„Ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að tíminn væri naumur“

Deila

- Auglýsing -

Þóra Karítas Árnadóttir segir ferð á vegum UN Women til Malaví, þar sem hún tók viðtöl við brúðir á barnsaldri, hafa rifjað upp sögu móður hennar sem hún skráði í bókinni Mörk. Kynferðisofbeldi gegn börnum eigi sér engin landamæri.

 

„Mamma greindist með mjög sjaldgæfa heilabilun árið 2014 en þá var bókin Mörk, sem sneri að uppgjöri við illskiljanlegt ofbeldi sem hún sætti í æsku, vel á veg komin. Ég hafði sterka tilfinningu fyrir því að tíminn væri naumur en við fengum fimm ár eftir að hún greindist og hún lést í ágúst síðastliðnum. Ef bókin gagnast einum þá er hún þess virði að hafa verið skrifuð, sagði mamma þegar hún ákvað að treysta mér fyrir verkinu en hana grunaði ekki hve bókin átti eftir að rata víða og að nokkru eftir útgáfu hennar ætti eftir að hellast yfir heiminn flóðbylgja í nafni Metoo-byltingar og að saga hennar ætti eftir að vera gefin út í Englandi sem varð raunin í byrjun árs. Mér sýnist eftir þetta að sögur eigi það til að leita einhvern veginn lesendur sína uppi og fæða af sér ný ferðalög en mér skilst að UN Women hafi meðal annars treyst mér fyrir viðtölunum í Malaví vegna umfjöllunarefnis bókarinnar.

Bókin kom út um vor 2015 og um haustið fæddist svo frumburðurinn minn. Ég er sjálfstætt starfandi og varði seinna fæðingarorlofinu 2018 mikið til inni á elliheimili, skrifaði hverja lausa stund og sagði nei við öllum aukaverkefnum. Ég er heppin með skrifin því ég get fengið útrás fyrir sköpunarkraftinn sem býr sterkt í mér um leið og ég gat komið drengjunum mínum á lappirnar en ég hef ríka tjáningaþörf og þörf til að miðla því sem ég nem og skynja enda er ég í grunninn komin af kennurum.“

Þóra segir að of stuttur tími sé liðinn frá láti móður hennar til að hún treysti sér til að tala um sorgarferlið, hún hafi líka fengið þann arf frá móður sinni að horfa frekar fram á veginn en til baka.

„Mamma var með ótrúlegt lífsviðhorf sem ég bý að, fékk ríkan skammt af gleði í vöggugjöf og fannst að maður eigi að lifa lífinu meðan á því stendur. Tilgangurinn er sá að vera hér í samneyti við gott fólk og gleðjast við hvert tækifæri en hún var alls ekki týpa sem kvartaði, heldur sigurvegari sem naut frelsis við að hafa lagt erfiðleika að baki. Ég er henni sammála í því og finn að ég er kresin á að velja það sem gefur mér gleði í augnablikinu. Ég er ekki alin upp til að velta mér upp úr leiðindum þótt ég sé meðvituð um að sorgin þurfi að fá sína útrás og það er engin spurning, hún finnur sér sína leið og þarf rými og tíma. Ég er í undirbúningi og tökum á sjónvarpsþáttum sem ég er að vinna að í augnablikinu fyrir Sjónvarp Símans og verða sýndir 2020. Nú reyni ég að vera skynsöm og hvíla mig hverja lausa stund en það hleður líka batteríin að fást við það sem manni finnst gefandi og skemmtilegt.

„Ég er ekki alin upp til að velta mér upp úr leiðindum þótt ég sé meðvituð um að sorgin þurfi að fá sína útrás…“

Um leið og tökum er lokið ætla ég að ljúka skáldsögu sem ég hófst handa við ári eftir að ég gaf út mína fyrstu bók og vona innilega að lífið færi mér rými til að binda hnútana á bókinni því það er í mér þrjóska sem gagnast mér þegar kemur að því að ljúka því sem ég hef byrjað á en það er mikill styrkur í því að vita að mamma vildi að gleðin væri ferðafélagi í lífinu og því hef ég fullt leyfi til að skemmta mér eins mikið og ég mögulega get. Svo ég er stödd á tímamótum eftir mikið ummönnunarstarf og á þeim tímamótum hef ég gefið sjálfri mér leyfi til að láta verkin tala um leið og ég held áfram að hlúa að mér og mínum nánustu.“

Lestu viðtalið við Þóru í heild sinni í nýjasta Mannlífi.

- Advertisement -

Athugasemdir