Mánudagur 27. mars, 2023
-0.2 C
Reykjavik

„Ég hef aldrei séð mál í líkingu við Guðmundar- og Geirfinnsmálið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Íslensk yfirvöld hafa aldrei með formlegum hætti óskað gagna eða aðstoðar þýskra yfirvalda við uppgjör Guðmundar- og Geirfinnsmálsins þrátt fyrir aðkomu þýska rannsóknarráðgjafans Karl Schütz að rannsókn málsins. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Andrej Hunko, þingmanns Die Linke, í þýska þinginu.

 

Í svarinu kemur þó fram að slík aðstoð yrði veitt ef eftir henni yrði leitað. „Svarið sem ég fékk er að formleg beiðni hafi aldrei borist,“ segir Andrej Hunko í samtali við Mannlíf um svörin. „Spurningin snýst sérstaklega um þýsku alríkislögregluna, BKA, en ráðherra myndi hafa vitneskju af slíkri beiðni. Við getum því skilið á þessu svari að formleg beiðni til viðeigandi yfirvalda hefur aldrei borist frá íslenskum stjórnvöldum.“

Rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins hefur árum saman verið gagnrýnd og nokkur dæmi eru um endurskoðun á rannsókninni. Frá árinu 1997 hafa starfað endurupptökunefndir, starfshópur skipaður af innanríkisráðherra og sáttanefnd í kjölfar sýknunar Hæstaréttar árið 2018.

Karl Schütz var að forminu til sestur í helgan stein þegar hann var ráðinn sem ráðgjafi við rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Utanríkisráðuneytið hafði milligöngu um ráðninguna. Þá voru sönnunargögn send til Þýskalands við rannsókn málsins auk þess sem Schütz var fenginn til að skila áliti vegna fyrirhugaðar endurskipulagningar lögreglunnar á Íslandi. Þá er vert að nefna sérstaklega að Schütz virðist hafa kennt íslenskum lögreglumönnum pyntingar sem voru nýttar við yfirheyrslur yfir sakborningum í málinu.

Þýsk lögregluyfirvöld gætu því haft nokkuð af gögnum er varða rannsókn málsins á áttunda áratugnum.

Alvarlegasta réttarmorð í Evrópu

- Auglýsing -

„Ég hef aldrei séð mál í líkingu við Guðmundar- og Geirfinnsmálið,“ segir Hunko. Hann segir málið hafa komið sér á óvart eftir að honum var bent á það. „Ég las umfjöllun BBC sem sagði málið alvarlegasta réttarmorð í Evrópu.“

Hunko segist ekki vita hvort eða hvernig verði haldið áfram með málið af hans hálfu. Hins vegar telji hann eðlilegt að aðkoma þýska yfirvalda sé skoðuð. „Svo virðist sem þýski ráðgjafinn hafi haft aðkomu að notkun pyntinga við rannsókn málsins. Þetta vekur að sjálfsögðu upp spurningar og er óeðlilegt. Það vekur líka athygli mína að svo virðist sem mikill pólitískur þrýstingur hafi verið á íslensk stjórnvöld að ljúka málinu,“ segir Hunko og bætir við að áhugi hans á aðkomu þýskra yfirvalda snúi líka að því hvort hér hafi verið pólitísk aðstoð. Hávær pólitísk krafa hafi verið hér á landi um að ljúka málinu.

„Hér vitum við að pyntingar voru notaðar til að fá fram játningar. Það er ótrúlegt að hugsa til þess.“

„Minn skilningur er sá að hið sanna sé ekki vitað í þessum málum. Það veit enginn hver ber ábyrgð á hvarfi mannanna. Þá vakna spurningar um hvort það hafi verið pólitískt að afhenda almenningi einhverja sakborninga til að ljúka málinu en ekki leysa. Slíkt er ekki í samræmi við hugmyndir um réttarríkið. Hér vitum við að pyntingar voru notaðar til að fá fram játningar. Það er ótrúlegt að hugsa til þess. Ég veit ekki betur en að Ísland sé meðlimur Evrópuráðsins,“ segir Hunko. Ísland varð meðlimur Evrópuráðsins árið 1950 og tekur meðal annars þátt í svari Evrópunefndar Evrópuráðsins um forvarnir gegn pyntingum og ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu.

- Auglýsing -

Hann bendir á að málið geti hugsanlega haft tengingu í stærra samhengi þýskra stjórnmála. Þjóðverjar séu virkir í alþjóðlegu samstarfi lögregluyfirvalda um heim allan.

„Ég segi það stundum í gríni að Kúba flytji út lækna en Þýskaland flytji út lögreglumenn,“ segir Hunko og bendir á að Þjóðverjar séu framarlega er varðar útflutning á tæknilausnum til eftirlits með almenning. Hann nefnir Sýrland sem dæmi en þýsk fyrirtæki seldu eftirlitstækni til sýrlenskra yfirvalda auk þess sem Þjóðverjar tóku þátt í þjálfun þarlendrar lögreglu. „Við getum kallað þetta útflutning á kúgunartækjum og það er málefni sem ég spyr svolítið út í. Þýskaland flytur enn út vopn en þjálfun og tækni til kúgunar er annað. Auðvitað er svona samstarf alltaf réttlætt með því að við séum nú að kenna öðrum stjórnvöldum um mannréttindi.“

Nánari umfjöllunar um málið er að vænta á man.is á næstunni.

Texti / Atli Þór Fanndal

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -