• Orðrómur

„Ég hef verið kölluð ógeðsleg, óábyrg og sagt að ég fari illa með dýr“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ég fór út í hundaræktun með góðu hugarfari. Mig langaði að gera gott, styrkja tegundina og alfarið mig sjálfa. En nú er bara verið að reyna að eyðileggja orðsporið mitt og það sem ég hef unnið hörðum höndum að í eitt og hálft ár,“ segir hundaræktandinn Erna Christiansen.

Erna fékk ræktunarnafnið sitt samþykkt þann 13. janúar á síðasta ári hjá Hundaræktunarfélagi Íslands og ræktar hún hunda af tegundinni Russian Toy. Í byrjun febrúar flutti hún inn sinn fyrsta hund og fann strax fyrir miklum mótbyr frá aðilum innan hundasamfélagsins, bæði einstaklingum og öðrum hundaræktendum.

„Ég hélt að þetta væri tímabundið en það var það í rauninni ekki. Nú glími ég við daglegt einelti eða andlegt áreiti,“ segir Erna. Þetta einelti og áreiti sem hún talar um lýsir sér í því að aðrir ræktendur hafa talað illa um hana, reynt að sannfæra kaupendur um að kaupa ekki hvolpa af henni, ásakað hana um að svindla á kaupendum, skrifað misfögur orð um hana í opnum Facebook-hópum og hún sökuð um að fara illa með hundana sína, að eigin sögn.

Enginn er vinur þinn í hundaheiminum

Erna lítur á hundana sem börnin sín.

Erna hefur leyft fylgjendum sínum á Snapchat að fylgjast með hundunum sínum en hefur lent í því að þau óhöpp sem hún lendir í séu notuð gegn henni, eins og til dæmis þegar einn rakkinn hennar fótbrotnaði.

„Ég hef verið mjög óheppin og hef lent í nokkrum áföllum með hundana og það er verið að nota þau gegn mér. Þetta eru bara slys sem hefðu getað gerst á hvaða heimili sem er. Slys gerast og það ætti ekki að nota þau gegn manni. Ég hef verið kölluð ógeðsleg, óábyrg og sagt að ég fari illa með dýr. Enginn er vinur þinn í þessum hundaheimi og það er mikil samkeppni í honum,“ segir Erna, mikið niður fyrir.

„Það er ekki hægt að treysta neinum í þessum hundaheimi. Einn daginn eru aðrir ræktendur vinir þínir, hinn daginn er farið að dreifa lygasögum um mann. Fólk sem ég hélt að ég gæti treyst og hefur sjálft lent illa í því í hundaheiminum reyndist ekkert skárra en fólkið sem baktalaði það,“ segir Erna.

Ung stelpa með stóra drauma

- Auglýsing -

Hún hefur oft lent í því að talað sé óbeint illa um sig í hópnum Hundasamfélagið á Facebook og finnst henni það miður.

„Í gegnum Facebook hefur verið skotið mikið á mig óbeint, talað illa um mig, ráðist á mig persónulega og sett út á það sem ég er að gera. Aðrir ræktendur hafa reynt að eyðileggja fyrir mér og senda skilaboð á alla ræktendur mína sem eru erlendis. Í þeim skilaboð hefur verið logið uppá mig alls kyns óhróðri.“

Erna viðurkennir að hafa svarað fyrir sig, en eingöngu til að vernda sinn starfsheiður og hundana sína, sem hún lítur á sem börnin sín.

- Auglýsing -

„Ég er ung stelpa með stóra drauma sem eru loksins að verða að veruleika. Ég er mjög stolt af því sem ég er búin að gera og vil halda áfram án þess að verið sé að dreifa lygasögum um mig og ýkja allt sem ég segi. Ég viðurkenni að ég hef sagt mörg ljót orð og logið að aðilanum sem byrjaði þessar árásir. En ég hafði góða ástæðu til, auðvitað verður maður reiður og sár þegar einhver talar illa um börnin sín. Ég er reið og sár og búin að byrgja það inni í langan tíma. Auðvitað hélt ég að ég gæti talað við þetta fólk sem er að ráðast á mig en ég hef lært það af biturri reynslu að þessi heimur snýst ekki um annað en slúður og óheiðarleika.“

Sökuð um að vera í neyslu

Eitt af því sem hefur verið sett út á varðandi hundaræktun Ernu eru samningar sem hún hefur gert þegar hún selur hvolpa.

