tilverurétt í þessum heimi og eiga skilið virðingu og væntumþykju. Óháð því hvernig þeir líta út.

Lífsgæði annarra skerðast ekki vegna vaxtarlags okkar. Lífsgæðin skerðast vegna fáfræði, fordóma, mannvonsku og heimsku.

Sjá einnig: Fimm á forsíðu ræða líkamsímynd og sjálfstraust

- Advertisement -

Athugasemdir