„Ég hef eytt rosalega miklum tíma í að vinna í hundunum mínum og öllu í sambandi við þá. Kaup- og fóðursamning hef ég gert sjálf með hjálp frá nokkrum ræktendum og hundafélögum og þeir eru ekkert óvenjulegir. Allir ræktendur eru með mismunandi kaupsamninga. Auðvitað vill manni líða vel með hvert hundarnir fara og ef eitthvað kemur uppá vill maður geta treyst á kaupsamninginn. Það kemur bara engum við hvað hver og einn ræktandi hefur í sínum samningum.“

Ernu þykir líka miður að sögusagnir um hana snúa ekki aðeins að hundaræktun og hundum, heldur einnig að henni sjálfri persónulega.

Hér má sjá samskipti á milli eins ræktanda og vinkonu Ernu.

„Það hefur verið sett út á klæðnað minn á hundasýningum, sagt að það sé eitthvað mikið að mér og ég ætti að vera lögð inn og ég sökuð um að vera í neyslu. Það er sagt að ég vilji bara græða á þessu og ekkert annað, að ég geymi hundana mína í búrum og ég berji þá. Og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Erna hnuggin.

„Sannleikurinn er sá að hundarnir mínir, sem eru fimm talsins, sofa uppí rúmi allar nætur og eru lausir á daginn. Þetta er ástríða mín og mér finnst þetta ótrúlega gaman. Ég geri allt fyrir hundana mína og hef eytt öllum mínum pening og sparnaði í hundaræktun svo ég geti gert þetta vel. Ég flyt inn rándýra hunda en þótt þetta séu ræktunarhundar eru þetta samt börnin mín og verða það alltaf. Eftir að ég byrjaði í ræktun opnaði ég Snapchat-ið mitt svo fólk gæti virkilega séð hvernig ég hugsa um hundana. Ég hef það að markmiði að reyna að þóknast öllum en því miður er ekki hægt að þóknast sumu fólki. Getur fólk ekki bara hugsað um sjálft sig og hvað það er að gera og hætt að niðurlægja aðra?“

Hundinum stolið

Erna hefur einnig lent í því að þessar sögur og baktal hafi borist alla leið til ræktenda sinna í Rússlandi, sem hefur orðið til þess að hún hefur misst hunda sem henni voru lofaðir.

„Ég var búin að greiða fyrir hund úti í Rússlandi og bað annan ræktanda um hjálp með rússneskuna, þar sem ræktandinn skildi litla ensku. Það endar á því að rússneski ræktandinn hættir að tala við mig og fékk ég loks að vita að hann væri hættur við að láta mig fá hundinn. Síðan kemur í ljós að ræktandinn sem ég bað um hjálp frá hafði í raun stolið af mér hundinum og flutti hann inn sjálfur.“

Lokar sig inni

Ástandið er orðið svo slæmt að Erna fer stundum ekki út svo vikum skiptir, enda sögur um hana farnar að breiðast út á hundasvæðum borgarinnar að eigin sögn.

„Stundum langar mig að hætta öllu og fara. Það hafa komið tímabil þar sem ég hef ekki farið út úr húsi þar sem ég er ekki nógu andlega hraust til að takast á við fólk. Ég er hrædd um að standa með sjálfri mér því ég gæti eyðilagt eitthvað. Og stundum er ég stútfull af reiði og tárum yfir því hversu ógeðfellt fólk getur verið,“ segir Erna, en þessi lífsreynsla hefur einnig ýft upp gömul sár.

„Ég hef verið lögð í einelti síðan ég man eftir mér. Ég skar mig alltaf úr. En með hundunum mínum finnst mér ég vera frjáls og tilheyra hópi. Hundarnir hafa komið mér upp úr alvarlegu þunglyndi, kvíða og halda ADHD niðri. Ég tek ekki lengur lyf og þarf ekki á þeim að halda. Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra og þeir hafa hjálpað mér meira en sálfræðingar og læknar. Ég lenti í ýmsu þegar ég var yngri og auðvitað stendur það í manni þegar einelti heldur áfram þegar maður er orðinn fullorðinn.“

Skrif á netinu geta eyðilagt fólk

Hún hvetur þá sem eru í þeim hugleiðingum að fá sér hund að skoða bakgrunn ræktandans vel.

„Skoðið vel bakgrunn fólksins og fræðist um ræktendur. Leyfið ræktandanum að spyrja ykkur spjörunum úr og bjóða ykkur í heimsókn. Fylgist með hvort ræktandinn talar illa um aðra. Passið að fá alla söguna í kringum hundana og spyrja einmitt um slys og annað. Ræktendur geta verið mjög sannfærandi áður en kaup eiga sér stað en láta sig hverfa þegar búið er að borga. Ég vona svo innilega að fleiri lendi ekki í svona ómannúðlegri aðför eins og ég. Fólk verður að átta sig á því að það er hægt að eyðileggja líf fólk bara með því að tala um það eða skrifa um það á netinu.“

Vildi enda líf sitt

Falleg stund.

En hvernig áhrif hefur þessi reynsla á Ernu?

„Ég viðurkenni alveg að ég er ekki fullkominn ræktandi, enda er það enginn í byrjun. Það er mjög sárt fyrir mig sem nýjan ræktanda að fá svona viðbrögð frá fólk sem ætti að vera að hjálpa mér og leiða mig áfram, í stað þess að rakka mig niður. Ég hef upplifað mikla vanlíðan og kvíða af því að setja inn myndir og upplýsingar um hundana mína á samfélagsmiðla vegna þess hvernig er komið fram við mig af öðrum ræktendum. Mér sárnar það mikið hvað er sett út á samningana mína. Ég hef uppskorið mikið baktal fyrir það að leita hjálpar frá öðrum ræktendum í þeim efnum en samt er ég máluð sem ósanngjörn og óþverri. Ég vil bara fá séns og stuðning, þar sem ég er ný í bransanum. Ég er ekki að biðja um vorkunn heldur gagnkvæma virðingu innan þessa heims. Ég er ekki að reyna að gera neinn að vondri manneskju en þessa umræðu þarf að opna,“ segir Erna. Hún vonar líka að hennar saga opni almenna umræðu um einelti.

„Ég vil ekki sjá einelti í okkar samfélagi,“ segir Erna, sem lenti á botninum eftir þessar árásir fyrir stuttu.

„Ég fór til Spánar í lok september á þessu ári. Eftir allt sem ég hafði gengið í gegnum drakk ég ofan í þær tilfinningar og það rann ekki af mér fyrr en á fjórða degi. Seinasta kvöldið lá ég bara grátandi uppí rúmi og vildi enda þetta blessaða líf mitt. Ég gat ekki meir. Þá rann loksins upp fyrir mér að maður hleypur ekki frá vandamálunum. Þarna féll ég á botninn, ekki út af einhverju sem ég sjálf hafði gert heldur út af einhverju sem aðrir höfðu gert mér. Ég var farin að trúa því sem aðrir sögðu að ég væri. Ég tók þetta inná mig. Ég ákvað að nenna ekki þessu bulli og vitleysu. Ég hef fundið frið í mínu lífi eftir alla þessa erfiðleika og vona að ég haldi mínu striki. Ég er sterkari sem aldrei fyrr, þó enn sé langt í land,“ segir Erna, og vill brýna fyrir lesendum að þessu sé ekki beint að öllum.

„Þessu er alls ekki beint að öllum ræktendum, alls ekki. En þið takið þetta til ykkar sem hafið tekið þátt í einhvers konar baktali, slúðri og að niðurlægja aðra. Það eru heldur ekki bara ræktendur sem skrifa illa um mig á netinu. Nú held ég minni leið áfram og vil biðjast fyrirgefningar ef ég hef sært þig eða einhvern sem þú þekkir. Ekki dæma mig fyrir mína fortíð. Ég dæmi þig ekki fyrir þína og það eiga allir sína slæmu daga. Ég nenni ekki að spá meira í fortíðinni. Maður skapar sína eigin framtíð,“ segir Erna og bætir við hvatningarorðum til þeirra sem hafa einhvern tímann staðið í sömu sporum og hún.

„Haltu þínu áfram og þú kemst langt. Settu þér markmið og stattu við þau. Ekki láta einhvern segja þér hvernig þú átt að lifa þínu lífi.“

Texti / Lilja Katrín
[email protected]
Myndir / Eydís ljósmyndun / Úr einkasafni

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -